12.03.1970
Neðri deild: 58. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 2. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. flutti hér skemmtilega ræðu, sem benti til þess, eins og vera ber, að hann er nú óðum að komast í hátíðarskap, en þar sem ræða hans heyrði nú eiginlega meira undir annað mál, sem er til meðferðar í þessari hv. deild og mun koma hér aftur til umr. innan tíðar, þá mun ég sleppa því að þessu sinni að svara ýmsum atriðum, sem komu fram í ræðu hv. þm., og geyma það til þess tíma, þegar till. um rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar kemur hér fyrir.

Eins og lýst hefur verið yfir, þá fjallar sá viðaukasamningur, sem hér er til umr., um tvö meginatriði. Í fyrsta lagi um það, að byggingu síðari áfanga álbræðslunnar verði hraðað, þannig að honum verði lokið 1972 í stað 1975, og hitt atriðið er svo það, að heimilað verði að stækka fyrri áfangann, þannig að raunverulega stækki álbræðslan um 1/6 hluta. Það er augljóst mál, eins og er rakið í því nál., sem ég mæli fyrir, að ef uppbyggingu síðari áfanga álbræðslunnar verður hraðað, þá er einnig hægt að hraða síðari áfanga Búrfellsvirkjunar, sem virðist tiltölulega ódýr, miðað við virkjunina í heild. Og við þetta munu tekjurnar aukast, bæði af aukinni orkusölu og af framleiðslugjaldi. Hvað snertir ráðgerða stækkun álbræðslunnar og aukna orkusölu vegna hennar, þá er það líka ljóst, að það styrkir ótvírætt afkomu Búrfellsvirkjunar eða Landsvirkjunar næstu árin, að geta selt orku, sem annars færi forgörðum, jafnvel þó að ekki fáist fyrir hana fullt framleiðsluverð. Hins vegar getur þessi hagnaður tapazt aftur, ef samningurinn um orkusöluna er bundinn til langs tíma og ekki fæst nægilega hátt verð fyrir hana. Undir þessum kringumstæðum verða menn að meta það, hvort hagstæðara sé að nýta orku, sem annars fer forgörðum um skeið, jafnvel þótt verðið sé ekki nógu hátt, eða láta hana ónýtta í trausti þess, að hærra verð fáist fyrir hana síðar, þegar markaðurinn hefur aukizt. Ályktun okkar, sem stöndum að þessu nál., er sú, að eins og rekstraraðstöðu við Búrfellsvirkjunina er nú háttað, þá sé það heppilegra að taka fyrri kostinn, jafnvel þótt fullt framleiðsluverð kunni ekki að fást, en um það ætla ég ekki að ræða hér, því að það verður gert síðar, — og það er ástæðan til þess að við mælum með þessu frv.

Mér finnst rétt að ræða það nokkrum orðum, að aðstaða Landsvirkjunar, sem rekur Búrfellsvirkjun ásamt öðrum virkjunum, verður miklu óhagstæðari næstu árin heldur en hafði verið gert ráð fyrir, þegar ráðizt var í að reisa Búrfellsvirkjun. Þær áætlanir, sem þá voru gerðar, hafa ekki staðizt. Segja má, að það hafi á sínum tíma legið fyrir þrjár megináætlanir. Fyrsta áætlunin fjallaði um stofnkostnað virkjunarinnar, og ég ætla ekki að ræða þá áætlun hér, því að um hana mun verða rætt meira í sambandi við það mál, sem ég minntist á áðan og síðar mun verða rætt hér. Önnur megináætlunin, sem var gerð í sambandi við Búrfellsvirkjun, var áætlunin, sem fjallar um fjármögnun virkjunarinnar. Og þriðja megináætlunin var sú, sem fjallaði um kjörin á þeim lánum, sem eru fengin til virkjunarinnar. Og það er um þessar tvær síðarnefndu megináætlanir, sem ég ætla að ræða nokkru nánar hér.

Ég vík þá fyrst að áætluninni um fjármögnun Búrfellsvirkjunar. Hana er að finna á þskj. 265, sem er nál. meiri hl. fjhn. um till. til þál. um rannsóknarnefnd vegna Búrfellsvirkjunar. Þessi áætlun er birt þar í áliti þeirra Jóhannesar Nordals og Eiríks Briems og er að finna á bls. 5 í umræddu þskj. Þar kemur það fram, að gert var ráð fyrir því, að það þyrfti að fá fjármagn, sem næmi 45.6 millj. dollara, til byggingar Búrfellsvirkjunar. Og síðan er það sundurliðað, hvernig gert er ráð fyrir, að þessa fjármagns verði aflað. Sú áætlun er í stuttu máli á þá leið, að gert er ráð fyrir, að það þurfi að taka lán erlendis, sem nemi rúmum 30 millj. dollara. Þá er ennfremur gert ráð fyrir því, að ríkið láti í té lán, sem nemi 4.7 millj. dollara. Sem sagt, það átti að taka lán innanlands og utan til virkjunarinnar, sem næmu 35 millj. dollara. Eftir voru þá 10 millj. dollara og samkvæmt áætluninni átti þar eingöngu að vera um að ræða eigið fé Landsvirkjunar sjálfrar. Það var gert ráð fyrir því, að eigendur Landsvirkjunar, þ.e. Reykjavíkurborg og ríkið, legðu virkjuninni til upphæð, sem næmi 3.3 millj. dollara. Og þetta átti að sjálfsögðu að vera eigið fé virkjunarinnar, sem hún gat ráðið yfir og ávaxtað eins og henni sýndist. Í þriðja lagi var svo gert ráð fyrir því, að rekstur Landsvirkjunar yrði það hagkvæmur á árunum 1966-1975, að það mætti taka upphæð, sem næmi 7 millj. dollara, út úr rekstrinum og nota hana til uppbyggingar á Búrfellsvirkjun. Það var sem sagt reiknað með því, að á þessu tímabili yrði gróði hjá Landsvirkjun, sem næmi 7 millj. dollara. Nú hefur þetta því miður brugðizt.

Niðurstaðan hefur orðið sú, að í staðinn fyrir það, að eigendur Landsvirkjunar áttu að leggja fram 3.2 millj. dollara, þá leggja þeir ekki fram nema 1.6 millj. dollara, eins og menn sjá á töflunni á bls. 6 í sama nál., þar sem er núverandi áætlun um fjármögnun Búrfellsvirkjunar. Framlagið hefur sem sagt lækkað um 1.5 millj. dollara. En mismunurinn verður miklu meiri, þegar um er að ræða það fé, sem Landsvirkjun átti að taka út úr rekstrinum og nota til Búrfellsvirkjunar. Það var áætlað að það yrðu 7.2 millj. dollara. Samkvæmt þeirri áætlun, sem nú liggur fyrir, er reiknað með, að þetta verði ekki nema 1.4 millj. dollara, þannig að hér er um lækkun að ræða sem nemur 6 millj. dollara, og í heild er niðurstaðan sú, að í staðinn fyrir að það var reiknað með því, að Landsvirkjun hefði til ráðstöfunar eigið fé, sem eftir væri til Búrfellsvirkjunar, sem næmi 10 millj. dollara, þá verður hér ekki um að ræða nema 3 millj. dollara. Þetta skiptir að sjálfsögðu mjög miklu máli fyrir rekstur Landsvirkjunar og Búrfellsvirkjunar í framtíðinni, því að ef Landsvirkjun hefði þannig getað lagt fram svona háa upphæð, eða 7.5 millj. dollurum meira en gert var ráð fyrir, sem eigið fé, þá hefði hún getað reiknað vexti af því og afborganir eins og henni sýndist hverju sinni, en í staðinn fyrir það þarf nú að taka lán sem þessari upphæð nemur, og það fer eftir því, hve vel tekst til á lánamarkaðinum, hve hagstæð þessi lán verða.

Niðurstaðan verður í stuttu máli sú, eins og sést á núverandi áætlun um fjármögnun Búrfellsvirkjunar, sem er að finna á bls. 6 í sama þskj., að reiknað er með, að það þurfi að taka lán erlendis að upphæð 40 millj. dollara, í staðinn fyrir að upphaflega var ekki reiknað með, að það þyrfti að taka lán erlendis nema sem svaraði 31 millj. dollara. Ég tel, að það þurfi ekki að útskýra það fyrir þm., hvað mikil áhrif það hefur á rekstur virkjunarinnar og gerir hann miklu örðugri, ekki aðeins Búrfellsvirkjunar, heldur og Landsvirkjunar í heild, að eigið fé virkjunarinnar er þarna 7.5 millj. dollurum minna en gert var ráð fyrir, þegar ráðizt var í þessa framkvæmd.

Ástæðurnar til þess, að þessi glæsilega áætlun, sem gerð var á sínum tíma, um gróða Landsvirkjunar á árunum 1966–1975, hefur brugðizt svona algerlega, eru ýmsar. Meginástæðan er þó sennilega gengisfellingarnar, sem áttu sér stað á þessum tíma og valda því, að í íslenzkum krónum talið hafa afborganir af erlendum lánum og vextir nærri tvöfaldazt frá því, sem áður var, þ.e. af gömlum lánum vegna Sogsvirkjunarinnar og fleiri framkvæmda, sem Landsvirkjun hafði staðið að. Sá gróði, sem átti að ganga til Búrfellsvirkjunar, hefur að verulegu leyti farið til þess að greiða þetta vaxtatap. Þá kemur það einnig til viðbótar, að þær áætlanir eða þær orkuspár, sem gerðar voru á þessum tíma, um það hve mikið raforkusalan mundi aukast á næstu árum, hafa hvergi nærri rætzt. Orkusalan og orkuaukningin hefur því orðið miklu minni en menn gerðu sér vonir um samkvæmt þessari áætlun, og þar af leiðandi hafa tekjur Landsvirkjunar á þessu tímabili, eða því sem liðið er af því, orðið stórum minni en gert var ráð fyrir. Þetta sýnir, að það getur verið óvarlegt að byggja á þeim áætlunum, sem koma frá Landsvirkjun eða Landsvirkjunarstjórn, þar sem hér hefur orðið breyting á um eigið fé Landsvirkjunar, sem nemur hvorki meira né minna en 7.5 milljónum dollara.

Þannig hefur áætlunin um fjármögnun Búrfellsvirkjunar mistekizt með þeim afleiðingum, að rekstur Landsvirkjunar næstu árin hlýtur að verða miklu örðugri en menn gerðu sér vonir um.

En þá er að líta á það, hvernig áætlunin um lánskjörin hefur staðizt. Eins og kom fram í þeim grg., sem fylgdu frv. um Búrfellsvirkjun og frv. um álbræðsluna á sínum tíma, þá var yfirleitt gert ráð fyrir því, að þau lán, sem yrðu tekin til Búrfellsvirkjunar, væru til 25 ára og með 6% vöxtum. Og í þeirri áætlun um lánskjörin var það reiknað út, að framleiðsluverð á orkunni frá Búrfelli yrði ekki nema 21.1 eyrir á hverja kwst., miðað við núverandi gengi. A þeim grundvelli var samið um það við álbræðsluna, að selja henni kwst. á 22.2 aura, miðað við núverandi gengi. Það kann að vera, að ef lánskjörin hefðu staðizt, eins og gert var ráð fyrir, að lánin yrðu yfirleitt til 25 ára með 6% vöxtum, að þá hefði að sjálfsögðu orðið miklu minni munur á þessu en við teljum að sé í dag, þ.e.a.s. við, sem teljum, að nú fáist ekki fullt framleiðsluverð fyrir orkuna. En það fer svo fjarri því, að þessi áætlun um lánskjörin hafi staðizt, því það er aðeins eitt af þeim lánum, sem tekin hafa verið, þ.e. Alþjóðabankalánið upp á 18 millj. dollara, sem stenzt áætlun. Það er með 6% vöxtum til 25 ára. Öll önnur lán eru með hærri vöxtum og til styttri tíma. Það er t.d. amerískt skuldabréfalán, 6 millj. dollara með 7% vöxtum til aðeins 15 ára. Það er bankalán frá Bandaríkjunum, einnig 6 millj. dollara, sem er með 8% vöxtum og er aðeins til 5 ára. Það er bankalán frá Vestur-Þýzkalandi, sem er með 7.5% vöxtum til 10 ára. Það er lán frá framleiðendum í Vestur-Þýzkalandi, 2.4 millj. dollara með 6.5 % vöxtum, og það er til 10 ára. Loks er svo innlent lán, ríkislán, að upphæð rúmlega 300 millj. króna, það er með 8% vöxtum, en alveg er ósamið um afborgunartíma. Þannig eru öll lán önnur en Alþjóðabankalánið með talsvert miklu hærri vexti en gert var ráð fyrir, og auk þess er afborgunartíminn miklu styttri. Þetta veldur því, að reksturinn hjá Búrfellsvirkjun og hjá Landsvirkjun verður miklu óhagstæðari næstu árin en gert hafði verið ráð fyrir.

Ég ætla ekki að fara að deila hér um afskriftatíma og afborgunartíma, hvort það eigi að afskrifa lánin á 25 árum, 40 árum eða skemmri tíma. En ég vil aðeins rifja það upp í þessu sambandi, að stóriðjunefnd skýrði frá því í álitsgerð, sem hún sendi Alþ. 1964, — ég hygg að formaður hennar hafi verið Jóhannes Nordal og einn af nm. hafi verið núverandi iðnmrh., en e.t.v. hefur hann verið farinn úr n. þegar þetta álit var gefið út, en þá hefur Magnús Jónsson fjmrh. verið kominn í stað hans, — í þessari grg. stóriðjunefndar er komizt svo að orði um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta, — en það er þar sem verið er að segja frá viðræðum stóriðjunefndar við Alþjóðabankann um væntanleg lánskjör, — þar segir á þessa leið:

„Í viðræðum um alúminíummálið var áherzla á það lögð frá upphafi, að verðlagning raforku á Íslandi hlyti að verulegu leyti að fara eftir þeim lánskjörum, sem fáanleg voru í sambandi við lántöku til virkjunarinnar. Eigið fé raforkukerfisins hér á landi er svo lítið, að afskriftatíminn getur ekki orðið lengri en lánstími þeirra lána, er til virkjunarinnar fást.“

Hér er það m.ö.o. niðurstaða stóriðjunefndar, að það eigi að miða afskriftatímann við afborganir á þeim lánum, sem fást til virkjunarinnar. Og ef menn leggja það til grundvallar, þá sjá þeir, hvað lánin, sem fengust til virkjunarinnar, eru stórum óhagstæðari en gert var ráð fyrir í áætlunum um lánskjör á sínum tíma. En þetta þýðir það, að afborganir, sem Landsvirkjun þarf að inna af hendi vegna Búrfellsvirkjunar á allra næstu árum, verða miklu þyngri og meiri en gert var ráð fyrir. Þetta sést kannske bezt af því, að samkvæmt upphaflegum áætlunum var talið líklegt eða raunar fullyrt, að á árunum 1970–1975 yrði sá hagnaður af rekstri Landsvirkjunar, að það mætti taka út úr rekstrinum sem svaraði 4 millj. dollara og nota til uppbyggingar á Búrfellsvirkjun. Nú liggur það hins vegar fyrir samkvæmt seinustu greiðsluáætlun Landsvirkjunar, sem fylgir áðurnefndu þskj., að það mun verða greiðsluhalli hjá Landsvirkjun á þessu tímabili, ef sá samningur, sem hér liggur fyrir, verður ekki gerður. Ef samningurinn verður gerður, þá er reiknað með því, að greiðsluafgangur Landsvirkjunar á þessu tímabili verði 70 millj. kr., sé samningurinn hins vegar ekki gerður, þá muni tekjur Landsvirkjunar rýrna um 197 millj. kr., en það er hagnaðurinn, sem gert er ráð fyrir að verði af þessum samningi á umræddu tímabili, og þá mundi hallinn á rekstri Landsvirkjunar á þessum tíma verða allt að 127 millj. kr.

Ég tel mig ekki þurfa að rekja þetta öllu nánar til að sýna það, hve stórkostlega allar áætlanir um rekstur Landsvirkjunar hafa brugðizt og hversu miklu óhagstæðari reksturinn verður á næstu árum en gert er ráð fyrir. Það er meginástæðan til þess, að við, sem stöndum að þessu nál., teljum það rétt, að gera þann samning, sem hér liggur fyrir, því að ef hann er ekki gerður, þá er það fyrirsjáanlegt, að rekstur Landsvirkjunar verður miklum erfiðleikum bundinn næstu árin, og það svo, að ekki er nema um tvennt að ræða, annaðhvort að það verði verulegur halli á rekstrinum eða að enn þurfi að hækka verulega rafmagnsverðið til innlendra aðila. Undir þeim kringumstæðum teljum við það betri kost að ganga að þeim samningi, sem fyrir liggur, og selja þá umframorku, sem annars færi forgörðum, jafnvel þó að svo kunni að vera, sem ég ætla ekki að tala um að þessu sinni, að ekki fáist fullt framleiðsluverð fyrir þessa orku.

Ég vil svo taka það fram að lokum, að þó að við mælum með því, að þessi samningur verði gerður, þá felst ekki í því neitt samþykki á því orkuverði, sem samið var um við álbræðsluna á sínum tíma. Þá var því haldið fram af meðhaldsmönnum þess samnings, sem þá var til meðferðar, að það gerði ekki svo mikið til þó orkuverðið væri nokkuð lágt í fyrstu, vegna þess að þá yrði auðveldara að fá það hækkað, þegar samið væri næst. Við framsóknarmenn héldum því hins vegar fram og bentum á reynslu Norðmanna því til sönnunar, að það mundi reynast erfitt að fá verðið hækkað síðar, því að sú hefur verið reynslan hjá Norðmönnum, að nýir stórir orkukaupendur hafa jafnan vitnað til þess verðs, sem annaðhvort þeir eða aðrir voru búnir að fá á undan, og gerðu kröfu um að fá hið sama. Sá samningur, sem hér liggur fyrir, hefur því miður staðfest þetta, vegna þess að vonir þeirra, sem reiknuðu með því að þeir fengju hærra verð í næsta áfanga, hafa ekki staðizt, heldur verða þeir að sætta sig við sama orkuverð og áður.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en við, sem stöndum að þessu nál., leggjum sem sagt til, að frv. verði samþ. á þeim forsendum, sem ég hef nú rakið.