20.03.1970
Neðri deild: 64. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

166. mál, hækkun á bótum almannatrygginga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil ógjarnan, að þessari síðustu umr. ljúki svo, að ekki sé gerð aths. við það, sem fram kom hjá hv. frsm. þessa máls. Hv. 9. þm. Reykv. hefur sýnt mjög rækilega fram á þá ósanngirni og ég vil segja það ranglæti, sem fólk í landinu, þ.e.a.s. öryrkjar, gamalmenni o.fl., er beitt með ákvæðum þessa frv. Og ég tek sannarlega undir það, sem hv. 9. þm. Reykv. sagði í þessu efni. En það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, að stjórnarsinnar undir forystu Alþfl. skuli lýsa því yfir, að kaupmáttur örorku- og ellibóta þyrfti að hækka um 12–16% til þess að hafa sama kaupmátt og fyrir 2 árum, en þeir leggi svo til, að hann hækki ekki nema um 5.2%.

Þessi 12% hækkun, sem hv. frsm. meiri hl. nefndi, er miðuð við framfærsluvísitöluna. En nú held ég að mönnum ætti að vera það ljóst, að framfærsluvísitalan er m.a. þannig fundin, að fjölskyldubætur eru dregnar frá öðrum útgjöldum manna. En hvaða fjölskyldubætur ætli það séu, sem gamalmenni geta dregið frá sínum útgjöldum? Ég hef ekki heyrt þess getið fyrr, að þau hafi fjölskyldubætur sér til framdráttar. Þá sér maður, hversu mikið er að marka þessi 12%, sem hv. frsm. nefndi að bæturnar þyrftu að hækka um til þess að hafa sama kaupmátt og áður.

Þá kemur hin talan, að þær þyrftu að hækka um 16.2% miðað við neyzluvöruvísitölu. Ég tel, að þessar upplýsingar séu líka rangar, og það er vegna þess, að því aðeins er neyzluvöruvísitalan gildandi, að það fólk, sem um er að ræða í þessu tilviki, kaupi allar þær vörur, sem eru í neyzluvörugrundvellinum. Ég held, að gamalmenni og öryrkjar kaupi varla annað en matinn fyrir bæturnar, en matvörurnar hafa hækkað mikið meira en neyzluvöruvísitalan, t.d. hækkuðu matvörurnar á síðustu 2 árum um 45%, þegar neyzluvöruvísitalan hækkaði um 41%.

Það eru því engar ýkjur, að ef bæturnar ættu að halda sama kaupmætti og var fyrir 2 árum, þá væri það eitthvað nálægt 20%, sem þær þyrftu nú að hækka um. En till. ríkisstj. og stuðningsmanna hennar eru þær, að þær hækki um 5.2%. Ég vil, að þetta komi fram, áður en málið er endanlega afgr. frá þessari hv. deild