29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

142. mál, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, hefur verið afgr. í hv. Ed. með shlj. atkv. á tiltölulega skömmum tíma. Því heyrðist hreyft rétt fyrir þingleyfi alþm., að nokkur efi væri í hugum manna um það, hvort þetta frv. næði fram að ganga á réttum tíma. Það var ekki óeðlilegt út af fyrir sig, en þess ber að geta í þessu sambandi, að frv. barst ekki frá hlutaðeigandi aðilum fyrr en nokkrum dögum fyrir þinglok og voru þá miklar annir á Alþ., þannig að óeðlilegt þótti, að hrista málið í gegn á örskömmum tíma, þar sem um allviðamikið mál er að ræða. Lögfræðileg athugun á frv. leiddi það einnig í ljós, að það skipti ekki máli fyrir framgang málsins, þó að veittur yrði eðlilegur tími á Alþ. til meðferðar þess, og á það ekki að þurfa að skaða meginefni málsins, enda vænti ég þess, að hér, eins og í hv. Ed., verði ekki ágreiningur um málið.

Í samningum þeim milli atvinnurekenda og Alþýðusambands Íslands, sem gerðir voru 19. maí 1969, eru ákvæði um að koma á fót lífeyrissjóðum fyrir félaga í stéttarfélögum, sem eru í Alþýðusambandi Íslands. Í sambandi við þessa samningsgerð lýsti ríkisstj. yfir því, að hún mundi beita sér fyrir greiðslu lífeyris til aldraðra félaga í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands, þ.e. þeirra, sem náð hafa 55 ára aldri í árslok 1969 og voru í starfi sem launþegar í árslok 1967, eftir þeim reglum, sem fylgiskjal með yfirlýsingu ríkisstj. geymir. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstj. skyldi fjár aflað til þessara lífeyrisgreiðslna að 3/4 hlutum úr Atvinnuleysistryggingasjóði og að 1/4 hluta úr ríkissjóði.

Frv. það um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögunum, sem hér liggur nú fyrir, er í samræmi við téða yfirlýsingu ríkisstj. og fskj. það, sem henni fylgir. Yfirlýsingin og fskj. eru prentuð sem fskj. með frv., merkt I og II. Samkvæmt 2. gr. frv. eiga þeir rétt til eftirlauna, „sem fullnægja öllum eftirtöldum skilyrðum: a) Eru orðnir 55 ára 31. des. 1969. b) Hafa náð 70 ára aldri og látið af störfum. Nú tekur maður, sem látið hefur af störfum, upp störf að nýju, og fellur þá niður réttur hans til eftirlauna, á meðan hann heldur áfram störfum. Slík niðurfelling skal reiknuð í heilum mánuðum fyrir hvert almanaksár um sig, en broti úr mánuði sleppt. c) voru í starfi í árslok 1967, sem verið hefði tryggingarskylt samkvæmt samkomulagi atvinnurekenda og Alþýðusambands Íslands frá 19. maí 1969, ef samkomulagið hefði öðlazt gildi 1. jan. 1955. d) hafa áunnið sér réttindatíma samkvæmt 4. gr., sbr. 6. gr. Falli félagi frá eftir 31. des. 1969, sem áunnið hefur sér a.m.k. 5 ára réttindi, skal eftirlifandi maki hans eiga rétt til eftirlauna samkvæmt 6. gr.“, sbr. 4. gr. frv.

Fjárhæð eftirlauna miðast við réttindatíma og meðallaun félagans, eftir því sem nánar greinir í 4., 5. og 6. gr. frv. Skemmri réttindatími en 10 ár veitir sjóðfélaga sjálfum ekki rétt til eftirlauna. Eftirlaun til eftirlifandi maka greiðast hins vegar, hafi hinn látni áunnið sér a.m.k. 5 ára réttindi. Fjárhæð eftirlauna miðast við meðallaun félaga, eins og ég áður sagði, og nema 12.5% af meðallaunum við 10 ára réttindatíma og geta numið 30%, þegar réttindatími er orðinn 20 ár eða meira. Eftirlaun eftirlifandi maka nema 10% af meðallaunum fyrir 5 ára réttindatíma, hækka síðan um 1% fyrir hvert ár, sem réttindatími fer fram yfir 5 ár, og nema mest 25% meðallauna, þegar réttindatími er 20 ár eða meira.

Áætlað hefur verið, að eftirlaun nemi 25 millj. kr. á þessu ári. Í samræmi við það er fjárveiting á fjárl. þessa árs til þessa 6 millj. 250 þús. kr. Kæmi þá í hlut Atvinnuleysistryggingasjóðs að greiða 18 millj. 750 þús. kr. vegna þessara eftirlauna á þessu ári. Stjórnir hlutaðeigandi lífeyrissjóða úrskurða eftirlaun og annast greiðslur þeirra. Eigi hlutaðeigandi eftirlaunaþegi ekki lífeyrisrétt í neinum lífeyrissjóði, skal stjórn lifeyrissjóðs stéttarfélags hans úrskurða eftirlaunin og greiða þau.

Ráðh. skipar 3 menn í nefnd, einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands og einn án tilnefningar, og sé hann formaður nefndarinnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Nefndin hefur umsjón með úthlutun eftirlauna og úthlutar stjórnum lífeyrissjóða, sbr. 8. gr., fé því, sem þarf til greiðslu eftirlaunanna. Hún úrskurðar og um ágreining, sem upp kann að koma um úrskurðun og greiðslu eftirlauna.

Það er nauðsynlegt að hraða afgreiðslu þessa lagafrv., svo að greiðsla eftirlauna geti hafizt frá síðustu áramótum, eins og gert er ráð fyrir í frv. og um var samið við lausn kjaradeilunnar 19. maí 1969. Ég vildi því eindregið beina þeim tilmælum til hv. n., sem fær frv. til meðferðar, að hún reyni að hraða afgreiðslu frv., sem ég vænti að sé ekki ágreiningur um hér í deildinni.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.