17.03.1970
Neðri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

15. mál, menntaskólar

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ed. gerði örfáar breyt. á frv. um menntaskóla og hefur menntmn. þessarar hv. d. skoðað frv., eins og það er þaðan komið.

Í 13. gr. frv. eru taldar upp allmargar stöður, sem skulu vera við menntaskóla. Í þessari upptalningu eru mikilvæg nýmæli, þar sem gert er ráð fyrir, að unnin verði margvísleg störf við skólana, sem þar hafa lítt þekkzt til þessa. Hins vegar hefur Ed. breytt hinu almenna ákvæði þannig, að því skuli ekki slegið föstu, að allir menntaskólar hafi öll þessi störf, heldur skuli ákveða það með reglugerð, miðað við stærð þeirra og aðrar aðstæður, hver af störfunum skuli vera við hvern skóla. Er það eðlilegt, því það er ekki nauðsynlegt, að nýir og litlir skólar byrji með allar þessar stöður, heldur fái þeir þær smám saman, eftir því sem skólarnir vaxa og þeir þurfa á þessum starfskröftum að halda.

Þá hafði verið sett í þessa upptalningu starfsheitið „yfirkennari“, og er það hin venjulega staða yfirkennara eða réttara sagt hinn venjulegi titill, sem menntaskólakennarar hafa fengið eftir 16 ár. Ed. hefur tekið þetta út úr upptalningu um fastar stöður á þeim grundvelli, að hér sé raunverulega ekki um starf að ræða. Hins vegar hefur d. sett það annars staðar inn í frv., að kennarar, sem kennt hafi í 16 ár, skuli fá þennan titil, svo að þessi gamla hefð menntaskólanna verði órofin.

Loks hefur Ed. tekið út úr frv. nokkur ákvæði um kennsluskyldu, og gerir það á þeim grundvelli, að slík ákvæði eigi ekki að vera í l., því þar sé um samningsatriði að ræða á milli opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins.

Menntmn. Nd. hefur rætt öll þessi atriði og fellst á þær breytingar, sem Ed. hefur gert á frv.