20.11.1969
Neðri deild: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég get sagt eins og báðir þeir hv. þm., sem hér hafa talað, 4. þm. Reykv. og 6. þm. Reykv., að ég hafði ekki hugsað mér að gera neitt sérstaklega að umtalsefni þær deilur, sem spunnizt hafa hér í sambandi við annað þingmál, um kostnaðarverð orkunnar frá Búrfellsvirkjun. Sú rannsókn, sem þeir tala um, till. til rannsóknar, er í þinglegri meðferð hér í þinginu, og málið er eins og kunnugt er nú í n. Um það, hverjar till. n. verða eða afgreiðslu þingsins á þeirri ályktun, veit ég jafnlítið og þeir nú. Hins vegar þarf engan veginn að leggja neitt kapp á að hafa sérstakan hraða á afgreiðslu þessa máls, og þegar talað er um að þetta mál verði ekki endanlega afgr. fyrr en meiri vitneskja liggi fyrir um þau atriði, sem menn hafa þar verið að deila um, þá sé ég ekki, að það eigi að vera neitt því til fyrirstöðu, að málið geti gengið sinn vanagang hér við 1. umr. og farið til þeirrar n., sem mundi þurfa að fara í gegnum samningsuppköstin og annað slíkt, enda er þetta lagafrv., sem á fyrir höndum, eins og venja er til, þrjár umr. í báðum deildum.

Nokkuð hafa hv. þm. kvartað undan því, að frv. hafi verið lagt fram fyrst í gær og síðan tekið strax nú til umr. Þetta má að vísu alveg til sanns vegar færa, að það sé ekki mikill tími til að athuga málið, en ég hafði þá bara í huga, að í raun og veru hafði allt efni frv. verið lagt fyrir í skýrslunni frá 13. maí s.l., sem afhent var öllum þm. áður en þinginu var slitið í vor. Þar var efnishlið málanna öll skýrð og gert ráð fyrir því, að frv. yrði lagt fram um þetta og þær formlegu breytingar, sem báðir aðilar þyrftu að gera til þess að geta lagt þær fyrir þingið. Ég hafði gert mér vonir um að þetta frv. gæti verið tilbúið strax og þing kom saman, en það tók nú lengri tíma en búizt var við að koma þessum málum formlega í höfn, þó að efnishliðarnar væru allar ljósar. Að þessu var unnið af fulltrúum Alusuisse, ÍSALs og ríkisstj., og fulltrúum Alþjóðabankans einnig, áður en þeir samningar voru undirritaðir, sem hér er lagt til að fái lagagildi.

Það skiptir í sjálfu sér litlu máli þetta ákvæði, sem hv. 4. þm. Reykv. vék að, þ.e. sá fyrirvari, að framleiðslugjaldið fari ekki fram úr 50% af nettótekjum ÍSALs. Það var til umræðu á sínum tíma og ég gerði þá grein fyrir því, en í því sambandi vil ég aðeins minna á það, að í stjórn ÍSALs eru tveir umboðsmenn ríkisstj. Ég hygg, að við eigum þá að hafa mjög góða aðstöðu til þess að fylgjast fullkomlega með rekstri fyrirtækisins, bókhaldi þess, uppgjöri og öðru slíku, þannig að það sé af þeim ástæðum ekki þörf á því að ala á neinni tortryggni í garð fyrirtækisins í sambandi við fölsuð framtöl, sem gætu aðstoðað ÍSAL til þess að fá fram lækkun framleiðslugjaldsins samkvæmt þessari grein.

Um 20 MW virkjunina, sem hv. 4. þm. Reykv. spurði um, þá veit ég ekki annað en það, sem kom fram í grg., að Landsvirkjun reiknaði með kostnaði vegna 20 MW vatnsaflsstöðvar, er tekin yrði í notkun í ársbyrjun 1975. Þar held ég að sé miðað við meðalverð, mér er ekki kunnugt um annað, svo að ég get ekki upplýst á þessu stigi, hvort um tiltekna vatnsvirkjun er þarna að ræða. En það er að sjálfsögðu rétt að reyna að afla frekari upplýsinga um þetta og koma þeim á framfæri við þm. og þá n., sem fær málið til athugunar. Landsvirkjun hefur ekki lagt fram grg., sem ég hef séð, um áætlanir á næstu árum, en það getur verið, að þess sé getið í þessum grg., þó að ég muni það ekki á þessu stigi málsins, að það sé nokkuð mótað nú þegar, hvað hér er um að ræða, þ.e. hvers konar virkjun og hver áætlaður kostnaður kynni að vera.

Varðandi ræðu hv. 6. þm. Reykv., þá hef ég eiginlega litla ástæðu til þess að segja mikið um hana. Hv. þm. gerði mikið úr því, að ég hefði lagt fram skýrslu á sínum tíma, þegar málið var á undirbúningsstigi, og þá talað um að við ættum síðar meir að geta krafizt hærra raforkuverðs en í álsamningunum yrði. Þegar samningarnir voru gerðir vorið 1966, þá voru þeir miðaðir við 60 þús. tonna bræðslu, sem ekki yrði lokið fyrr en 1975. Hvort eitthvað kemur fram í þessari eldri skýrslu um það, hvenær gert var ráð fyrir, að þeirri virkjun væri lokið, get ég auðvitað ekkert sagt núna, man það ekki svo glöggt, en það liggur í hlutarins eðli, — og það las hv. þm. upp úr skýrslunni, — að einmitt þegar byggingu væri lokið og um það væri að ræða að stækka þá álbræðslu,— enda yrðu þá viðhorfin í virkjunarmálum allt önnur en nú, — þá yrði ekki hægt að byrja á því fyrr en eftir 1975. Ég hygg, að það verði að meta margt af þessu, sem hv. þm. las þarna upp, með hliðsjón af því, hvenær það er sagt og hvað þá var áformað, og bera það svo saman við það, sem er verið að gera núna. Það er það, sem ég legg megináherzlu á og ég gerði í sambandi við þessa samningsgerð, sem hér er til meðferðar, að þessari stækkun, sem við erum að tala um núna, þ.e.a.s. 10 þús. tonna ársframleiðsla, sem krefst 20 MW orku, er skotið inn í framkvæmdaröðina, þannig að hún á að vera búin 1970. En við erum þá með samninga í gildi um, að verksmiðjubyggingunni ætti ekki að vera lokið fyrr en 1975. Stækkuninni er skotið inn á þessu stigi, og eins og hv. 4. þm. Reykv. benti réttilega á, er það hagkvæmt fyrir Landsvirkjunina á þessu stigi málsins að auka orkunotkunina við þær virkjunarframkvæmdir, sem þegar hafa átt sér stað, til þess að geta á þann hátt á erfiðum tíma nýtt meira af orkunni, sem ella færi til einskis.

Ég legg ekkert sérstakt upp úr því að elta ólar við fleira, sem sagt var, en ég hygg, að í raun og veru sé það, ef betur er að gáð, töluvert villandi, sem fram var sett af hv. þm., og það verði að meta með hliðsjón af aðstæðum nú þegar við erum að gera þessa samninga og selja 20 MW í viðbót á sama verði og frá árinu 1970.

Mér er ekki kunnugt um það, að álbræðslan eða fyrirsvarsmenn hennar hafi lagt neina sérstaka áherzlu á, að við gengjum í EFTA, hvað þá að ég hafi nokkurn tíma heyrt, að þeir hafi haft orð á því, en þetta var nú orðað svona hjá einum hv. þm., að ef við gengjum í EFTA, þá skyldum við fá að njóta góðs af því á einn eða annan hátt. Þetta er mér alveg ókunnugt um. Ég veit hins vegar það, að ÍSAL eða Alusuisse, sem selur þetta hráál allt saman, hafði upphaflega gert ráð fyrir að hafa aðalmarkað sinn fyrir álið í Englandi. Svo í millitíðinni ráðast Englendingar í álbræðslubyggingar sínar með því móti að veita opinbera styrki til þeirra, sem nema einhvers staðar á milli 30 og 40% af kostnaðinum. Þá ættu þeir að hafa eigið ál á sínum markaði. Þó hygg ég, að það sé langt frá því að fullnægja því, sem enski markaðurinn tekur af áli. En ég held, að það sé svo, að það sé enginn tollur á hrááli við innflutning í Bretlandi, þannig að EFTA-aðild að því leyti skipti ekki máli. En ég man eftir því, að forstjóri Alusuisse, Meyer, greindi frá því haustið 1968, að þeir hefðu vegna breyttra kringumstæðna myndað dótturfyrirtæki í Bandaríkjunum, sölufyrirtæki, einmitt með hliðsjón af álframleiðslu hér og annars staðar, og ætluðu að leggja meiri áherzlu á það heldur en þeir upphaflega hefðu gert ráð fyrir, með hliðsjón af því, að brezki markaðurinn hefði ekki innan sinna vébanda neina álframleiðslu. Þetta er það, sem ég get sagt um þetta atriði, en ég held, að þetta tvennt tengist ekki neitt saman, þ.e. áhugi Alusuisse fyrir EFTA og hvort við eigum að ganga í EFTA eða ekki.

Auðvitað er það rétt hjá Magnúsi Kjartanssyni, hv. 6. þm. Reykv., að það má lengi gagnrýna þá meðferð á málinu, sem hér er viðhöfð og var viðhöfð 1966, þ.e. að leggja fyrir gerða samninga, þar sem ekki er hægt að koma breytingum við. Ég viðurkenni, að það væri miklu æskilegra að geta haft aðra aðferð við slík mál. En í fjölmörgum milliríkjaviðskiptum og samningagerðum, sem við höfum samþ. og staðfest hér á Alþ., hefur ekki verið hægt að hafa annan hátt á. Sú ríkisstj., sem á hverjum tíma fer með svona mál, verður sjálf að taka á sig þá ábyrgð að kynna sér viðhorf í þinginu og vita, hvaða áhættu hún tekur á sig, áður en hún leggur málið fram. Ég er ekki að mæla þessari aðferð bót, en ég held, að hún sé óhjákvæmileg í svipuðum tilfellum og þessu og tilfellinu 1966, sem var nokkuð gagnrýnt þá líka. Ég man vel eftir því, að þá var erfitt að komast fram hjá málsmeðferð sem þessari.

Hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, og hv. 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, spurðust fyrir um hækkun raforkuverðs um áramótin. Og hv. 6. þm. Reykv. sló því föstu, að ef rafmagnið hækkaði um áramótin, þá vissi hver einasti viðskiptavinur rafstöðva, hverjir hafa farið með rétt eða rangt mál. Þá væri það sannað, að rafmagnið þyrfti að hækka vegna raforkusamningsins við álverksmiðjuna. Það, sem hefur verið haldið fram af mér og fleirum, er haft eftir sérfræðingum, sem hafa reiknað það út, bæði íslenzkum og erlendum, að ef samningurinn hefði ekki verið gerður á sínum tíma við álbræðsluna, hefði raforkuverðið til Íslendinga orðið hærra. Það hefði engin önnur virkjun án álbræðslu getað gefið lægra verð. M.ö.o.: með því að virkja í tengslum við stóriðju þurfa Íslendingar að borga minna en ella. Á sama hátt mundi niðurstaðan af þessu verða sú, ef rafmagnið hækkar um áramótin, að það mundi hafa hækkað meira, ef við hefðum ekki verið í þessum tengslum. En þetta er ekkert nýtt, sem hér hefur komið fram, og svo ætla menn að tengja það við deilurnar um raforkuverðið núna og telja það eitthvert sönnunargagn fyrir því, að hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, hafi rétt fyrir sér í deilu um raforkuverðið í nóv. 1969, ef rafmagnsverð hækkar. Búið var að gera þm. í grg. frá því í maí í vor, sem var byggð á till. Efnahagsstofnunarinnar, grein fyrir þessari væntanlegu rafmagnshækkun, alveg án tillits til nokkurra deilna um það, hvort raforkuverðið til álbræðslunnar stæði undir kostnaðinum af orkunni frá Búrfellsvirkjun. Það kom greinilega fram hjá Landsvirkjunarstjórn, að hún taldi sig hafa gert fjárhagsáætlanir fyrir afkomu Landsvirkjunar til ársloka 1985, annars vegar miðað við, að bræðslan verði komin í fulla stærð 1972 án stækkunar, og hins vegar miðað við 10 þús. tonna stækkun 1970 og fulla stærð 1972. Í þessum áætlunum sínum byggði Landsvirkjunarstjórn m.a. á þeim forsendum, að heildsöluverð á rafmagni til rafveitnanna þyrfti að hækka frá 1. jan. 1970, og taldi það vera áfanga þeirrar hækkunar, sem í samráði við Efnahagsstofnunina fyrir ári var talin óhjákvæmileg vegna síðustu gengisbreytingar. Og ef þessi hækkun vegna síðustu gengisbreytingar á að vera sönnun fyrir því, hverjir fara með rétt eða rangt mál í þeim deilum, sem hér hafa staðið yfir, þá held ég, að þar sé skotið yfir markið.

Ég fellst alveg á það með hv. þm., sem hér hafa talað, að það er auðvitað rétt og það stendur til, að þingið fái nánari grg. um raforkuverðið, sem deilt hefur verið um. Ég er búinn að tjá mig um það, að það þarf ekki að hafa neinn sérstakan hraða á afgreiðslu þessa máls, en hins vegar legg ég áherzlu á það, að við getum lokið 1. umr. og málið gangi eðlilega til n. En ég mun ekki á nokkurn hátt ætlast til þess, að framgangur þess verði slíkur, að endanleg afgreiðsla fari fram, áður en rannsóknartillagan títtnefnda hefur fengið sína þinglegu meðferð.