23.10.1969
Neðri deild: 5. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

16. mál, æskulýðsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fyrir nokkrum árum skipaði menntmrh. n. til þess að semja frv. um æskulýðsmál, og skyldu í frv. vera almenn ákvæði um opinberan stuðning við æskulýðsstarfsemi. Þetta frv. hefur verið tvílagt fyrir Alþ., Alþ. 1967–68 og 1968–69, en hlaut afgreiðslu í hvorugt skiptið. Við meðferð málsins á Alþ. var frv. fundið sitthvað til foráttu, fyrst og fremst það, að ýmis ákvæði þess væru ekki nógu ljós og þó einkum að ákvæðið um fjárhagsmál þessa æskulýðsstuðnings væru ekki nógu skýr. Það væri ekki nógu ljóst af frv., hverjar skyldur ríkið væri að takast á herðar annars vegar og hvers æskulýðsstarfsemin mætti vænta, að því er varðar opinberan styrk, hins vegar. Þess vegna hefur menntmrn. látið endurskoða frv. í samræmi við það, sem fram kom í menntmn. Nd., sem fjallaði um málið, og er þetta frv., sem nú er flutt, niðurstaðan af þessari endurskoðun.

Meginatriði þessa frv. er það, að settar eru almennar reglur um opinberan stuðning við æskulýðsstarfsemi. Í 1. gr. er þess getið, hvaða aðilar geti notið eða skuli njóta stuðnings samkvæmt l., en það eru félög, sem vinna að æskulýðsmálum á frjálsum áhugamannagrundvelli, enda byggist félagsstarfsemin fyrst og fremst á sjálfboðastarfi og eigin fjárútlátum félagsmanna, og í öðru lagi, aðrir aðilar, er sinna einkum velferðarmálum ófélagsbundins æskufólks í skipulegu starfi. Gert er ráð fyrir, að l. taki til íþrótta- og bindindisstarfsemi og félags- og tómstundastarfsemi í skólum, að svo miklu leyti er við á og önnur lög og aðrar reglur gilda þar ekki um. Nú er gert ráð fyrir því, að l. miðist einkum við æskulýðsstarfsemi fyrir unglinga á aldrinum 12–20 ára, en ekki 12–21 árs, eins og eldra frv., enda hefur kosningarréttur verið lækkaður síðan.

Menntmrn. er ætlað að fara með yfirstjórn æskulýðsmála, er lög þessi fjalla um. Enn fremur skal stofna Æskulýðsráð ríkisins, skipað 5 mönnum. 3 skulu tilnefndir af aðildarsamtökum Æskulýðssambands Íslands og öðrum hliðstæðum æskulýðssamtökum, en einn maður úr Sambandi ísl. sveitarfélaga og menntmrn. ætlað að skipa formann. Í frv. er að finna ákvæði um, hvert hlutverk Æskulýðsráðs ríkisins skuli vera, og sé ég ekki ástæðu til þess að vera að bæta við það neinum skýringum.

Í 4. gr. er ákvæði um það, að menntmrh. skuli skipa æskulýðsfulltrúa ríkisins að fengnum till. Æskulýðsráðs, og skuli hann vera opinber starfsmaður. Hér er um að ræða merkasta ákvæði þessa frv. Ef það nær samþykki, þá mun verða skipaður æskulýðsfulltrúi ríkisins sem mun hafa það hlutverk ásamt Æskulýðsráði að skipuleggja æskulýðsstarfsemi og hafa með höndum leiðbeiningarstörf í því skyni.

Í frv. eru ennfremur nánari ákvæði um stuðning við félags- og tómstundastarfsemi, t.d. um það, að ríkið skuli styrkja þjálfun leiðbeinenda og menntun æskulýðsleiðtoga. Ennfremur er heimilt að veita viðurkenndum aðilum, sem reka sumarbúðir og útivistarsvæði, styrki, allt samkvæmt þeim fjárveitingum, sem til þess myndu vera ætlaðar á fjárl.

Helztu breytingarnar, sem gerðar hafa verið frá upphaflega frv., eru þær, að það var felld niður málsgr., sem var í gamla frv. og hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er að styðja frjálsa félags- og tómstundastarfsemi í skólum, sem ekki er takmörkuð við nemendur viðkomandi skóla.“ Þetta ákvæði þótti ekki nógu ljóst, en í stað þess er nú lagt til, að „félags- og tómstundastarfsemi í skólum“ verði bætt við næstu málsgr., en þar segir, að I. taki til íþrótta- og bindindisstarfsemi og félags- og tómstundastarfsemi í skólum, að svo miklu leyti er við á og önnur l. eða reglur gilda þar ekki um.

Ég gat þess áðan, að aldursmarkinu hefði verið breytt úr 21 ári í 20 ár til samræmis við þær breyt., sem gerðar hafa verið á kosningarrétti ungs fólks. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir stofnun æskulýðsráða í öllum kjördæmum landsins. Þessi hugmynd hefur þótt orka mjög tvímælis og kjördæmin heldur ekki hentugar einingar fyrir æskulýðsstarfsemi og þessi gr. því verið felld niður. Greininni um æskulýðsnefndir sveitarfélaga hefur verið breytt þannig, að heimilt skuli að stofna æskulýðsnefndir eins eða fleiri sveitarfélaga, og er sú hugsun að baki þess, að sveitarfélög geti sameinazt um starfsemi í æskulýðsmálum, eins og þegar eru dæmi til um. Ekkert er því til fyrirstöðu þá, að sveitarfélög heils kjördæmis geti, ef þau vilja, tekið höndum saman um æskulýðsstarfsemi sína. Með þessu móti má fremur búast við en áður var gert ráð fyrir, að skipulag æskulýðsstarfsemi verði í samræmi við aðstæður á hverjum stað um land allt.

Það, sem sérstaklega var fundið að frv. eins og það var flutt áður, var, að þar var ákvæði um, að stefnt skuli að því, að ríkissjóður greiði allt að 50% af kostnaði við þjálfun leiðbeinenda og 50% af launagreiðslum til þeirra. Nú er lagt til, að gr. orðist svo: „Stuðningur ríkissjóðs við félags- og tómstundastarfsemi skal m.a. fólginn í þátttöku í kostnaði við þjálfun leiðbeinenda og menntmrn. ætlað að setja reglur um þjálfun leiðbeinenda að fengnum till. Æskulýðsráðs ríkisins.“ En ákvarðanir um fjárveitingar í þessu skyni verða teknar við afgreiðslu fjárl. hverju sinni. Ef þetta frv. nær fram að ganga eða hlýtur samþykki Alþ. áður en næstu fjárl. verða afgr., munu að sjálfsögðu verða gerðar till. samkvæmt því um fjárveitingar, en ef það nær fram að ganga, þá er það bindandi ákvæði, sem segir í 4. gr., að æskulýðsfulltrúi ríkisins skuli verða skipaður og hann mundi verða skipaður þegar í stað eftir samþykkt frv., auk þess sem Æskulýðsráði ríkisins mundi verða komið á fót. Það má raunar setja, að fyrsta sporið í skipulegri aðstöðu um æskulýðsmál eigi að vera að koma á fót embætti æskulýðsfulltrúa, er kynni sér æskulýðsstarfið, eins og það er nú stundað, og geri till. um, hvernig það skuli verða í framtíðinni og hvernig stuðningi opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, við æskulýðsstarfið verði bezt háttað, til að opinber stuðningur komi að sem mestum notum.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að óska þess, að þessu máli verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.