20.11.1969
Neðri deild: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta til l., 96. mál á þskj. 112, er um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium um álbræðslu í Straumsvík. Eins og segir í 1. gr. er tilgangurinn með því að bera fram þetta frv. og fá það samþ. sem lög, að staðfesta samning milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium, dags. 28. okt. s.l., um viðauka við aðalsamninginn milli sömu aðila, dags. 28. marz 1966, um byggingu og rekstur álbræðslu við Straumsvík í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar.

Að formi til er þetta frv. byggt upp alveg í samræmi við aðalsamninginn á sínum tíma eða frv. um lagagildi aðalsamningsins, og þessi viðaukasamningur er prentaður sem fskj. með frv. þessu á íslenzku og ensku. Síðan fylgja aðrir samningar, viðaukasamningar, sem breyta þarf einnig og fylgdu á sínum tíma frv. um lagagildi aðalsamningsins 1966, en hafa út af fyrir sig ekki lagagildi, en verða að vera í samræmi við aðalsamninginn.

Það kann við fyrstu sýn að virðast nokkuð erfitt að átta sig á því, hvað felst í viðaukasamningnum, en einfaldast er að fá yfirlit um það með því að fara yfir ath. lagafrv., þar sem efnisatriði málsins eru rædd. Um aðdraganda þessa frv. get ég vísað til grg. iðnrn. um aukinn hraða við byggingu álbræðslunnar við Straumsvík og stækkun hennar, dags. 13. maí 1969, en þessari grg. var útbýtt meðal þm., áður en þingi lauk í vor.

Samningurinn, sem nefndur er hér I. viðauki við aðalsamninginn, fjallar efnislega um tvennt. Annars vegar er því slegið föstu, að byggingu síðari áfanga álbræðslunnar, þ.e. síðari kerskálans, og þeim mannvirkjum, sem honum fylgja, verði hraðað til verulegra muna frá því, sem fyrri skuldbindingar gerðu ráð fyrir, og skal þeirri byggingu að fullu lokið 1. sept. 1972, en fyrri frestur náði til ársins 1975. Þá var samkv. fyrri samningi gert ráð fyrir því, að þegar lokið væri fyrsta áfanganum, skyldi byggð innan þriggja ára viðbót við verksmiðjuna, sem hefði 60 MW málraun og um 30 þús. tonna ársafköst, og þrem árum þar frá skyldi lokið jafnstórri nýrri viðbót, sem svaraði til u.þ.b. 30 þús. tonna árlegra afkasta. Þessum framkvæmdum skal sem sagt hraðað til ársins 1972, þannig að þeim ljúki að fullu þrem árum fyrr en áður var ráðgert.

Svo er jafnframt í öðru lagi skotið hér inn samningsgerð um stækkun á álbræðslunni. Stækkunin nemur 1/6 hluta umfram það mark, sem gildandi samningar náðu til, þ.e. úr 120 í 140 MW málraun, en í því felst stækkun, sem svarar til 10–11 þús. lesta ársafkasta á hrááli. Það hefur verið gert ráð fyrir því, eftir reynslu og nokkuð í samræmi við aukna tækni, að þar sem áður var reiknað með 60 þús. tonna ársframleiðslu, þegar álbræðslan væri komin í full afköst, þá gæti hún nú orðið allt að 66 þús. tonn, og með þessum viðauka gætu ársafköstin numið í heild 70–77 þús. lestum á ári samanlagt. Er gert ráð fyrir, að þessum viðbótaráfanga verði á vissan hátt skotið inn í framkvæmdirnar og honum verði lokið í júlímánuði á næsta ári. Það er ætlazt til þess, að þessi viðbótaráfangi verði að öllu leyti háður sömu samningsskilmálum og álbræðslan er nú, samkv. gildandi samningum frá 1966.

Þá er einnig að geta þess, að nokkur breyting er gerð á hafnar- og lóðasamningnum, en efni málsins var áður þannig, að Íslenzka álfélagið skyldi greiða jafnvirði þess kostnaðar, sem fór í að gera höfnina, með árlegum greiðslum eða annuitetsgreiðslum í 25 ár, og kæmi sú greiðsla í stað vörugjalda í höfninni á þessu tímabili. Nú er í þess stað ráðgert, að félagið greiði kostnaðinn með afborgunum, sem lokið verði á 15 árum. Þetta er þannig hugsað, að afborganirnar eru felldar niður af láni, sem gert var ráð fyrir, að takast mætti að fá til þessara hafnarframkvæmda, og að vissu leyti má því segja, að greiðslunum sé þannig komið fyrir, að þær falli saman við greiðslur af þessu láni, og á vissan hátt verður því félagið beinn greiðandi á láninu. Með þessu móti eru ríkissjóður og Hafnarfjarðarkaupstaður firrtir þeirri áhættu að þurfa að greiða niður hafnarkostnaðinn á skemmri tíma en þeim, sem félaginu var ætlaður til endanlegrar greiðslu á honum. Af hálfu fyrirsvarsmanna Hafnarfjarðarkaupstaðar hafa þeir ekkert við þetta að athuga að öðru leyti, og hafnar- og lóðasamningarnir eru taldir þeim til hagræðis.

Það, sem skiptir máli í þessu sambandi, er það, að mér þótti ástæða til þess að leita eftir því, skömmu eftir að álsamningarnir voru gerðir, — ég held, að það hafi byrjað snemma á árinu 1968, en þó einkum haustið 1968, — að þeim fyrirhuguðu framkvæmdum, sem þá voru til samningar um, yrði hraðað, þannig að lokamarkinu, um 60 þús. tonna álbræðslu, yrði náð þrem árum fyrr en ella, þ.e.a.s. 1972. Með þessu taldi ég, eins og á stóð í þjóðfélaginu, að framkvæmdirnar yrðu í beinna framhaldi hver af annarri og ávinningur fyrir okkur að ljúka þeim nú með meiri hraða, þó að við á sínum tíma, þegar samningarnir voru í undirbúningi, hefðum talið heppilegast, að framkvæmdirnar þyrftu ekki að ganga of fljótt, vegna hættunnar, sem við töldum þá, að kynni að geta stafað af skorti á vinnuafli. Skal ég ekki fara um það fleiri orðum, en hv. þm. er öllum ljós sú breyting, sem síðan hefur orðið á í þessu efni.

Með þessari framkvæmdaáætlun yrði stækkuninni lokið um mitt sumar 1970 og undirbúningsframkvæmdir mundu þá þegar hafnar að lokastækkuninni, og mundu verklegar framkvæmdir væntanlega hefjast, eftir því sem gert er ráð fyrir, á árinu 1971 og verða svo lokið, eins og gert er ráð fyrir, 1. sept. 1972, svo að með þessu myndast samhengi í framkvæmdunum.

Við, sem stóðum að gerð þessara samninga, bæði fyrir hönd ríkisstj. og Landsvirkjunar, töldum, að það væri verulegt hagræði eða hagsbót að þessari samningagerð. Byggðist það m.a. á því, að tekjuaukning mundi verða veruleg, bæði fyrir Landsvirkjun og einnig af framleiðslugjaldinu. Auðvitað var það okkar áhugamál nú eins og fyrr að geta fengið hærra raforkuverð en upphaflega var um samið, en þess var ekki kostur og við urðum þá að velja á milli þess að halda því, sem áður var um samið, eða að fara þá leið, sem hér er stungið upp á. Það kom fram í skýrslunni frá því í maí og er reyndar prentað hér í grg., að Landsvirkjun taldi mikið hagræði fyrir sig, að þessi samningsgerð gæti farið fram, og mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið neinn ágreiningur um það. Þess er einnig getið á bls. 3 í skýrslunni um hagkvæmni Landsvirkjunar af stækkun bræðslunnar, að niðurstöður þeirrar fjárhagsáætlunar, sem fjallað er um hér að framan, er að finna á fskj. 2 með skýrslunni, sem fylgir einnig hér sem fskj. B. Samkv. því verður afkoma Landsvirkjunar allverulega betri, þegar gert er ráð fyrir stækkun bræðslunnar. Sem dæmi um það má einkum nefna eftirfarandi, og skal ég lesa upp þá liði, því að þeir greina einna gleggst frá því, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Nettótekjur Landsvirkjunar 1969–1985 áætlast 465.1 millj. kr. hærri með stækkun bræðslunnar en án hennar.

2. Sjóðseign Landsvirkjunar í árslok 1985 áætlast 148.7 millj. kr. hærri með stækkun bræðslunnar en án stækkunar, enda þótt afborganir með stækkuninni séu 110 millj. kr. hærri til ársloka 1985.

3. Á erfiðustu rekstrarárunum, þ.e. 1970–1972, er arðgjöfin af nettófasteign hærri með stækkuninni, eða 5.7% í stað 5%. Á árunum 1973–1985 er hins vegar arðgjöfin svipuð í báðum tilfellum, eða að meðaltali rúm 10%.

4. Þrátt fyrir 362.5 millj. kr. hærri fjárfestingu með stækkuninni eru lántökur 1969–1985 aðeins 136.2 millj. kr. hærri en án stækkunarinnar.“

Gerð er grein fyrir því í aths. við frv. á bls. 13, hver munur sé á greiðslu fyrir áætlaða rafmagnssölu með auknum framkvæmdahraða og viðbótarstækkun annars vegar, og að óbreyttum samningum án hraðaaukningar hins vegar, og þar er í fyrra tilfellinu reiknað með orkusölu fyrir 3734.4 millj. kr., en að óbreyttum samningum fyrir 2838 millj. kr., þ.e.a.s. brúttótekjur Landsvirkjunar eru taldar mundu verða 896.4 millj. kr. meiri. Síðan segir í skýrslunni, að af þessum brúttótekjum muni mjög verulegur hluti koma fram sem aukning á hreinum nettótekjum, þar sem framleiðslugeta Búrfellsvirkjunar nýtist miklu fyrr en ella. Og það er sú upphæð, sem ég nefndi áðan, 465 millj. kr., sem nettótekjurnar eru taldar mundu verða hærri með þessari stækkun heldur en ef samningar væru óbreyttir. En menn verða einnig að hafa það í huga, að þá er tekið tillit til þeirrar fjárfestingar í nýjum virkjunum, sem stækkunin kallar á, þegar frá líður, og það er áætlaður kostnaður af 20 MW virkjun, til þess að Búrfellsvirkjunin gæti enzt jafnlengi með þessari stækkun og gert var ráð fyrir í fyrri samningum, en þar munar, ef ég man rétt, tveimur árum, til 1974 ef bræðslan verður stækkuð, en til 1976 samkv. fyrri samningum. Kostnaður af slíkri aukningu er tekinn með, þegar reiknuð er út hagkvæmnin af þeirri stækkun, sem hér er gert ráð fyrir.

Í annan stað er svo framleiðslugjaldið, sem svo hefur verið kallað. Það breytist náttúrulega, bæði vegna þess að framkvæmdunum er nokkuð hraðað, og sérstaklega vegna þessarar viðbótarstækkunar, þ.e. um 10–11 þús. tonna ársframleiðslu, sem einnig er gert ráð fyrir. Fyrir þessu er gerð grein á bls. 14 í aths. og niðurstöður þeirrar grg., sem ég skal ekki fara að þylja yfir hv. þm., eru þær, að ef reiknað er með framleiðslugjaldinu til 1. okt. 1994, þá yrði það, miðað við það framleiðslumagn, sem menn reikna með, samtals 3846.6 millj. kr., en að óbreyttum samningum án hraðaaukningar 3154.5 millj., þannig að mismunurinn á 1 og 2, þ.e.a.s. auknum framkvæmdahraða og óbreyttum samningum, er þar talinn mundu verða 692.1 millj. kr. Þetta mundi þýða, eins og fyrirhugað er að skipta þessu gjaldi, að Atvinnujöfnunarsjóður fengi á þessu tímabili í sinn hlut 2879.6 millj. kr., Iðnlánasjóður 157.7 og Hafnarfjarðarkaupstaður 809.3 millj. kr. En það er kannske rétt að minna á það, að það er gert ráð fyrir því, að fyrst í stað fái Hafnarfjörður 25% af gjaldinu, en síðan lækki það að nokkrum árum liðnum niður í 20%, en þá hækki um leið hluti Atvinnujöfnunarsjóðs úr 70.9% í 75.9%. Gert er ráð fyrir, að iðnlánasjóðsgjaldið verði óbreytt allan tímann, 4.1%, eins og upphaflega var um samið. Hins vegar er svo gerð grein fyrir því, að það, sem ég nú hef vitnað til, er byggt á því grunngjaldi, sem aðalsamningurinn gerði ráð fyrir, en það var fyrst í stað og til ársins 1975 12.5 dollarar á tonn, en hins vegar átti gjaldið að hækka í vissum hlutföllum við hækkun heimsmarkaðsverðs á áli. Og nú hefur það skeð, síðan samningarnir voru gerðir, að álið hefur farið ört hækkandi og er nú komið upp fyrir það mark, sem þurfti að ná, til þess að hækkun á framleiðslugjaldinu ætti sér stað, þannig að nú er framleiðslugjaldið reiknað miðað við 27.5 cent á enskt pund, og það veldur hækkun á framleiðslugjaldinu, sem nemur 3.5 dollurum á lest, þannig að í staðinn fyrir grunngjaldið, eins og það upphaflega var, 12.5 dollarar, er það núna orðið 16 dollarar.

Ef við reynum að gera okkur grein fyrir, hvað þessi hækkun þýðir, þá er hér tafla um það, sem sýnir, að heildargjald með auknum framkvæmdahraða og viðbótarstækkun mundi til ársins 1994 nema 4 407.3 millj. kr., en að óbreyttum samningum 3 617 millj. kr., þannig að þarna yrði um 790.3 millj. kr. hækkun að ræða á þessu tímabili. Nú getur það tvennt skeð, að verðið á áli getur haldið áfram að hækka, þannig að þessi hækkun á framleiðslugjaldinu yrði þá meiri, en hún er hlutfallslega mikil miðað við hækkun á verðinu. Eins gæti hitt skeð, að álverðið lækkaði aftur niður fyrir þetta mark, og það mundi þá á hinn bóginn leiða af sér lækkun framleiðslugjaldsins á ný. En þó fer það aldrei niður fyrir upphaflega grunngjaldið, fyrr en verðið er komið niður í 22 cent, ef ég man rétt. Hækkunin kemur til greina, þegar það fer upp fyrir 27.5 cent, og svo lækkun aftur, þegar það fer niður fyrir 22 cent, þannig að við höfum töluvert upp á að hlaupa, áður en framleiðslugjaldið fer niður úr því, sem upphaflega var ráðgert.

Ég veit nú ekki, hvort ég þarf að hafa ýtarlegri grg. af minni hálfu að svo stöddu um þetta mál, vegna þess að með þessu frv. fylgir ýtarleg grg. og útreikningar og einnig skilgreiningar á aðalviðaukasamningnum og svo hinum samningunum, sem sumir hverjir skipta nú engu máli í þessu sambandi. Í stórum dráttum er því niðurstaðan sú, að með þessum aukna framkvæmdahraða og þessari stækkun, sem ég hef gert grein fyrir, telur Landsvirkjun, að það feli í sér mikið hagræði fyrir Landsvirkjun. Við fáum betri útkomu af framleiðslugjaldinu og við fáum töluvert meira samhengi í framkvæmdirnar í Straumsvík, sem er okkur verulega mikils virði. Ég hef nú ekki látið reikna það út, hvað þetta getur numið miklu í vinnuaukningu, en það mun koma fram í stuttri grg., sem fylgir hér, sem gefin var af álbræðslunni, þegar hún hóf vinnslu sína, að það vinna þarna núna um 550 manns. Fjöldi starfsmanna við framkvæmdir í Straumsvík, að höfninni meðtalinni, fór upp í tæplega 900 s.l. haust, þ.e. haustið 1968, þegar ég hygg, að hann hafi náð hámarki. En í skýrslunni, sem er dags. 11. nóv., segir, að nú starfi í Straumsvík um 550 manns, þegar starfsmenn við rekstur áliðjuversins eru meðtaldir. Það var einhvern tíma áætlað, held ég, að um 500 manns þyrfti við rekstur þessarar verksmiðju, þegar hún væri komin í full afköst, en þá var talað um 60 þús. tonn. En nú er aðeins um að ræða um 30–33 þús. tonna afköst. En það er nú verið að vinna að lengingu keraskálans, eins og nánar er gerð grein fyrir hérna, og það þýðir það, að þessi stækkun um 1/6 hluta kemur öll í viðbót við keraskálann, sem nú er lokið. Næsti áfangi, sem ÍSAL er skuldbundið til að hafa lokið 1972, er keraskáli jafnstór og tangur og sá, sem nú er búið að ljúka með um 30–33 þús. tonna afköstum árlega. Hann verður þeim hluta styttri, sem nú er verið að bæta við keraskálann, þann fyrsta. Við erum ekki skuldbundnir til þess að leyfa neina stækkun á honum, en mér þykir líklegt, að álfélaginu muni á sínum tíma þykja mikill hagur að því fyrir sig að geta lengt þennan keraskála, annan keraskálann, þannig að hann yrði endanlega jafnlangur þeim, sem nú er byggður og verið er að byggja við, allt að því 900 m langur.

Álfélagið lét líka í ljós vilja sinn til þess, að stækkunin yrði ekki 20 MW málraun, eins og hér er um að ræða, heldur 40 MW, en Landsvirkjun taldi sig ekki hafa aðstöðu til þess að ganga að slíkum samningum á sama rafmagnsverði, því að útreikningar hennar og áætlanir eru ekki það langt komnar, að hún hefði getað gert sér grein fyrir, hvað rafmagnið mundi kosta fram yfir það, sem hér um ræðir, og því bíður það síns tíma, hvort við teljum ástæðu til að samþykkja þá stækkun, sem þarna gæti verið um að ræða og kynni líka að vera hagkvæm.

Þegar grg. um stækkun og hraða uppbyggingu álbræðslunnar í Straumsvík var útbýtt á þinginu í vor, varð ég ekki var við, að út af því spynnust neins staðar deilur, og ég leyfi mér að vænta þess einnig, að það verði ekki deiluefni hér í þinginu, þó að nú sé leitað eftir heimild til að löggilda þennan viðbótarsamning, sem ég hef undirritað fyrir hönd ríkisstj., með fyrirvara um samþykki Alþ., og segi ég það fyrst og fremst vegna þess, að það sýnist allótvírætt, hvað sem öðrum deilum kann að líða um þetta mál frá fyrri tíð, að það, sem hér er um að ræða, sé hagkvæmt fyrir okkur, hagkvæmara en hafna því og halda áfram fyrri samningagerð. Ég var reyndar minntur á það í gær, að það hefðu verið kosnar sérstakar nefndir hér í þinginu, þegar álsamningurinn var til umr. á árinu 1966, en það mátti teljast eðlilegt á þeim tíma. Þar var um mikla nýjung að ræða og mikinn samning. Hér er í raun og veru ekki um annað að ræða en lítils háttar viðauka við hann, sem ég tel ekki, að sé þess eðlis, að það sé nein ástæða til skipunar sérstakrar nefndar, og hafði því hugsað mér herra forseti, að leggja til, að málinu yrði vísað til 2. umr. og hv. iðnn. að lokinni þessari umr.