20.03.1970
Neðri deild: 63. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

166. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir þau mótmæli, sem hér hafa komið fram, í sambandi við þessa óverulegu hækkun, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, á bótum almannatrygginganna. Ég tel; eins og segir hér í nál. minni hl. heilbr.- og félmn., að hér sé um óviðunandi afgreiðslu að ræða. Þau rök, sem nú eru flutt fram fyrir því, að ekki megi hækka bætur almannatrygginganna þessu sinni, nema sem nemur 5.2%, þó að augljóst sé, að bæturnar ættu að hækka mun meir, ef þær ættu að halda fullum kaupmætti miðað við það sem áður var, og að ekki hafi verið gert ráð fyrir hærri fjárveitingu á fjárlögum í þessu skyni, tel ég að fái ekki staðizt með neinum hætti. Ég hygg, að allir hv. alþm. geri sér fulla grein fyrir því, að innan tíðar mun verða samþ. allveruleg launahækkun í landinu. Svo að segja allir kjarasamningar stéttarfélaga í landinu renna út um miðjan maímánuð n. k. Maður hefur meira að segja séð það í blöðum, sem styðja ríkisstj., að þau telja, að það verði ekki vikizt undan því að fallast á nokkra launahækkun, nú þegar samningar verða næst endurskoðaðir. Ég tel fyrir mitt leyti, að á því geti enginn vafi leikið, að þá verði laun verulega hækkuð vegna þeirrar skerðingar á kaupmætti launa, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum.

Getur það þá verið, að hæstv. ríkisstj. detti það í hug að ætla sér að halda bótum almannatrygginganna, þ.e.a.s. örorkubótum og ellilaunabótum, óbreyttum út allt árið, þótt almennt kaupgjald í landinu hækki til verulegra muna eftir einn eða tvo mánuði? Getur það verið? Ég get ekki trúað því að óreyndu, að henni detti í hug að standa á slíku og vitna í það, að það hafi ekki verið gert ráð fyrir hærri útgjöldum í sambandi við þetta í fjárlögum. Nei, hér er vitanlega aðeins um það að ræða, hvort réttmætt þykir að reyna að halda kaupmætti bótanna a.m.k. til jafns við það, sem verið hefur að undanförnu. Ég vil því taka undir áskorunina til hæstv. ríkisstj. um það, að hún íhugi þetta mál betur, áður en hún knýr fram afgreiðslu á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir. Ég vil alveg sérstaklega skora á fulltrúa Alþfl. í ríkisstj., því á því leikur auðvitað enginn vafi, að þeir geta ráðið úrslitum um afgreiðslu þessa máls, að þeir athugi sinn gang betur í þessum efnum.

Hér er að mínum dómi um ósæmilega afgreiðslu að ræða. Það hefur oft verið viðurkennt hér á Alþ. áður, að það sé í rauninni ekki hægt að standa þannig að afgreiðslu mála, að kaupmáttur hinna lágu tryggingabóta, eins og ellilauna og örorkubóta, verði látinn rýrna. En það liggur nú fyrir alveg óumdeilanlega, að svo hefur tekizt til, að kaupmáttur þessara bóta hefur rýrnað. Því tel ég fyrir mitt leyti, að algert lágmark sé að samþ. þá brtt. við þetta frv., sem minni hl. heilbr.- og félmn. hefur hér lagt fram, og hefði ég þó kosið að sú till. gerði ráð fyrir meiri hækkun, því þess hefði svo sannarlega verið full þörf.

Sem sagt, ég endurtek þá áskorun mína til hæstv. ríkisstj., að hún fallist á það að athuga málið betur en hún hefur gert, með það fyrir augum að mæta þeim óskum, sem hér hafa komið fram, um það að ætla þessar bætur nokkru hærri en frv. gerir ráð fyrir.