20.10.1969
Sameinað þing: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

1. mál, fjárlög 1970

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Enn er Alþ. komið saman til funda og við óbreyttir þm. höfum daglegt samneyti við 7 hæstv. ráðh. Kynni okkar af ráðh. nú í haust staðfesta betur, en nokkru sinni fyrr þá mynd af ríkisstj., sem hefur verið að grópast æ fastar inn í vitund landsmanna síðustu árin. Þessir hæstv. ráðh. eru ekki aðeins fulltrúar stjórnarstefnu, sem hefur reynzt röng og háskaleg, sem hefur breytt góðæri í illæri og leitt atvinnuleysi yfir þúsundir heimila, heldur eru þeir einnig uppgefnir einstaklingar. Ráðh. eiga ekkert til af þeim krafti og þeirri einbeitni, sem mótaði þá í upphafi viðreisnartímabilsins, meðan þeir höfðu trú á því, að fræðikenningarnar mundu standast. Nú hefur sú trú verið frá þeim tekin, eins og skiljanlegt er, en ekkert hefur komið í staðinn. Æðstu valdhafar þjóðarinnar eru um þessar mundir vonsviknir menn og þreklausir. Þeir lifa samkv. þeirri meginreglu að láta hverjum degi nægja sína þjáningu. Þeir hafa ekkert yfirlit yfir viðfangsefni sín, heldur láta þeir vandamálin hrannast upp umhverfis sig og reyna þá loks að klóra sig út úr ógöngunum, þegar allt er komið í óefni. Þeir hafa ekki frumkvæði að lausn á nokkrum vanda, en láta undan þjóðfélagslegum þrýstingi, jafnt í skólamálum sem atvinnumálum. Til að mynda hefur allt það, sem gert hefur verið í atvinnumálum síðustu árin, átt upptök sín í verkalýðshreyfingunni, þótt hugmyndir hennar og kröfur hafi verið hagnýttar allt of illa og allt of seint. Þetta ásigkomulag hæstv. ráðh. mótar einnig það fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir til 1. umr.

Það er vandasamt verk að semja fjárlagafrv. um þessar mundir. Á síðustu árum hafa orðið þvílíkar sveiflur og kollsteypur í efnahagslífi Íslendinga, að hliðstæður verða ekki víða fundnar. Gjaldeyristekjur hafa dregizt stórlega saman eftir óviðjafnanleg happaár, gengi krónunnar hefur verið fellt tvívegis með tæplega árs millibili, verðbólgan hefur magnazt, örar en nokkru sinni fyrr. Öll hafa þessi umskipti haft hin stórfelldustu áhrif á atvinnuvegi, eigna– og tekjuskiptingu og afkomu hvers manns í landinu að heita má. Alvarlegasti þáttur þessara breytinga er það stórfellda atvinnuleysi, sem hófst haustið 1967 og hefur nú staðið sem samfellt ástand í meira en eitt ár. Það verkefni, sem nú er brýnast allra verkefna og þjóðin þarf að einbeita sér að, er að hefja atvinnuvegi þjóðarinnar á nýjan leik til þeirra afkasta, að hverjum landsmanni bjóðist verk að vinna, auk þess sem nauðsynlegt er að endurskipuleggja allt menntakerfi þjóðarinnar, margfalda framlög til vísindarannsókna og tilrauna og búa þannig í haginn fyrir nýtt framfaraskeið í efnahagsmálum og atvinnumálum. Ef eitthvert vit á að vera í fjárlagasmíði, verða öll þessi atriði að vera snar þáttur fjárl. og allt baksvið þeirra. En því er ekki að heilsa um það fjárlagafrv., sem hér er til umr. Það er engu líkara en hæstv. fjmrh. og félagar hans hafi haft mjög takmarkaða hugmynd um þau vandamál, sem þjóðin á í höggi við um þessar mundir. Þetta frv. er eins og það sé samið í fílabeinsturni án tengsla við fólkið í landinu. Tilgangur þess er ekki sá að breyta núverandi ástandi í þjóðfélaginu. Því er ekki ætlað að létta undir með þegnunum í erfiðri lífsbaráttu. Það er í öllum meginatriðum miðað við óbreytt þjóðfélagsástand. Það er meira að segja ein af forsendum þessa frv., að atvinnuleysi haldist á næsta ári jafnmikið og í ár. Í skýringum á bls. 147 segir svo, að tekjuáætlun sé byggð á þjóðhagsspá Efnahagsstofnunarinnar, en þar sé, eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan, gert ráð fyrir, að atvinnuástand verði ekki lakara, en það muni að jafnaði verða í ár. Atvinnuástandið á ekki að verða lakara, en það er gert ráð fyrir því, að það geti orðið jafn slæmt, að atvinnuleysingja hópurinn geti eftir áramótin á nýjan leik komizt yfir 6.000 manna, að menn verði skráðir atvinnulausir einnig um mitt næsta sumar, að verkafólk haldi áfram að leita sér að atvinnu í nágrannalöndunum eða þiggi boð „agenta“ um að flytjast til Ástralíu. Þannig eru hinar félagslegu forsendur þessa frv., sama þrekleysið, sem einkennir rn. öll. Í rauninni má segja, að þetta frv. sé í öllum meginatriðum sama frv. og lagt var fram í fyrra, tölunum fyrst og fremst breytt í samræmi við breytt verðlagsástand í landinu.

Þetta frv. er í rauninni ekki samið af mönnum með vilja og stefnu, heldur af köldum reiknivélum. Þetta er ómengað íhaldsfrv. En tölunum hefur verið breytt. Þær hafa allar verið hækkaðar í samræmi við þá stórfelldu verðbólguþróun, sem gengur yfir þjóðina ár hvert. Tekjur þær, sem ríkissjóður ætlar að sækja til þegnanna, hækka um tæpan milljarð, nánar tiltekið um 985.6 millj. kr. eða um 13.9%. Þetta eru 5.000 kr. á hvert mannsbarn í landinu, yfir 20 þús. kr. á hverja meðalfjölskyldu fram yfir það, sem ríkissjóður sækir til þegnanna á þessu ári.

En hvernig eru launamenn búnir undir það að greiða þessa hækkun? Síðustu árin hefur raunverulegt kaup launamanna verið skert mjög tilfinnanlega. Jafnvel tekjulægsta fólk í landinu hefur verið neytt til þess að gefa eftir af vísitölubótum sínum, svo til allir verkamenn búa við mun lægri ráðstöfunartekjur vegna minnkandi atvinnu og þúsundir hafa haft reynslu af atvinnuleysi langtímum saman. Svo er nú sorfið að launafólki, að fjölmargir hafa fulla ástæðu til þess að óttast, að þeir missi í búðir sínar og eignir, eins og marka mátti af því, að hæstv. félmrh. sá þann kost vænstan að gefa út brbl. í sumar til þess að létta greiðslubyrði íbúanna í Breiðholti og forða því þjóðfélagslega hneyksli, að verkafólk þar yrði borið út úr nýfengnum íbúðum sínum. Hversu stórfelld tekjuskerðingin hefur verið að jafnaði má marka af því, að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri greindi nýlega frá því, að gjaldeyrisstaðan hefði batnað að undanförnu sökum þess, að innflutningur, mestmegnis á neyzluvarningi, hefði um skeið minnkað um nær 20%. Þannig hafa landsmenn sparað við sig í innkaupum. Það eru þau heimili, sem þannig er ástatt fyrir, sem nú eiga enn að auka greiðslur sínar í ríkissjóð um rúmlega 20 þús. kr. á hverja meðalfjölskyldu. Og vissulega eru það fjölskyldurnar, sem standa undir fjárl. Yfir 80% af tekjunum eru aðflutningsgjöld og söluskattar. Í hvert skipti, sem húsmóðir réttir greiðslu fyrir nauðsynjavöru yfir búðarborð, er hún að greiða ríflegan skatt í ríkissjóð. En hver halda menn, að hlutur gróðafélaga sé? Niðurstöðutala fjárl. er nú rúmar 8.000 millj. kr. Tekjuskattur félaga er hins vegar aðeins 86 millj. og eignarskattur félaga 33 millj. Þessir megin gjaldaliðir félaga í ríkissjóð nema samtals 1 1/2%. Ég staðhæfi, að í víðri veröld fyrirfinnst ekki nokkurt þjóðfélag, þar sem gróðaaðilar bera jafn sáralítinn hluta af tekjum ríkissjóðs.

En eins dæmin eru fleiri. Eins og ég sagði áðan, á tekjuöflun ríkissjóðs á næsta ári að verða yfir 8.000 millj. kr., án þess að í frv. sé gert ráð fyrir nokkrum sérstökum ráðstöfunum til þess að leysa þau stórfelldu nýju vandamál, sem hrannazt hafa upp í efnahagsmálum og menntamálum. Þetta er óhemjulega há upphæð. Hún er hvorki meira né minna en þriðjungur af öllum þjóðartekjum Íslendinga. Ég efast um, að unnt sé að finna margar þjóðir í víðri veröld, þar sem upphæð fjárl. er jafnmikill hluti af þjóðartekjum, jafnvel ekki meðal þeirra þjóða, sem eyða hæstum fúlgum í herkostnað. Nú er það að vísu eðlilegt, að við verðum að eyða háum upphæðum í sameiginlegan kostnað, örfámenn þjóð í stóru landi og sízt hef ég á móti því í meginatriðum, að hinn samfélagslegi þáttur þjóðarteknanna haldi áfram að vaxa. En slíkri tekjuöflun eru takmörk sett. Þar er það sjálf undirstaðan, sem sker úr, atvinnuvegirnir í landinu, framleiðslukerfið og þar með gjaldþol þegnanna. Ef atvinnuvegirnir eru of veikir, ef lagðar eru of þungar byrðar á þá, brotna þeir undan farginu og þá kemur hugvitsamleg tölvuskipting á tekju– og gjaldaliðum fjárl. fyrir lítið. Þarna tel ég vera stórfelldustu veiluna í sambandi við fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. Þetta atriði þurfa alþm. fyrst og fremst að ræða, áður en frv. verður samþ.

Í frv. sjálfu eru vissulega mörg álitamál og deilumál, en ágreiningur okkar um þau atriði verður deila um keisarans skegg, ef undirstöður frv. standast ekki. Framleiðslukerfi okkar er grundvöllur þessa frv. og ef sú undirstaða bregzt, er tómt mál að deila um upphæðir til menntamála, félagsmála, heilbrigðismála og annarra þarfa. Þegar rætt er um vanda framleiðslunnar, er málsvörn ríkisstj. ævinlega sú, að þjóðin hafi orðið fyrir óviðráðanlegum ytri áföllum vegna minnkandi afla og lækkandi verðs á erlendum mörkuðum, útflutnings

tekjur þjóðarinnar hafi dregizt saman um helming frá árunum 1966-68. Þessar lýsingar voru áðan endurteknar í ræðu hæstv. fjmrh. En þetta er aðeins hluti af sannleikanum. Jafn mikilvæg er sú staðreynd, að á árunum 1962–1966 tvöfölduðust útflutningstekjur Íslendinga vegna metafla ár eftir ár og síhækkandi verðlags á útflutningsvörum okkar. Allir raunsæir menn vissu, að þessi höpp gátu ekki staðizt til frambúðar. Það, sem gerzt hefur á árunum eftir 1966, er ekki það, að einhver óumræðileg áföll hafi dunið yfir þjóðina, heldur hafa meðalár tekið við af einstökum happaárum, meðalár, sem stjórnarvöld verða alltaf að reikna með sem grundvelli í áætlunum sínum. Þegar ríkisstj. notar góðærin sem forsendu, fer henni eins og manni, sem unnið hefur stóra vinninginn í happdrætti og telur sig svo verða fyrir stóráfalli, ef hann vinnur ekki stóra vinninginn aftur næsta árið á eftir.

Á árabilinu 1962–1966 áskotnuðust þjóðinni gjaldeyristekjur umfram meðalár, sem námu á núverandi gengi nær 20 milljörðum kr. Á þessu sama árabili hélt ríkisstj. áfram að taka lán erlendis og flytja þá fjármuni inn í landið. Erlendar skuldir þjóðarinnar nema nú yfir 12.000 millj. kr. eða rúmum 60 þús. á hvert mannsbarn í landinu, fjórðungi millj. á meðalfjölskyldu. Árlegir vextir og afborganir til útlanda eru 2.260 millj. kr. eða sem svarar árslaunum 15.000 verkamanna. Greiðslubyrðin er nær 16% af árlegum gjaldeyristekjum, en það er eitthvert hæsta hlutfall, sem um getur í nokkru landi heims. Hagfræðingar telja, að ef greiðslubyrðin fer yfir 10%, blasi við hætta á þjóðargjaldþroti. Ef þessir fjármunir, stórauknar gjaldeyristekjur og óhemjuleg erlend lán, hefðu að verulegu leyti farið til þess að efla framleiðslukerfið, hefði ástandið á Íslandi verið annað en nú. Þá hefðum við getað fengizt við meðalár án þess að lenda í efnahagslegum vanda. En raunin varð öll önnur. Á tekjuárunum miklu drógust ýmsar helztu atvinnugreinar Íslendinga saman, atvinnutækin úreltust og urðu miklu einhæfari en fyrr. Fjármunirnir fóru fyrst og fremst í þjóðfélagslega yfirbyggingu og skammsýna gróðafjárfestingu, sem orðið hefur baggi á þjóðfélaginu, en ekki lyftistöng. Þess gerist ekki þörf, að ég reki þróun einstakra atvinnugreina á þessu tímabili. Menn þekkja þá sögu. Hún hefur svo oft verið rifjuð upp, hvernig togaraflotinn hefur minnkað um meira en helming, hvernig bátaflotinn hefur orðið miklu einhæfari en áður og verr til þess fallinn að fullnægja þörfum fiskiðnaðarins, hvernig freðfiskframleiðslan minnkaði stórlega á Íslandi á sama tíma og hún margfaldaðist í nágrannalöndum okkar.

En e.t.v. er ástæða til þess að minna á nokkrar staðreyndir um iðnaðinn, vegna þess að stjórnarvöld reyna nú mjög að lýsa umhyggju sinni fyrir honum. Hæstv. iðnrh. notar það mjög sem röksemd, að fjármunamyndun í iðnaði hafi aukizt stórlega á þessu tímabili. Vissulega er það rétt. En fjármunamyndun hefur ekkert þjóðhagslegt gildi nema hún sé notuð til framleiðslu. Vélar, sem ekki snúast, verksmiðjuhúsin standa auð og tóm, skautahöll í stað framleiðslu. Staðreyndir af þessu tagi sýna fjármunamyndun, sem er baggi á þjóðfélaginu, en ekki lyftistöng. Það er framleiðsla í iðnaði, sem sker úr og vinnuaflsnotkun í þessari atvinnugrein gefur mjög skýra vísbendingu. Ég skal nefna nokkur dæmi um það, hvernig ástatt var á því sviði 1967 eftir góðæristímabilið. Árið 1967 hafði vinnuaflsnotkun í fiskiðnaði dregizt saman um rúmlega 21% frá næstu árum þar á undan. Vinnuaflsnotkun í málmsmíði hafði minnkað um 16%, vinnuaflsnotkun í vefjariðnaði hafði minnkað um 10%, vinnuaflsnotkun í skógerð og fatagerð hafði minnkað um tæp 30%, vinnuaflsnotkun í pappírsiðnaði hafði minnkað um rúm 17%, vinnuaflsnotkun í skinna– og leðuriðnaði hafði minnkað um 21%. Í heild hafði vinnuaflsnotkun í iðnaði dregizt saman á árinu 1967 frá árinu 1965 um tæplega 9%. Ellefti hver maður, sem starfað hafði í þeirri atvinnugrein, hafði verið látinn hætta, vegna þess að iðnaður okkar stóðst ekki hömlulausa samkeppni við erlendan iðnvarning.

Það eru þessar staðreyndir, en ekki nein óvænt ytri áföll, sem eru meginskýringin á atvinnuleysinu, sem nú hefur verið samfellt í meira en ár og allir óttast, að muni enn magnast til muna á næstu mánuðum. Það eru þessar staðreyndir, sem valda því, að ástæða er til að spyrja hæstv. fjmrh., hvort framleiðslukerfið rísi undir því, að 8 milljarðar kr., þriðjungur þjóðarteknanna, renni í ríkissjóð. Það stoðar ekki að sakast um orðinn hlut, segja menn og rétt er það. En hitt er jafn mikilvægt, að menn færi af reynslunni og kveði upp dóma sína á grundvelli hennar. En það, sem nú skiptir máli, er, að þjóðin sameinist um stórfellt átak til þess að efla atvinnuvegi sína, þann grundvöll, sem staðið geti undir sómasamlegum lífskjörum og vaxandi samneyzlu. En hver er forysta hæstv. ríkisstj. á því sviði? Ríkisstj. neitar enn sem fyrr að hafa nokkra forystu um nýsköpun atvinnuveganna og var sú afstaða ítrekuð af hæstv. fjmrh. í ræðunni áðan. Ríkisstj. hafnar enn sem fyrr þeirri stefnu, að Íslendingar geri og framkvæmi áætlun um þá hagþróun, sem óhjákvæmileg er, ef þjóðin á að halda velli. Áhugi hæstv. ríkisstj, beinist allur að öðru. Framtíðarsýnir hennar eru bundnar við sívaxandi, erlendan atvinnurekstur á Íslandi. Áróðursmenn hennar tala um nýjar, erlendar alúmínbræðslur, einar 6–7 á næsta áratug, olíuhreinsunarstöð í eigu útlendinga, sjóefnaverksmiðju í eigu útlendinga o.s.frv. Og því er haldið fram, að reynslan hafi þegar staðfest, að sú stefna sé rétt að eftirláta útlendingum þróun atvinnulífs á Íslandi, alúmínbræðslan í Straumi sé órækur vitnisburður um það, þaðan drjúpi nú þegar 30 millj. inn á fjárlagafrv. næsta árs, eins og hæstv. fjmrh. tíundaði dyggilega í ræðu sinni hér áðan.

En hverjar eru staðreyndirnar um viðskipti Íslendinga við alúmínbræðsluna í Straumsvík? Ég veitti því athygli, að þegar Búrfellsvirkjun tók til starfa í haust og samningarnir við alúmínbræðsluna tóku gildi, kom ekki til þeirra hátíðahalda, sem tíðkazt hafa á Íslandi við slík tímamót. Það voru ekki lögð fram nein gögn um kostnað við virkjunarframkvæmdir, ekki greint frá því, hver yrði kostnaður á kwst. frá Búrfellsvirkjun, ekki rakið, hvað hin íslenzka virkjun hagnaðist mikið á viðskiptunum við hið erlenda fyrirtæki. Hér var auðsjáanlega um að ræða feimnismál, sem hæstv. ríkisstj. reyndi að fela bak við almennar staðhæfingar.

Ég hef aflað mér vitneskju um þessi feimnismál. Kostnaður við Búrfellsvirkjun hefur farið stórlega fram úr áætlun. Ekki stoðar að nota íslenzkar kr. í þeim samanburði vegna tveggja gengislækkana. Þá yrði hækkunin ekki minni en 150%. En sé reiknað í dollurum kemur í ljós, að í júnílok í sumar var byggingarkostnaður orðinn 25% hærri en reiknað hafði verið með. Fjárfesting í þessu fyrirtæki var orðin fjórðungi meiri, en ætlað var og það hefur raskað öllum áætlunum. Kostnaður við Búrfellsvirkjun og ráðstafanir, sem henni eru tengdar, eins og gasaflsstöðina, sem á að tryggja alúmínbræðslunni öruggt raforkumagn, er nú orðinn 3.770 millj. kr. Reksturskostnaður er sem kunnugt er reiknaður 10% af þeirri upphæð og framleiðslumagnið á ári er 840 millj. kwst. Framleiðslukostnaður á kwst. er því, eins og nú standa sakir, 45 aurar. Og hvað greiðir svo alúmínbræðslan fyrir raforkuna? Hið samningsbundna verð er 22 aurar á kwst. Það verður að vísu bókfært í nokkur ár sem 26.4 aurar, en 4.4 aurar eru fengnir með því að lækka framleiðslugjald alúmínverksmiðjunnar í ríkissjóð um þá upphæð. Hið raunverulega verð er 22 aurar, aðeins helmingur af framleiðslukostnaði. Magnið, sem alúmínbræðslan fær, er ca. 530 millj. kwst. á ári. Greiðsla alúmínbræðslunnar fyrir þá raforku alla verður um 120 millj. kr. undir kostnaðarverði. Þessi met verða aðeins jöfnuð með því að láta íslenzka neytendur greiða þeim mun hærra verð fyrir raforku, sem þeir nota. Íslendingar verða á næsta ári að greiða 120 millj. kr. í eins konar útflutnings uppbætur með raforkunni til bræðslunnar í Straumi. Framleiðslukostnaður á raforku frá Búrfellsvirkjun lækkar til mikilla muna, þegar stöðin tekur til starfa með fullum afköstum. Þegar fullur vélakostur er kominn í raforkuverið og lokið er miðlunarframkvæmdum í Þórisvatni, verður heildarkostnaðurinn kominn upp í 4.370 millj. kr. Raforkuframleiðslan verður þá 1.680 millj. kw–stundir á ári og þá lækkar framleiðslukostnaðurinn á kw–stund í 26 aura. Engu að síður verður hann 4 aurum hærri, en alúmínbræðslan greiðir. Þegar alúmínbræðslan verður komin í fulla stærð, á hún að fá um 1.120 millj. kw–stundir á ári. Fjögurra aura tap á kw–stund jafngildir þannig á ári um 45 millj. kr. Þannig verður ástandið, eftir að framleiðsla Búrfellsvirkjunar verður orðin eins hagkvæm og hún getur orðið. Íslendingar eiga til frambúðar að greiða með raforkunni. Og í þessu dæmi er reiknað með því, að framleiðslan gangi eins vel og vonir standa til. Að ísamyndanir valdi engum truflunum á rekstri eins og ýmsir sérfræðingar óttast þó að verða muni. Þessar alvarlegu staðreyndir komu okkur Alþb.–mönnum ekki á óvart. Við vöruðum mjög við því, að þannig mundi fara, áður en samningarnir voru gerðir og færðum að því margvísleg rök í Þjóðviljanum og ræðum hér á þingi. En því miður var ekki tekið mark á aðvörunum okkar. En nú kemst enginn hjá því að taka mark á þeim staðreyndum, sem við blöstu. Fullyrðingar stjórnarvalda um hagnaðinn af því að eftirláta útlendingum að hagnýta orkulindir okkar hafa reynzt staðlausir stafir. Ekki aðeins flyzt arðurinn af orkuframleiðslunni úr landi, heldur verðum við að greiða stórfé með raforkunni. Þessi samningsgerð er eitthvert stórfelldasta stjórnmála– og fjármálahneyksli, sem gerzt hefur hér á landi. Sú ríkisstj., sem þannig hefur staðið að verki, hefur unnið sér svo mjög til óhelgi, að henni ætti ekki að vera vært í stjórnarráðinu stundinni lengur. Hefðu hæstv. ráðh. pólitíska sómatilfinningu, ættu þeir að segja af sér tafarlaust. Ég trúi ekki öðru en þetta stórmál hafi verið rætt gaumgæfilega innan hæstv. ríkisstj. að undanförnu og ég vil skora á hæstv. fjmrh. að gera í ræðu sinni hér á eftir grein fyrir niðurstöðunum af þeim umr.

Raunar er sitthvað fleira af fjármálatagi, sem hæstv. ráðh. mætti gera grein fyrir, þó að það sé smærra í sniðum en þessi ósköp. Fyrir nokkrum dögum var skýrt frá því í fréttum, að opnuð höfðu verið tilboð í undirbyggingu Vesturlandsvegar um Elliðaár og Ártúnsbrekku. Áætlun Vegagerðar ríkisins um kostnað af þessari framkvæmd nam 25 millj. kr., en lægsta tilboðið, frá Loftorku h.f., var hvorki meira né minna en 10 millj. kr. lægra eða tæpar 15 millj. Þetta eru afar fróðlegar staðreyndir, m.a. vegna þess, að á síðasta ári var samið um lagningu á öðrum hluta af þessum vegi. Það verk var hins vegar ekki boðið út, heldur fékk hernámsfyrirtækið Íslenzkir Aðalverktakar það án samkeppni við aðra og var sú aðferð réttlætt með því, að Aðalverktakarnir hefðu getað lánað ríkissjóði fé. Íslenzkir Aðalverktakar fengu framkvæmd sína greidda með svipuðum reikningsaðferðum og Vegagerð ríkisins notar og námu heildargreiðslúr a.m.k. 30 millj. kr. Þær staðreyndir, sem nú eru komnar fram í dagsljósið, bera það með sér, að ef þetta verk hefði verið boðið út, hefði það trúlega fengizt unnið fyrir 17-18 millj. kr. Íslenzkir aðalverktakar fengu hins vegar einokunaraðstöðu og gátu hagnýtt hana til þess að ná aukalega í greiðslur, sem líkur benda til, að nemi 12-13 millj. kr. af almannafé. Fróðlegt væri, að hæstv. fjmrh. vildi skýra þetta dæmi um meðferð á fjármunum almennings.

Dæmin um hliðstæða óreiðu í fjármálum eru því miður fleiri en svo, að ég geti minnzt á þau hér á takmörkuðum tíma. Það hefur til að mynda lengi verið tímabært, að hæstv. fjmrh. gerði opinbera grein fyrir stuðningi ríkisins við verksmiðjuna Álafoss eða ölgerðina Sana á Akureyri eða fyrirætlunum sínum um ríkisstuðning við Slippstöðina á Akureyri. Á þessum sviðum er um að ræða mjög óvenjulega fyrirgreiðslu, sem tímabært er að rakin sé opinberlega, svo að ljóst verði, hvort getsakir séu réttar, að hér sé verið að nota almannafé til óeðlilegrar pólitískrar fyrirgreiðslu. En eins og ég sagði áðan eru slíkar sakir, hversu alvarlegar sem þær eru, aðeins yfirborð þess meginatriðis, sem starf atvinnuveganna er. Framleiðslukerfið í landinu er undirstaða allra annarra athafna og nýsköpun atvinnuveganna er um þessar mundir lang veigamesta viðfangsefni þjóðarinnar. Það verk verður því aðeins unnið, að til komi opinbert félagslegt frumkvæði, aðeins á þann hátt getur jafnlítið þjóðfélag og það íslenzka sameinað krafta sína til þeirra átaka, sem óhjákvæmileg eru.

Við Alþb.–menn höfum nýlega fært rök að því, að með markvissri nýsköpun í sjávarútvegi, iðnaði og landbúnaði væri hægt að tvöfalda gjaldeyristekjurnar á tiltölulega skömmum tíma og þá væri auðveldara að semja skynsamleg fjárlög og láta þau fullnægja fleiri þörfum. Ráðherrarnir segja, að krafa okkar sósíalista um félagslega forystu í atvinnumálum sé höft, en ekki er hægt að hugsa sér algerri öfugmæli. Voru það höft, þegar keyptir voru 32 nýir togarar í stríðslok að opinberu frumkvæði eða þegar farskipafloti, bátafloti og fiskiðnaður voru endurskipulögð á hliðstæðan hátt? Eru Sementsverksmiðja og Áburðarverksmiðja höft? Eru rafvirkjanir höft? Eru það höft, þegar almenningur hvarvetna um land leggur saman krafta sína til þess að starfrækja frystihús og báta? Félagsleg forysta í atvinnumálum felur að sjálfsögðu í sér aukið frelsi vegna þess, að hún gerir landsmönnum kleift að hagnýta orku sína og beina henni í sameiginlegan farveg, þegar þess gerist þörf. Hitt eru hins vegar höft, þegar menn hafna því, af trúnaði við pólitískar kreddur, að ríkisvaldið beiti sér fyrir nauðsynlegri atvinnuþróun, þar sem einstaklingar vilja ekki eða geta ekki leyst verkefnið. Það eru vaxandi höft, þegar togurum fækkar jafnt og þétt og efnahagsgrundvöllur þjóðarbúsins þrengist. Það eru höft, þegar íbúðarhúsabyggingar detta ofan í þriðjung af þörfinni. Það eru höft, sem landsmenn mega ekki þola, þegar þúsundir manna fá ekki að nota starfsorku sína. Og það eru höft, sem kunna að reynast þjóðinni örlagarík, þegar erlendum auðfélögum er eftirlátið að hagnýta orkulindir okkar með svo furðulegum kjörum, að landsmenn eru skattlagðir stórlega í þágu útlendinganna. Það er þarna, sem andstæðurnar í íslenzkum stjórnmálum mætast. Félagslegur áætlunarbúskapur er eina leið þjóðarinnar, ef hún vill sjálf halda yfirráðum yfir atvinnuvegum sínum og tryggja þá hagþróun, sem gerir okkur kleift að halda til jafns við önnur þjóðfélög. Sú gróðahyggja, sem var kjarni viðreisnarinnar, leiðir hins vegar til þess, eins og reynslan hefur sannað, að þjóðin glatar í vaxandi mæli yfirráðum yfir atvinnuvegum sínum, en þeir lenda í höndum útlendinga, sem beita okkur afarkostum. Þess vegna snúast stjórnmálaátökin í landinu ekki aðeins um það, hvernig við eigum að haga málefnum þessa þjóðfélags, hvernig við eigum að skipta sameiginlegum aflafeng, hvernig við eigum að tryggja félagslegt öryggi. Það er í sívaxandi mæli tekizt á um efnahagslegt fullveldi þjóðarinnar og í uppgjöf hæstv. ríkisstj. andspænis vandamálum atvinnulífsins birtist ekki aðeins stefna hennar, heldur og þau einkenni ráðh., sem ég vék að í upphafi máls míns, þreytan, þrekleysið og áhugaleysið.

Ég er sannfærður um það, að verulegur meiri hluti þjóðarinnar tekur undir mat mitt á ásigkomulagi hæstv. ráðh. Einnig talsverður hluti þeirra manna, sem kusu stjórnarflokkana 1967. En hvert er þá haldreipi ríkisstj.? Verulegur hluti landsmanna er því miður einnig haldinn þreytu og áhugaleysi. Það er furðulegt, hvað fólk hefur látið yfir sig ganga síðustu 2 árin í atvinnumálum og kjaramálum. Menn láta sér að verulegu leyti nægja að mögla hver í sínu horni, en hafa ekki haft þrótt og áhuga til þess að beita samtökum sínum þannig, að það breyti rás þjóðmálanna. Allt of margir ætlast til þess, að aðrir vinni verkin fyrir þá. Menn fara hörðum orðum um forystu verkalýðshreyfingarinnar og geta fært rök fyrir kenningum sínum, en gæta þess ekki, að trúnaðarmenn verkalýðsfélaganna fara með það vald eitt, sem verkafólk færir þeim í lifandi starfi og framtaki. Forystumenn geta aldrei orðið öflugri en samtökin sjálf. Menn segja, að Alþb. sé of veikt og þreklítið, en styrkur þess er á sama hátt kominn undir stuðningi allra þeirra, sem vilja knýja fram breytt stjórnarfar. Það stoðar lítið að einblína á okkur, sem nú sitjum á þingi, meta ræður okkar og till. Það, sem fyrst og fremst vantar, er lifandi þátttaka fólksins sjálfs, raunveruleg þjóðarvakning. Menn knýja aldrei fram neinar breytingar, nema með því að taka þátt í baráttu, leggja eitthvað í sölurnar og vilji menn breyta þjóðmálaástandinu og stjórnarstefnunni á Íslandi, ber þeim að horfast í augu við það af fullu raunsæi, að það getur aðeins, að þar getur aðeins eitt þjóðfélagsafl náð árangri, samtök launamanna og sá flokkur, sem nýtur mest fylgis í verkalýðssamtökunum, Alþb. Þeir, sem vilja breytta stjórnarstefnu, félagslega afstöðu og yfirráð landsmanna sjálfra yfir atvinnutækjum sínum, geta aðeins stuðlað að þeim breytingum með beinni eða óbeinni þátttöku í baráttu verkalýðssamtakanna og Alþb. Önnur öfl, sem duga, eru ekki tiltæk í þjóðfélaginu. Það er að vísu enginn hörgull á framagosum og lukkuriddurum, en árangur þeirra mun aðeins dreifa kröftum og verða þannig til þess að styrkja stjórnarflokkana sjálfa. Það, sem landsmenn þurfa nú á að halda, er annars vegar fullt raunsæi og hins vegar staðfastur stuðningur við sameiginleg markmið, þrátt fyrir ágreining um minni. háttar atriði. Aðeins með slíkri baráttu verður unnt að hrekja atvinnuleysisvofuna úr landi og ná á nýjan leik hliðstæðum lífskjörum og tíðkast í grannlöndum okkar. Aðeins með slíkri sameiginlegri sókn verður unnt að tryggja yfirráð Íslendinga yfir auðlindum sínum og atvinnutækjum.