17.11.1969
Efri deild: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

15. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég bið hv. deild að afsaka, að á mér hefur svolítið staðið, en ég var að svara fsp. í hv. Nd. og gat ekki komið fyrr en því var lokið.

Þetta frv. um menntaskóla, sem hér er nú til 1. umr. í hv. Ed., hefur verið samþ. í hv. Nd. með shlj. atkv. Það var lagt fyrir hv. Nd. á s.l. þingi og hlaut þá mjög rækilega athugun í menntmn. þeirrar d., og um málið fóru fram mjög ýtarlegar umr. í hv. Nd. Eftir að gerðar höfðu verið smávægilegar breytingar á frv. í þeirri d., var það samþ. með shlj. atkv. og vísað til hv. Ed. En vegna þess hve liðið var á þingið, þá kom það aldrei á dagskrá hér í þessari hv. d. Nú hefur málið hins vegar gengið greitt í gegnum hv. Nd. og er nú komið til meðferðar þessarar hv. deildar.

Það er rétt að gera í örfáum orðum grein fyrir tilorðningu þessa frv. og meginefni þess. Frv. er samið af nefnd, sem menntmrh. skipaði 7. marz 1963 til þess að endurskoða gildandi lög og reglugerðarákvæði um menntaskóla. Í nefndina voru skipaðir Kristinn Ármannsson, þáverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, Ármann Snævarr, háskólarektor, Birgir Thorlacius, ráðuneytisstjóri, dr. Broddi Jóhannesson, skólastjóri Kennaraskóla Íslands, Jóhann S. Hannesson, skólameistari Menntaskólans að Laugarvatni, dr. Jón Gíslason, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands, og Þórarinn Björnsson, þáverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri. Árna Gunnarssyni, fulltrúa í menntmrn., var falið að vera ritari nefndarinnar. Sumarið 1964 var Magnús• Magnússon, prófessor, skipaður varamaður háskólarektors, og gegndi hann því starfi þangað til í janúar 1966. Í sept. 1965 var Einar Magnússon, núverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, skipaður í nefndina og Guðmundur Arnlaugsson, rektor hins nýstofnaða Menntaskóla við Hamrahlíð. Þá tók Steindór Steindórsson sæti í nefndinni haustið 1966, er hann hafði verið settur skólameistari Menntaskólans á Akureyri í stað Þórarins Björnssonar. Kristinn Ármannsson gegndi formennsku í nefndinni, þar til hann lézt í júlí 1966, þá var Þórarinn Björnsson skipaður formaður hennar, en vegna veikinda hans tók Jóhann S. Hannesson við formennsku í ágúst 1966 og gegndi formennsku, þangað til nefndin lauk störfum.

Meginbreytingarnar, sem í þessu frv. felast, eru þessar: Það er ekki gert ráð fyrir því, að fjöldi menntaskóla sé lengur ákveðinn í lögum, heldur er gert ráð fyrir því, að stofnun nýrra skóla skuli fara eftir fjárveitingum Alþ. og ákvörðun ráðh. Það er því ekki ástæða til þess að endurtaka gildandi lagaákvæði um það, hvar menntaskólar skuli starfa, en fjölgun menntaskóla er síðan háð fjárveitingum Alþ. og ákvörðun ráðh.

Gert er ráð fyrir því, að próf úr bóknámsdeild miðskóla verði áfram beinasta inngönguleiðin í menntaskóla, en veitt er skýlausari heimild en er í gildandi lögum, um að taka nemendur í menntaskóla af öðrum skólastigum, ef undirbúningur telst vera fullnægjandi. — Ákvæði um 16 ára lágmarksaldur til inngöngu í menntaskóla er afnumið.

Tekin er upp nýskipan um skiptingu námsbrauta innan skólanna, og raskar hún verulega núverandi deildaskiptingu og bekkjakerfi. Námsefni verður þríþætt: kjarni, kjörsvið og frjálsar valgreinar. Kjarninn er það námsefni, sem er sameiginlegt öllum nemendum skólans, hvaða námsbraut sem þeir velja sér. Kjörsviðin, sem verða grundvöllur deildaskiptingar, eru flokkar samstæðra greina, þar sem hver nemandi skal velja einn slíkan flokk í heild. Valgreinar eru það námsefni hvers nemanda, sem ekki telst til kjarnans eða kjörsviðs hans. Er gert ráð fyrir því, að þar geti bæði verið um að ræða viðbótarnám í skyldugreinum og nýjar greinar. Af um 144 einingum heildarnámsefnis má kjarninn svonefndi nema allt að 100 einingum, kjörsviðið skal nema a.m.k. 24 einingum og valgreinar a.m.k. 14 einingum. Kennslugreinar eru ekki tilteknar í frv., eins og nú er gert í gildandi lögum. Er gert ráð fyrir, að í námsskrá og í reglugerð verði nánar ákveðið um efnisinnihald kjarna, kjörsviða og valgreina.

Heimilað er að skipta skólaárinu í námsáfanga eða annir, og skal í lok hvers áfanga úrskurðað um hæfni nemenda til að hefja nám í næsta áfanga. Losað er um ákvæði varðandi árspróf, en lokapróf í hverri grein skal halda, þegar kennslu í henni lýkur að fullu. Stúdentsprófi er náð, þegar nemandi hefur staðizt öll lokapróf á kjörsviði sínu og lokið prófi í öðrum greinum eftir fyrirmælum reglugerðar. Heimilað er að setja í reglugerð ákvæði um námsefni og prófkröfur, er miðist við annað fullnaðarpróf úr menntaskóla en stúdentspróf, þ.e.a.s. fyrir þá, sem ekki stefna að háskólanámi.

Kveðið er á um, að við hvern menntaskóla skuli skipað í eftirtalin störf, auk kennara og skólastjóra: Aðstoðarskólastjóri eða konrektor, bókavörður, deildarstjóri, yfirkennari, námsráðunautar og félagsráðunautar. Þessir starfsmenn mega allir vera í hópi kennara, og má fela sama manni fleiri en eitt starf. Þá er enn fremur gert ráð fyrir stöðum á skrifstofu, þ.e.a.s. fulltrúastöðum og gjaldkerastöðu, einnig stöðu húsvarðar og tækjavarðar. Í heimavistarskólum á auk þess að vera starf húsbónda og húsfreyju. Tölu fastra kennara skal miða við, að eigi komi fleiri nemendur en 20 á hvern fastakennara. En eftir núgildandi lögum skal að jafnaði skipaður einn fastur kennari á hverja bekkjardeild.

Í frv. er nánar skilgreint heldur en gert er í gildandi lögum, hvaða kröfur eru gerðar til háskólamenntunar menntaskólakennara.

Þá er í frv. sérstakur kafli um húsrými og tæki, og er gert ráð fyrir, að í hverjum skóla skuli séð fyrir húsrými, sem nægi til allrar venjulegrar starfsemi skólans, en í því sambandi eru nefndar ýmsar tegundir húsnæðis. Sérstök ákvæði eru um bókasöfn og lestrarsali, kveðið er á um, að kennslustofur skólanna skuli eftir föngum vera fagkennslustofur, þ.e.a.s. að hver stofa sé miðuð við þarfir ákveðinnar kennslugreinar.

Í hverjum skóla skal mynda skólaráð og hér er um algert nýmæli að ræða. Skólaráð skipa aðstoðarskólastjóri, fulltrúar almenns kennarafundar og fulltrúar nemenda. Skólastjóri og skólaráð mynda skólastjórn. Í hverjum skóla skal vera nemendaráð, er skal vera fulltrúi nemenda gagnvart skólastjóra og skólastjórn og henni til aðstoðar í málefnum nemenda. Skólastjórar allra skóla á menntaskólastiginu skulu mynda samstarfsnefnd, og ennfremur eru í frv. ákvæði um skólatækna og skólahjúkrunarkonu.

Varðandi hugsanlegan kostnaðarauka af þeirri nýskipan menntaskólanámsins, sem ég hef nú gefið stutta lýsingu á, er það að segja, að ýmis nýmæli frv. eru þannig vaxin, að mjög torvelt hlýtur að vera að segja um, hvaða breytingar á kostnaði þau munu hafa í för með sér. Á það einkum við um þá breytingu, sem frv. gerir ráð fyrir á kennsluháttum skólanna, þ.e. rýmkun deildaskiptingar og upptöku valgreina. Hér munu ýmis framkvæmdaatriði að sjálfsögðu valda miklu um kostnaðinn. Gera verður ráð fyrir, að settar verði reglur um lágmarksfjölda nemenda, til þess að kennslu verði haldið uppi í valgreinum, og einnig kann fækkun á sameiginlegum skyldugreinum að leiða til sparnaðar á móti kostnaðaraukningu, sem leiðir af fjölgun námsgreina. Verkaskipting á milli skóla kemur og til greina til þess að geta gefið kost á fjölbreytilegri námsbrautum með hagkvæmari nýtingu kennslukrafta.

Það er ljóst, að þessi nýja skipan menntaskólanámsins mun krefjast mikils skipulagsstarfs, en ekki þarf að fullyrða, að hún hljóti óhjákvæmilega að hafa mikla kostnaðaraukningu í för með sér. Þegar hafa verið gerðar tilraunir með ýmsar þær breytingar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, sérstaklega í Hamrahlíðarskóla og Menntaskólanum að Laugarvatni, þannig að nokkur reynsla er þegar fengin af ýmsum þeim nýmælum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Með þessu móti vona ég, að mér hafi tekizt að gera í stuttu máli grein fyrir meginstefnubreytingunni, sem um yrði að ræða í menntaskólanámi, ef þetta frv. yrði að lögum. Ég hygg, að mér sé óhætt að segja, að skólamenn og þá sérstaklega skólastjórar og kennarar menntaskólastigsins, — það á raunar líka við um nemendurna, — séu á einu máli um, að þær breytingar, sem hér er gert ráð fyrir, horfi allar til bóta, þannig að þeir menntaskólar, sem mundu starfa eftir að þetta frv. yrði samþ., mundu verða betri menntaskólar en þeir, sem nú starfa í landinu.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.