22.01.1970
Efri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

142. mál, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Frv. það um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum, sem hér er til 2. umr., er til staðfestingar á samkomulagi, sem ríkisstj. gerði við verkalýðsfélögin á s.l. ári. Hér er stigið skref í þá átt, að allir landsmenn fái eftirlaunarétt, og er það fagnaðarefni. Ég mun því greiða þessu frv. atkv. mitt. En ástæðan til þess, að ég tek til máls, er fyrst og fremst sú, að ég vildi leyfa mér að beina því til hv. n., að hún athugaði tvö atriði í sambandi við mál þetta fyrir 3. umr.

Allstór hópur launþega hjá ríki og bæjarfélögum er lausráðinn og ekki aðilar að lífeyrissjóðum. Samtök opinberra starfsmanna hafa unnið að því að fá þá skipan, að starfsmönnum sé ekki árum saman haldið þannig utan við lífeyrissjóðina, en þrátt fyrir það er hópur þessi allstór ennþá, hve stór veit ég ekki, líklega nokkur hundruð.

Á s.l. sumri fékk Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og einstök félög bæjarstarfsmanna loforð um, að eftirlaunamál þessa starfsfólks yrðu tekin til athugunar og reynt að finna lausn á þeim, sem menn gætu við unað. Mér ekki kunnugt um, að niðurstaða í þessu máli sé fengin, og að því er eftirlaunarétt varðar, eru þeir starfsmenn, sem ég er að tala um, hliðstætt settir og þeir launþegar sem frv. fjallar um. Það væri því alveg rökrétt, að ákvæði um þá væru tekin með í þetta frv., í öllu falli er það réttlátt, að þeir verði ekki skildir eftir. Má vel vera, að hentugra þætti að leysa þeirra mál sérstaklega, og skiptir auðvitað ekki máli um formið.

Þá vildi ég einnig skjóta því hér fram, hvort ekki geti verið um aðra launþega að ræða, sem lenda utan við væntanleg ákvæði með eftirlaun, vegna þess að þeir hafa ekki aðstöðu til að vera í verkalýðsfélagi, enda þótt þeir ættu annars að vera í Alþýðusambandinu. Ég á hér ekki við þá, sem eru á félagssvæði tiltekinna verkalýðsfélaga og hafa sjálfir ekki viljað vera í stéttarfélagi. Aðstæður kunna að vera þannig, að mönnum hafi ekki af einhverjum ástæðum gefizt kostur á að vera félagsbundnir, t.d. vegna fámennis og af einhverjum öðrum ástæðum á einhverjum stað. Það er ekki réttlátt að skilja þá menn eftir, sem þannig er ástatt um.

Ég vona að n. sjái sér fært að athuga þessi atriði á milli umr. Ég skal svo ekki lengja þetta frekar.