27.01.1970
Efri deild: 41. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

142. mál, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum

Kristján Thorlacius:

Herra forseti. Við hv. 6. þm. Sunnl. höfum leyft okkur að flytja brtt. á þskj. 284 við þetta frv., sem hér er til umr., um að á eftir 1. mgr. 1. gr. komi ný mgr., svo hljóðandi:

„Auk þeirra, sem taldir eru í 1. mgr., skal veita öðrum launþegum eftirlaunarétt sem hér segir:

1. Starfsmönnum ríkisins, sem ekki eiga aðildarrétt að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóði barnakennara, Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna og Lífeyrissjóði ljósmæðra.

2. Starfsmönnum bæjar- og sveitarfélaga, sem ekki eiga aðildarrétt að lífeyrissjóðum hlutaðeigandi bæjarog sveitarfélaga.

3. Þeim starfsmönnum hjá einkafyrirtækjum, sem ekki eru á félagssvæði verkalýðsfélags, en ættu annars aðildarrétt að Alþýðusambandi Íslands.“

Þessi brtt. fjallar sem sagt um lausráðna starfsmenn hjá ríki, bæjar- og sveitarfélögum og um starfsmenn hjá einkafyrirtækjum, sem ekki eru á félagssvæði verkalýðsfélaganna, en ættu annars aðild að Alþýðusambandi Íslands. Ef frv. yrði samþ. óbreytt, yrðu þessir launþegar, sem eru allmargir, skildir eftir, þegar það skref verður stigið, að öðrum launþegum verða tryggð eftirlaun að vissu marki, en slíkt væri misrétti, að láta nokkur hundruð manns verða útundan, þegar slíkt skref er stigið í rétta átt sem hér er gert.

Við flm. þessarar brtt. teljum öll rök mæla með því, að ákvæði um eftirlaun þeirra starfsmanna, sem um ræðir í brtt., verði tekið inn í frv. Eigi verða heldur séð nein vandkvæði á, að slíkt verði gert. Frv. gerir ráð fyrir því, að fé til þessara eftirlauna komi að 3/4 hlutum frá Atvinnuleysistryggingasjóði og að 1/4 hluta úr ríkissjóði. Ekkert á að vera því til fyrirstöðu, að þessir sömu aðilar greiði eftirlaun til þeirra starfsmanna, sem brtt. gerir ráð fyrir. Í því sambandi má benda á það, að framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs er að 3/4 frá ríki og sveitarfélögum og 1/4 frá vinnuveitendum. Þeir launþegar, sem ekki eru teknir í þetta frv., fá engar atvinnuleysisbætur, þó að þeir verði atvinnulausir, sem vissulega kemur fyrir, þar sem hér er um lausráðna starfsmenn að ræða, og þyrfti auðvitað að leiðrétta þann galla á l. um atvinnuleysistryggingar, og á engan hátt má sá ágalli á ákvæðum Atvinnuleysistryggingasjóðs verða til þess að hindra, að þetta fólk fái eftirlaun. Að því er varðar lausráðna starfsmenn ríkis og sveitarfélaga er það svo, að þeir taka venjulega laun samkv. ákvæðum um laun fastráðinna starfsmanna þessara aðila, en þau laun hafa lengi verið og eru ákveðin nokkru lægri en sambærilegra starfsmanna annarra, m.a. með þeim rökum, að þeir hafi eftirlaunarétt og meiri atvinnustyrk. Það væri því á allan hátt ranglátt, að skilja þetta lausráðna fólk eftir, þegar öðrum er tryggður nokkur eftirlaunaréttur með lögum, og vænti ég þess, að til slíks þurfi ekki að koma og hv. þdm. muni geta fallizt á að samþykkja þá brtt., sem hér liggur fyrir.