20.03.1970
Neðri deild: 63. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

166. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er nokkuð síðbúið, þar sem það fjallar um mál, sem koma hefði átt til framkvæmda um s.l. áramót, en getur nú ekki komið til framkvæmda fyrr en að loknum fyrsta fjórðungi þessa árs. Ég tel, að minni hl. hv. heilbr.- og félmn. eigi engan þátt í því, að málið hefur fengið svona hæga afgreiðslu, því að afstaða minni hl. var frá öndverðu alveg ljós, nefnilega sú, að þær hækkanir á bótum, sem frv. fjallar um, séu með öllu ófullnægjandi og í raun og veru svo ófullnægjandi, að vanvirða sé fyrir Alþ. að samþykkja þá breyt. á l., sem hér er lögð til af hálfu ríkisstj.

Heilbr.- og félmn. klofnaði um málið, meiri hl. skipa þeir fjórir fylgjendur ríkisstj. Guðlaugur Gíslason, hv. 3. þm. Sunnl., Bragi Sigurjónsson, sem hér lauk máli sínu, hv. 9. landsk., Friðjón Þórðarson, hv. 4. þm. Vesturl., og Matthías Bjarnason, hv. 4. þm. Vestf. En minni hl. skipa auk mín hv. 5. þm. Norðurl. v., Jón Kjartansson, og hv. 4. landsk. þm., Jónas Árnason. Þetta frv. heitir „Hækkun á bótum almannatrygginga“, og er það réttnefni, ef miðað er við krónutöluhækkun, en því aðeins getur frv. borið slíkt nafn, því að vissulega er þetta frv. um lækkun á bótum almannatrygginga, ef miðað er við kaupmátt þeirra bóta, sem frv. fjallar um, og það skiptir meginmáli. Frv. er því í raun og veru um lækkun á bótum almannatrygginga, og við það er erfitt að sætta sig í ekki verra árferði heldur en yfir Ísland hefur gengið s.l. og yfirstandandi ár.

Þær breyt. á almannatryggingal., sem í frv. felast, eru þrenns konar, eins og hv. frsm. meiri hl. gat um áðan, þ.e. hækkun á fjölskyldubótum, þ.e.a.s. að því er snertir fleiri börn en eitt í fjölskyldu, en að öðru leyti breytast fjölskyldubæturnar ekki. Í öðru lagi er hækkun á svokölluðum fæðingarstyrk og er þar verið að færa upphæð fæðingarstyrksins til samræmis við verðlag á Landsspítalanum og á fæðingarstofnunum frá síðustu áramótum, en fæðingarstyrkurinn hefur ekki nægt til þess að greiða kostnað af sjö daga dvöl sængurkonu á þessum stofnunum síðan um s.l. áramót. Þetta hefur oftar komið fyrir, að fæðingarstyrkurinn hefur orðið lægri en kostnaður við að liggja sjö daga á slíkum stofnunum, og þá hefur verið brugðið á það ráð, að heimsækja sængurkonurnar liggjandi í blóðböndum og bera að þeim viðbótarrukkun, svo það væri víst, að þær stæðu í skilum. Fyrst var tekin af þeim yfirlýsing um það, að þær afsöluðu sér fæðingarstyrknum svokallaða og ráðstöfuðu honum með afsali til greiðslu á kostnaði við dvöl í stofnuninni, en þegar það hefur ekki dugað, þá hefur verið borin að þeim viðbótarrukkun. Og þetta hefur gerzt oftar en einu sinni. Ég held, að allir hv. þm. hljóti að sjá það, að þessi framkvæmd er ekki sæmandi, enda er það svo, að fæðingarstyrkurinn á ekkert skylt við kostnað sjúkrahúsa og stofnana í sambandi við barnsburð. Hann var til allt annars ætlaður í upphafi í tryggingalöggjöfinni. Hann var til þess ætlaður að bera almennan kostnað, sem því fylgir, að nýr borgari fæðist í heiminn. En nú er hann tekinn af mæðrunum strax, meðan þær liggja á stofnuninni, og þær fá engan eyri til þess að standa undir þeim kostnaði, sem upphaflega var ætlunin að létta undir með þeim í þessum tilfellum, og eru þær konur verst staddar, sem koma utan af landi og hafa ærinn kostnað af því að leita sjúkrahúsvistar. En leiðréttingin, sem felst í þessu frv., er sú, að nú í augnablikinu nægi hinn svokallaði fæðingarstyrkur fyrir sjö daga sjúkrahúslegu. En hvað líður langur tími, þangað til komið verður með viðbótarrukkunina? Það vitum við ekki, en við vitum, að það verður gert, ef þessum hætti er áfram haldið. Fæðingarstyrkurinn er þess vegna tekinn af konunum, áður en hann kemur í hendurnar á þeim, og ráðstafað til Tryggingastofnunar ríkisins til þess að borga þetta. Það er styrkur, sem er enginn styrkur, eins og eitt af dagblöðunum viðurkenndi hér fyrir nokkrum dögum, þegar þetta mál var þar rætt.

Ég hef borið fram annað frv. hér á Alþ., sem fjallar um þetta mál, og legg til, að sú breyt. sé á gerð, að sjúkrahúsvist vegna barnsburðar sé borguð af tryggingunum rétt eins og hver önnur sjúkrahúsvist að læknisráði, sem virðist vera sjálfsagt. Í nálega öllum öðrum tilvikum borga tryggingarnar sjúkrahúsvist fyrir sjúklinga, sem læknir ráðleggur að leggist inn á sjúkrahús, en ekki þegar um barnsburð er að ræða, ekki þegar þjóðfélaginu er að bætast nýr borgari. Og þessu er kúnstuglega komið fyrir í tryggingalöggjöfinni, þannig að þetta hefur dulizt mönnum.

Ástæðan til þess, að við í minni hl. heilbr.- og félmn. berum fram brtt. við þetta frv., er sú, að í þriðja lagi er það efnisatriði frv., að aðrar bætur trygginganna heldur en fjölskyldubætur og hinn svonefndi fæðingarstyrkur, sem ekki er neinn fæðingarstyrkur, skuli hækka um 5.2%. Þ. á m. er ellistyrkurinn og örorkubæturnar, þær eiga að hækka um 5.2%. Menn þurfa ekki að fara í nein hagstofuleg gögn eða bíða eftir niðurstöðu neinnar rannsóknar til þess að gera sér það alveg ljóst, að 5.2% hækkun á ellistyrk og örorkubótum er ekki í samræmi við þá aukningu, sem orðið hefur á dýrtíð í landinu s.l. ár. Og það eitt ætti að ráða afstöðu hv. þm. til afgreiðslu málsins, að lágmarksbreyting á tryggingalöggjöfinni varðandi ellistyrk væri það, að fylgt væri a.m.k. aukinni dýrtíð, svo að kaupmáttur ellistyrks rýrnaði ekki frá því, sem hann hefur verið, því að hann hefur verið í slíku lágmarki, að við verðum að algjöru viðundri, ef við berum ellistyrkinn á Íslandi saman við ellistyrkinn t.d. í Danmörku og öðrum nágrannalöndum okkar.

Okkar till. er því sú, að í staðinn fyrir 5.2% í 2. málsgr. 1. gr. komi 15%, og vitum við þó, að sú tala er allt of lág. Það hefði verið miklu nær sanni að nefna 20%, enda kom það í ljós í framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. áðan, að ef miðað væri við vísitöluhækkun frá því í fyrra, þá ætti hann að hækka um 12.8%. Og ef miðað er við neyzluvísitöluna, sem vissulega ætti að gera, því ellistyrkurinn fer að öllu leyti til kaupa á neyzluvörum gamla fólksins, þá hefði hann þurft að hækka um 16.2%. M.ö.o.: till. okkar í minni hl. er svo sanngjörn, að við erum með hækkunartill. okkar neðan við það, sem fyllstu rök mæla með. Og af því leiðir, að það ætti ekki að vera álitamál fyrir hv. þm. að samþykkja þessa breyt. á þessu stjfrv., því það er algert lágmark velsæmis vegna. Að maður nú ekki víki að neyð þess fólks, sem á að búa við ellistyrkinn, eins og hann er og þótt hann hækki um 5.2%.

Hverju nemur svo þessi hækkun, sem er verið að flytja hér frv. um og eyða hér prentsvertu á? Hún nemur 187 kr. á mánuði á einstakling. Það er hækkunin, sem borið er fram stjfrv. um; 6 krónur á dag! Það munar aldeilis um það! Hvort hjóna fær ekki nema 90% af fullum lífeyri og fullum örorkubótum, svo þá er hækkunin, sem á að koma í hlut hvors hjónanna, 168 kr. á mánuði. Tekur því að vera að bera fram frv. um svona hluti? Tekur því að kosta pappír og prentsvertu til þess og taka á sig þá smán, sem þessu fylgir? Það er ekki hægt að rökstyðja það, að íslenzkt þjóðfélag hafi ekki efni á því að bæta þarna betur úr og a.m.k. að gangast ekki upp í því að skerða kaupmátt ellilífeyris- og örorkubóta í slíku góðæri, sem þjóðin býr nú við.

Við í minni hl. erum okkur þess meðvitandi, að við berum fram of lága hækkunartill. til breyt. á frv., og við vildum gæta þar allrar sanngirni í trausti þess, að breyt. fengist samþ. Þess vegna bárum við fram till. um 15% hækkun. En eins og ég áðan sagði, hefði sízt af veitt að ellilífeyririnn og örorkubæturnar hækkuðu um 20%. Ég held, að það sé bezt að hafa um þetta mál sem fæst orð, og ég held, að ég sé búinn að gera það alveg skýrt og Ijóst, hvílíkt kák það er að hækka ellistyrkinn og örorkubæturnar um 5.2%.Ég trúi ekki öðru en hæstv. ríkisstjórn fallist á það, að íslenzka ríkið hafi efni á því að hækka styrkinn um 15%, og fallist á að gera það, þó till. um það komi frá stjórnarandstöðunni. Gamla fólkið á ekki að gjalda þess.