21.10.1969
Neðri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

15. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Nd. á síðasta þingi og hlaut þá afgreiðslu d., var samþ. einróma í þessari hv. d., eins og það er nú lagt fyrir d. öðru sinni. Þegar við 1. umr. frv. á síðasta þingi urðu nokkrar umr. um einstök atriði frv., einkum og sér í lagi 1. gr. þess. Algert samkomulag varð um það að breyta henni í það horf, sem hún er nú í þessu frv. Hv. menntmn. þessarar d. starfaði mjög rösklega að málinu og varð sammála um till. sínar, sem einnig hlutu einróma samþykki í hv. d., þannig að hv. Nd. afgreiddi málið frá sér að undangenginni ýtarlegri athugun í n. Hins vegar tók hv. Ed. málið ekki til meðferðar, enda var nokkuð áliðið þings, þegar hún fékk það sent.

Þar eð málið hefur hlotið ýtarlega meðferð í hv. Nd., — ég fylgdi því úr hlaði með framsöguræðu, þar sem ég rakti allan aðdraganda málsins og kjarna þeirrar nýskipunar, sem hér er um að ræða, og frsm. menntmn. og menntmn.- menn fluttu auk þess ýtarlegar ræður um málið, — geri ég ráð fyrir því eða veit raunar, að málið er fullkunnugt hv. þdm., svo að ég sé ekki ástæðu til þess að kynna málið hér öðru sinni. Vildi ég mega óska þess, þar eð hv. menntmn. þrautþekkir málið einmitt í því formi, sem það er nú lagt fyrir, að hún geti unnið skjótt og rösklega, eins og hún gerði í fyrra, þannig að hv. Ed. fái málið sem fyrst til meðferðar. Ég læt í ljós þá ósk, að hv. Alþ. afgreiði þetta mál sem fyrst, vegna þess að talsvert verk bíður varðandi samningu reglugerðar samkv. þessu frv. Verði það samþ., mælir það fyrir um talsvert róttækar breytingar á kennsluskipulagi menntaskólanna, og þeir þurfa nokkurn tíma til þess að undirbúa þær breytingar. Þeim mun fyrr sem menntaskólarnir í landinu vita, eftir hvaða reglum þeir eiga að hefja störf á næsta hausti, þeim mun betra fyrir starfsemi skólanna, þeim mun betur undirbúið má gera ráð fyrir, að skólastarfið í menntaskólunum verði á næsta hausti.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að þessu frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.