17.03.1970
Neðri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

142. mál, eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, um eftirlaun til aldraðra félaga í stéttarfélögum, er komið til þessarar hv. d. frá Ed. Ef ég man rétt, þá var það hér til 1. umr. rétt fyrir þinghlé og var þá vísað til heilbr: og félmn. Við þær umr. kom fram ábending um að eðlilegt væri, að til viðbótar þeim aðilum, sem þarna koma til greina, þ.e. hinum öldruðu félögum í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands, kæmu einnig meðlimir Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, sem ekki eru í stéttarfélögum innan Alþýðusambandsins.

Eftir þinghlé tók n. þetta frv. til athugunar og þar með þessa ábendingu og óskaði upplýsinga frá Farmannasambandinu, um hvað marga aðila gæti verið að ræða þar. Farmannasambandinu gafst ekki tími til að skila fullnægjandi gögnum, þannig að n. eða einstaka menn innan n. töldu ekki ástæðu til þess að flytja neina brtt. við frv. að svo stöddu. Það hafði einnig komið í ljós við nánari athugun hjá forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands, að einhverjir vankantar mundu geta orðið á framkvæmd málsins, ef það ætti að ná til allra þeirra aðila, sem þeir töldu eðlilegt að það næði til. Það varð því samkomulag innan n. um að flytja þá brtt., sem fram kemur á þskj. 419 og er við bráðabirgðaákvæði frv., en brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta: „Gert er ráð fyrir, að endurskoðun fari fram á l. þessum eftir nokkra byrjunarreynslu af l., ef aðilar samkomulagsins frá 19. maí 1969 eru sammála um, að það sé æskilegt vegna framkvæmdar laganna.“

Það gefst því væntanlega síðar tækifæri til að skoða þetta mál nánar, bæði gagnvart meðlimum Farmannasambandsins, einnig kannske fleiri aðilum, sem til greina gætu komið, og einnig í sambandi við þá aðila innan Alþýðusambandsins, sem l. koma ekki til með að ná til nú í byrjun.

Ég skal taka það fram, að þó að þessi dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins hjá heilbr.- og félmn., þá á það ekki að koma neitt að sök í sambandi við framkvæmd I. né í sambandi við greiðslur til þeirra aðila, sem þarna eiga hlut að máli. Að þeim skýrslum, sem gert er ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða, að safnað skuli saman, hefur verið unnið, og þeir aðilar, sem eiga að sjá um framkvæmdina, munu hafa fengið þær til athugunar, og ætti það ekki að tefja fyrir, að greiðslan fyrir fyrsta ársfjórðung ætti að geta orðið á þeim tíma, sem gert er ráð fyrir í 7. gr. frv.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr., og leyfi mér að benda á þær brtt., sem n. hefur einróma flutt á þskj. 419.