29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

142. mál, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það má kannske segja, að það sé óþarfi fyrir mig að taka til máls hér við 1. umr. um þetta mál, þar sem lagt hefur verið til, að frv. verði vísað til þeirrar n., sem ég á sæti í, og gefst mér þar að sjálfsögðu tækifæri til þess að skoða það nánar. — En ég vil taka undir það, sem hv. 10. þm. Reykv. benti hér á, því ég teldi eðlilegt, að þeir innan sjómannastéttarinnar, sem ekki eiga aðild að Alþýðusambandinu, nytu einnig þeirra réttinda, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ef við t.d. skoðum eina skipshöfn, þá er það vitað, að hásetarnir á skipinu eru innan Alþýðusambandsins, þar eru einnig matsveinar og þar eru einnig vélstjórar, en stýrimenn og skipstjórar eru þar ekki. Ég tel því, að það sé óeðlilegt að gera greinarmun þarna á, því að vissulega hefur verið greitt vegna yfirmanna á skipum til Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem á að standa undir þessum útgjöldum að 3/4 hlutum. Ég mundi telja mjög óeðlilegt, að skipstjóri eða stýrimaður, sem hefur farið í land fyrir aldurs sakir, nyti ekki sömu réttinda og aðrir, sem hann hefur haft á skipinu hjá sér, njóta, ef þeir eru meðlimir þeirra félaga, sem eru í Alþýðusambandi Íslands.

En eins og ég sagði, málið kemur til n., sem ég á sæti í, og gefst mér þar tækifæri til þess að skoða það nánar, en vildi þó láta þetta koma hér fram við 1. umr.