20.03.1970
Neðri deild: 63. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

166. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Frsm. meiri hl. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Það var tvennt í ræðu síðasta ræðumanns, hv. 9. þm. Reykv., sem ég vildi aðeins koma inn á. Ég tók fram hér í minni framsöguræðu fyrir nál., að kaupmáttur bóta hefði verið hæstur 1967. Og miðað við þann tíma þyrfti hækkunin að verða, miðað við vísitölu framfærslukostnaðar, 12.8%, en miðað við neyzluvöruvísitölu 16.2%. Hann virtist ekki hafa tekið eftir því, hvaða ár ég nefndi, og ég vildi, að það kæmi hér aftur fram. Þá vildi ég endurtaka það, sem ég tók líka fram í framsöguræðu minni, að í fyrra, þegar gengislækkunin tók gildi, þá voru bætur hækkaðar um 15%, og átti það að mæta þeirri kjaraskerðingu, sem vitað var, að leiddi af gengislækkuninni. Það reyndist ekki nóg, og til þess að jafna það, er þetta frv. borið fram, þ.e.a.s. hækkun um 5.2%. Þá á sú skerðing, sem orðið hefur á bótunum miðað við gengisbreytinguna, að vera bætt, en lengra er ekki gengið. Það liggur ljóst fyrir, að sú hækkun, sem verður á þessu ári, er ekki bætt með þessum lögum. Þar ber okkur hv. andmælanda ekki neitt á milli. Hitt vildi ég leiðrétta, að fæðingarstyrkurinn hefur aldrei í almannatryggingalögum verið skoðaður sem sjúkrahjálp, því það er ekki litið á barnsfæðingu sem sjúkdóm, það vitum við víst allir, heldur hefur hann alltaf verið miðaður við það, að kona, sem þarf að fara inn á sjúkrahús og ala þar barn sitt, þurfi ekki að leggja þar öllu meira fram heldur en sem fæðingarstyrknum næmi. Konur, sem ælu börn sín í heimahúsum, fengju hins vegar fæðingarstyrkinn til þess að greiða húshjálp eða þ.u.l. Það er sem sagt miklu ódýrara fyrir konur, ef þær geta alið börn sín í heimahúsum, en það er nú orðið svo, að yfirleitt hygg ég að flestar konur fari á sjúkrahús til að ala börn sín, og fæðingarstyrkurinn hefur alltaf verið miðaður við að bera uppi þann kostnað fyrst og fremst. Það snertir tryggingarnar ekki neitt, hvernig þetta er framkvæmt af sjúkrahúsunum, og sú fullyrðing hv. 9. þm. Reykv., að það sé svívirða af hálfu almannatrygginga að bera greiðslukröfur inn á sængina til kvenna, sem væru nýbúnar að ala börn, snertir almannatryggingarnar ekkert; heldur framkvæmd sjúkrahússins, sem sennilega hefur sprottið af því, að það er misjafnlega auðvelt að innheimta þetta eftir á. Sjúkrahúsin eru aðeins að tryggja það, að þau fái þetta fé greitt, og framkvæmdin er miðuð við það. Þetta vildi ég að kæmi hér fram.