17.11.1969
Efri deild: 15. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

15. mál, menntaskólar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til umr. í Ed. í fyrra, lýsti ég eindregnu fylgi við það í meginatriðum. Þá stóð svo á, að það var á síðustu dögum þingsins, sem frv. kom hingað til Ed. Það náði svo langt, að því var vísað til menntmn. En það kom aldrei frá menntmn. Ég vil láta það koma fram hér, að því var lýst yfir skýrt í menntmn. í fyrra, að stjórnarandstöðuflokkarnir væru reiðubúnir til þess að afgr. málið þá, enda þótt það væri í raun og veru óforsvaranlega stuttur tími, sem þessari hv. deild var ætlaður til meðferðar þess. Ég vil að það liggi alveg ljóst fyrir, að það voru stjórnarflokkarnir sjálfir, sem ákváðu að stöðva þetta mál í fyrravetur.