23.03.1970
Efri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

96. mál, álbræðsla við Straumsvík

Frsm. 2. minni hl. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. iðnn. og form. þeirrar n. gaf nú vissulega tilefni til þess, að farið væri að ræða hér nokkuð ýtarlega um álbræðslur annars vegar og aðra möguleika í sambandi við uppbyggingu íslenzks iðnaðar hins vegar. Ég ætla nú ekki að fara langt út í þessa sálma núna, enda þótt þarna væri gefið tilefni til þess. Hv. þm. hefur tamið sér það í sambandi við þessi stóriðjumál að syngja ósköp blítt, eins og lóan á vorin: „dýrðin, dýrðin“, og það er fátt annað, sem kemst að í hans huga, þegar hann sér í anda álbræðslur komnar í alla landsfjórðunga og aðra stóriðju, sem erlendir aðilar fjármagna, hingað og þangað um landið. Ég vil aðeins af þessu gefna tilefni minna hann á það, að það eru ýmsir aðrir möguleikar fyrir hendi, til þess að Íslendingar geti lifað sómasamlega í sínu landi. Þeir hafa verið að basla við það, án hjálpar frá erlendum stóriðjuhöldum, að byggja upp sinn iðnað og sína atvinnuvegi, og það er alveg ljóst, til að mynda í sambandi við sjávarútveginn, að þar eru stórkostlegir möguleikar fyrir hendi, að því er varðar fiskiðnað, eins og margoft hefur verið bent á. Í því sambandi vil ég aðeins geta þess, að mér var sagt núna fyrir nokkrum dögum, að 4 fiskibátar frá einu og sama fyrirtæki á Austurlandi hefðu á s.I. ári aflað fyrir um 60 millj. kr., þ.e. aflaverðmæti upp úr sjó. Útflutningsverð þess afla, sem er að mestu eða öllu leyti unninn hér innanlands, er vafalaust um 200 millj. kr., þannig að það má sýna fram á það með töluverðum rökum, að 6–8 slíkir fiskibátar gefa meiri arð í þjóðarbúið, heldur en meðal álbræðsla eins og sú, sem nú er komin hér í Straumsvík. Og ég verð nú að segja það, að mér finnst að það væri skemmtilegra, ef hv. frsm. myndi að minnsta kosti eftir því, að það er fleira, sem getur komið okkur að gagni, heldur en stóriðjan ein, eins og t.d. fiskiðnaðurinn. Hann ætti að minnsta kosti ekki að gleyma því í hrifningarvímunni í sambandi við fleiri álbræðslur.

Eins og fram hefur komið, þá varð ekki samkomulag í n. um afgreiðslu á því frv., sem hér um ræðir. Meiri hl. n. leggur það til, að frv. verði samþ. óbreytt. 1. minni hl. leggur einnig til, að frv. verði samþykkt óbreytt, en ég skila hins vegar áliti, þar sem ég legg til, að frv. verði fellt. Deilan stendur í rauninni ekki um það, hvort leyfa eigi þessa lítils háttar stækkun álbræðslunnar um 1/6 hluta frá því, sem upphaflega var ráð fyrir gert. Það er ekki slíkt mál að mínum dómi, að ástæða sé til þess að hefja deilur af því tilefni. Þá stendur deilan heldur ekki um það, að hér er gert ráð fyrir að flýta síðari áfanga þessarar álbræðslu, þeim áfanga, sem alltaf hefur verið reiknað með og allir hafa búizt við að yrði reistur. Hvort sá áfangi kemst í gagnið árinu fyrr eða síðar, það geri ég ekki að ágreiningsefni. Deilan stendur eingöngu um það, á hvaða verði á að selja þessari álbræðslu raforkuna. Á að selja hana áfram á sama lága verðinu og áður, eða á að gera kröfur um að það verði hærra og láta þá slag standa um það, hvort samningar nást eða ekki? Ég held, að þrátt fyrir þær deilur, sem á sínum tíma stóðu um álbræðsluna, þá hafi eiginlega allir verið sammála um það, að söluverð raforkunnar væri býsna lágt. Það var að vísu um það deilt, hvort það næði framleiðslukostnaðarverði eða væri undir því, en ég minnist þess ekki, að neinn hafi borið brigður á, að þetta verð væri tiltölulega lágt.

Þeir, sem fylgdu þessum orkusamningi og þar með álbræðslunni á sínum tíma, sögðu, að við yrðum að semja um þetta tiltölulega lága raforkuverð nú, til þess að fá þessa verksmiðju reista hér. En það væri ekki aðeins eðlilegt, heldur sjálfsagt, að þetta raforkuverð hækkaði, þegar kæmi að stækkun eða að því kæmi að selja þessu fyrirtæki meiri raforku. Þetta var margendurtekið í öllum þeim umr., sem urðu um álbræðsluna við Straumsvík á sínum tíma, og þetta kemur m.a. hvað eftir annað fram í þeirri skýrslu, sem ríkisstj. samdi um þessi mál, þegar þau voru á sínum tíma lögð fyrir Alþingi. Á bls. 24 í þeirri skýrslu um fyrirhugaða álbræðslu segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á hinn bóginn er engin ástæða til þess, að jafngóð kjör yrðu í boði, ef til stækkunar kæmi, enda yrðu þá viðhorfin i virkjunarmálunum allt önnur en nú. Ef allt gengur vel í þessum efnum, svo að Íslendingar teldu sér hag að frekari stækkun alúminíumverksmiðjunnar í framtíðinni, ættu Íslendingar að geta fengið svo að segja sömu kjör og Norðmenn þá byðu.“

Og um afstöðu Alþjóðabankans í þessu efni segir svo á bls. 28 í þessari sömu skýrslu:

„Verði alúminíumbræðslan stækkuð í framtíðinni, telur bankinn hins vegar ekki rök fyrir því að bjóða jafn hagkvæm kjör.“

Þessar tilvitnanir í hina umræddu skýrslu ríkisstj. um fyrirhugaða álbræðslu sýna ótvírætt, að það var gert ráð fyrir og það var margsinnis endurtekið og undirstrikað, að Íslendingar gætu vafalaust, ef til frekari samninga um orkusölu kæmi, náð hagkvæmari samningum við álbræðsluna um verð á orkunni. Og ég sé ekki, að fram hafi verið færð nein rök fyrir því, að það hefði ekki verið sjálfsagt að stefna að þessu og að semja um það að selja raforkuna á hærra verði nú heldur en upphaflega var gert.

En nú er sem sagt ætlunin að selja þessa raforku á sama lága verðinu og áður, og þá spyr ég: Hvað veldur? Eina skiljanlega ástæðan fyrir því, að semja um sama raforkuverð, væri að mínu viti sú, að ef kostnaður við framleiðslu raforkunnar hefði orðið lægri en upphaflega var áætlað, þá mætti segja, að rök væru fyrir því að semja um sama lága raforkuverðið. Nú standa yfir og hafa lengi staðið yfir deilur um þennan virkjunarkostnað, en þó held ég, að enginn haldi því fram, að orkan hafi orðið ódýrari en upphaflega var áætlað, heldur liggur það á borðinu, að hún hefur ugglaust orðið dýrari, og því veldur ekki aðeins hærri virkjunarkostnaður, að því er margir telja, heldur einnig hitt, að lánakjör í sambandi við þessar miklu raforkuframkvæmdir hafa orðið bæði verri og óhagstæðari heldur en upphaflega var gert ráð fyrir. Þegar tillit er tekið til þessa, þá er enn þá síður ástæða til að selja álverinu raforku á sama lága verðinu og áður.

Nú er það svo um þetta frv., að það byggist á samningagerð, og þess vegna er ekki um nema tvennt að ræða: Annað tveggja að segja já við frv. eins og það er, samþykkja það með kostum þess og göllum, ellegar þá að segja nei, þ.e.a.s. neita að samþykkja frv. og neita þá að fullgilda þá samninga, sem þar liggja að baki. Nú er rétt að gera sér aðeins grein fyrir því, hvað það þýðir að fella þetta frv. Það getur að sjálfsögðu þýtt það, að samkomulag náist ekki um þær framkvæmdir, sem þarna eru fyrirhugaðar. Mér dettur ekki í hug að neita því, að sá möguleiki sé fyrir hendi. En í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því, sem síðasti ræðumaður, hv. frsm. 1. minni hl., kom inn á, að það liggur alls ekki fyrir, hversu hagkvæmt það muni vera að nota í verulega auknum mæli raforku til upphitunar frá því, sem gert hefur verið. Þetta er að sjálfsögðu atriði, sem hefði átt að vera búið að rannsaka og er sjálfsagt að rannsaka og taka tillit til í sambandi við þá hugsanlegu orkusölu til álversins. En ég tel að vísu, að það séu ekki miklar líkur á því, að samningar kæmu til með að stranda á raforkuverðinu, þó að krafa yrði gerð um, að það yrði nokkru hærra en þarna er um samið, svo hátt, að það stæði örugglega undir tilkostnaði við að framleiða orkuna. Ég tel langlíklegast, að samningar mundu takast um nýtt orkuverð, og ég tel, að á það eigi að reyna.

Eins og þegar er komið fram, þá skila framsóknarmenn séráliti, og mér virtist nú að frsm. meiri hl. hefði misskilið það á þann veg, að þeir væru á móti málinu. Þetta er nú kannske vorkunnarmál, því að í þessu máli, eins og raunar í sumum öðrum, þá finnst manni, að fram komi ákaflega sterkur vilji og rík tilhneiging hjá þeim ágætu mönnum, framsóknarmönnum, að segja bæði já og nei, en þetta reynist stundum dálítið erfitt. Hinir ágætu framsóknarmenn iðnn. í Nd. komast ákaflega nærri því að segja bæði já og nei við afgreiðslu þessa máls. Þeir skiluðu löngu nál., sem var svo að segja eindreginn rökstuðningur gegn frv., gegn því, að nokkurt vit væri í því að selja orkuna á svo lágu verði sem þar er ákveðið. En undir lokin stendur í því nál., að rétt sé nú samt sem áður að samþykkja þetta frv. Hér í hv. Ed. segja nú þeir 2 ágætu framsóknarmenn í iðnn. deildarinnar að vísu nokkuð ákveðið já, en þeim hefur þó fundizt, að það væri nú skemmtilegra að segja já með svolítið annarri áherzlu heldur en meiri hl.

En með tilliti til þess, að hér er um að ræða samning um algjörlega óeðlilega lágt raforkuverð, þá segi ég hins vegar ákveðið nei og legg til að þetta frv. verði fellt.