09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, fjárlög 1970

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Það fjárlagafrv., sem hér er til umr., er afgr. að nýafstöðnu 10 ára afmæli viðreisnarstjórnarinnar.

Þegar litið er yfir það 10 ára tímabil, er ljóst, að ytri áhrif hafa ekki valdið fjórum gengislækkunum á þeim áratug, heldur er sú þróun dómur um, hvernig stjórnarflokkunum hefur tekizt að stjórna efnahagsmálunum, hvernig þeim hefur tekizt að efna aðalloforð sitt við kjósendur við upphaf stjórnarferils síns, að stöðva verðbólguna. Heildarupphæð fjárl. fer nú í fyrsta sinn yfir 8 þús. millj. kr. og hækkar um rúmlega 1.000 millj. á afmælisárinu einu saman. Má segja, að þar sé stjórnarstefnunnar minnzt á viðeigandi hátt með því nýja meti, sem í því felst. Ber þá að hafa í huga, að þetta met er sett án þess að um sé að ræða hinn sérstaka talnavöxt, sem jafnan á sér stað á því ári, sem gengislækkun er framkvæmd, hækkanirnar vegna síðustu gengislækkunar komu fram þegar á fjárl. ársins 1969, en svo mögnuð er verðbólguvélin, að jafnvel á árinu eftir sjálft gengislækkunarstökkið ná hækkanir á niðurstöðutölum fjárl. nýju hámarki. Fjárl. hafa þannig og niðurstöðutölur þeirra á undanförnum árum speglað áhrifin af þeirri vísvitandi stjórnleysisstefnu, sem ráðið hefur í innflutnings–, gjaldeyris– og fjárfestingarmálum og sú krafa, sem í tekjuhlið frv. felst um hærri skattheimtu af þjóðinni en nokkru sinni fyrr, samtímis geigvænlegu atvinnuleysi hjá verkafólki og síminnkandi kaupmætti launa, er ömurlegur dómur um stjórnarstefnu síðustu ára. Enda er nú svo komið, að þessar afleiðingar stefnu sinnar, sem eru síminnkandi laun hérlendis miðað við verðgildi erlends gjaldeyris, eygja stjórnarflokkarnir nú sem helzta framlag Íslendinga á heimsmarkaðinum og telja nú tímabært að bjóða útlendingum að njóta afrakstursins með rekstri fyrirtækja hér á landi og með kaupum á ódýrum afurðum á Íslandi, ódýrum í krafti lægri launa, en þekkjast annars staðar í norðanverðri Evrópu.

Á meðan þjóðin bjó við sífellda aflaaukningu og verðhækkanir á sjávarafurðum má segja, að unnt hafi verið að velta áhrifunum af verðbólgustefnunni á undan sér. Með þeim ytri aðstæðum, sem þá ríktu, gafst útflutnings atvinnuvegunum færi á að jafna að talsverðu leyti hin neikvæðu áhrif verðbólgustefnunnar, enda lét ríkisstj. vaða á súðum í trausti þess. Eftirspurn eftir vinnuafli hélzt meðan þessara ytri aðstæðna naut við, þrátt fyrir að verðbólgan hefði ella leitt til samdráttar í útflutningsframleiðslunni og í framhaldi af því til beinnar kreppu í efnahagslífinu. Á þeim árum gátu ríkisstjórnarflokkarnir því látið það eftir sér, atvinnuástandsins vegna, að mæta sívaxandi tekjukröfum ríkissjóðs, m.a. með endurteknum niðurskurði á framlögum til verklegra framkvæmda, en til þessa var gripið á mestu uppgripaárum, sem þjóðin hefur lifað. Árið 1965 voru framlög til verklegra framkvæmda á fjárl. skorin niður um 20% að krónutölu og enn meir að raungildi og framlögin þannig skert, tekin inn í fjárl. næsta árs. Árið 1967 var upphæðin enn skorin niður um 10% að krónutölu í vaxandi dýrtíð. Þegar að því kom, að tók fyrir sífellt batnandi ytri aðstæður, hækkun afurðaverðs og aukinn afla og þjóðin tók að nýju að búa við meðalárferði, urðu útflutnings atvinnuvegirnir varnarlausir gegn áhrifum verðbólgustefnunnar. Áhrif þessarar stefnu komu nú ómenguð fram og kreppan skall þegar yfir í mynd stórfellds atvinnuleysis. Síðan hefur vítahringur minnkandi kaupgetu, sem veldur samdrætti í neyzlu og í framhaldi af því enn minnkandi eftirspurn eftir vinnuafli, mótað atvinnu– og efnahagslífið og nú er svo komið, að hinar síendurteknu gengislækkanir ríkisstj. á undanförnum árum, hafa aukið svo stórkostlega afborganir og vexti af lánum, sem tekin hafa verið í auknum mæli til verklegra framkvæmda, vegna niðurskurðar á beinum framlögum ríkissjóðs, að þær fjárhæðir, sem nú eru veittar til verklegra framkvæmda og ella gætu dregið úr atvinnuleysinu, fara í æ ríkari mæli til þess að greiða gengistöpin, hækkanir á afborgunum og vöxtum erlendra lána. Þær upphæðir, sem skattgreiðendur, sem búa við sífellt lægri kaupgetu, eru krafðir um, renna hlutfallslega í æ minna mæli til nýrra framkvæmda, en í þeim mun stærri stíl til þess að greiða gengistöpin. Skuldirnar hækka, jafnvel þó að milljónafúlgur fari til greiðslu afborgana, því að taka verður ný lán til þess að standa skil á gengistöpunum. Hlutfallslega meira og meira af fjárveitingunum fer til þess að greiða vegna fortíðarinnar, en þeim mun minna kemur að notum til nýrra framkvæmda og atvinnuaukningar, þegar þörfin er þó brýnni en nokkru sinni fyrr. Þetta er eitt höfuðmarkið, sem stjórnarstefna undanfarinna ára setur á fjárlagafrv. nú. Má benda á þessa þróun með nokkrum dæmum: Á næsta ári er gert ráð fyrir framkvæmdum við landshafnir fyrir 8 millj. kr. Til þeirra framkvæmda allra saman eins og þær leggja sig verður að taka nýtt lán, en framlag úr ríkissjóði á fjárl. til landshafna, 45.5 millj. kr., á sama tíma allt til greiðslu afborgana og vaxta og gengistapa, þar af eru vextirnir 20 millj. kr. Þessi þróun snertir að sjálfsögðu ekki einungis hafnir ríkisins sjálfs, heldur er staðreyndin sú, að gengislækkunarferill ríkisstj. hefur hert svo að fjölmörgum sveitarfélögum í sambandi við fjármál hafnasjóða þeirra, að um algert þrot hefur verið að ræða og óhjákvæmilegt hefur reynzt, að ríkissjóður legði einnig í því efni stórfé af mörkum til að létta þar bagga undangenginna gengislækkana. Erlend hafnalán, önnur en lán landshafna, munu nema rúmlega 250 millj. kr. á núverandi gengi. Gengistapið á árunum 1967 og 1968 er um 134 millj. kr. Af þessu gengistapi mun ríkissjóður taka að sér að greiða um 76 millj. kr. jafnóðum og gengistapið fellur til greiðslu með afborgunum lánanna. Þessi upphæð, sem óhjákvæmilegt er að inna af hendi úr ríkissjóði og landsmenn munu vera skattlagðir um á næstu árum, fer ekki til nýrra framkvæmda eða atvinnuaukningar, heldur er hér enn verið að axla bagga verðbólgustefnu og gengislækkana undanfarinna ára.

Þegar vegáætlun var lögð fram s.l. vor, var öllum þm. ljóst, að gengislækkunar pólitíkin hafði leikið Vegasjóð svo, að samkvæmt áætluninni, eins og hún var lögð fram, var í raun ekki um neinar nýjar framkvæmdir að ræða við landsbrautir og þjóðbrautir, þrátt fyrir þá brýnu þörf, sem er á sérstökum nýjum átökum í þeim málum. Fjárhæðirnar áttu svo til eingöngu að renna til greiðslu á afborgunum og vöxtum og gengistöpum. Þetta varð til þess, að óhjákvæmilegt var að auka enn tekjur Vegasjóðs með sérstakri hækkun á gjöldum á ökutæki. Enn fremur varð að ákveða, að ríkissjóður tæki að sér að greiða stærri hlut af lánum Vegasjóðs, en gert hafði verið ráð fyrir í vegáætlun. Auk þess sem 23.3 millj. kr. fara úr Vegasjóði á næsta ári til endurgreiðslu lána, er gert ráð fyrir 21 millj. kr. greiðslu úr ríkissjóði á árinu 1970 þar til viðbótar í sama skyni. Þessar fjárhæðir fara til greiðslu á hluta af lánum, sem tekin voru til framkvæmda á mestu uppgripaárunum, þegar framlög úr ríkissjóði voru á hinn bóginn markvisst skorin niður. Ég hélt því fram áðan, að jafnvel hækki skuldir vegna einstakra framkvæmda, sem lokið er við, þrátt fyrir að milljónafúlgur fari til greiðslu á afborgunum af lánum vegna þessara framkvæmda. Afborganir af lánum vegna Reykjanesbrautar nema á næsta ári 26.6 millj. kr. Þar til viðbótar koma vextir og gengistap 31.8 millj. kr., eða samtals 58.4 millj. kr. á árinu. Upp í þessa greiðslu koma 22.4 millj. kr. frá Vegasjóði, þar með talið veggjald. Þá vantar 36.6 millj. kr. Sá mismunur verður greiddur með nýju láni. Þannig að til þess að greiða lánið til Reykjanesbrautar niður um 26.6 millj. kr. verður að taka nýtt lán að upphæð 36.6 millj. vegna gengistaps og vaxta. Skuldin hækkar um 10 millj. kr. á árinu. Þannig er ástatt í vega– og hafnamálum að loknum mestu uppgripaárum í sögu þjóðarinnar, en hvarvetna blasa við óleyst verkefni, að ekki sé minnzt á þörfina á stórátökum í mennta– og heilbrigðismálum, en verðbólgu– og gengislækkunar pólitík ríkisstj. á þessum árum veldur því, að greiðslur skattborgaranna fara í æ ríkari mæli til að greiða skuldir og gengistöp frá gósenárunum. Á því hefði því verið brýnni þörf nú en nokkru sinni fyrr, að unnt hefði verið að nýta sem allra mest af fjármagninu til raunverulegra nýtra framkvæmda, til þess að hamla á móti því geigvænlega atvinnuleysi, sem herjað hefur í landinu eftir að þjóðin býr nú við meðalárferði að nýju. Það er því skoðun okkar í minni hl. fjvn., að ekki sé unnt að sætta sig við afgreiðslu fjárl. nú á þann veg, sem frv. gerir ráð fyrir, að svo lítill hluti ríkis teknanna fari til nýrra framkvæmda og öflunar nýrra atvinnutækja. Okkar aðaltill. til breyt. á frv. er því sú, að 350 millj. kr. verði sérstaklega varið til atvinnuaukningar. Þar af verði 120 millj. kr. varið til smíði togara og þá gert ráð fyrir, að auk ríkisábyrgðar á lánum verði þeim, sem eignast skipin, veitt veruleg upphæð til að greiða niður verð skipanna í þeim tilgangi að bæta rekstrargrundvöll þeirra.

Eitthvert mesta og afdrifaríkasta tilræði ríkisstj: flokkanna við atvinnulífið í landinu er sá algeri skilningsskortur og vanmat, sem ráðamennirnir hafa sýnt togaraútgerðinni og hversu aðgerðarlausir þeir hafa horft á togaraflotann grotna niður og hverfa. Á því lægra stig sem rekstur togaranna kemst, þeim mun erfiðara verður að hefja hann til þess vegs, að hann sé samkeppnisfær við flota þeirra þjóða, sem stefnt hafa í þveröfuga átt við okkur í þessum efnum á undanförnum árum með stórfelldri byltingu í togaraútgerð. Það atvinnuleysi, sem nú þjakar verkafólk víða um land, má þjóðin með engu móti þola. Það er nóg og vaxandi eftirspurn eftir fiskafurðum okkar og engin rök fyrir því, að atvinnuleysið þyrfti að fyrirfinnast í landinu, ef rétt hefði verið á málum haldið á undanförnum árum. Ef togaraflotinn væri hlutfallslega jafnstór og hlutfallslega jafn nýtízkulegur og hann var, þegar bezt lét, væri hér ekkert atvinnuleysi, þjóðartekjurnar stórum hærri og lífskjörin betri, en í dag. Þótt ekki hefði nema litlum hluta þess gjaldeyris, sem á undanförnum árum hefur verið sóað í einskisnýtt verzlunar– og bankahúsnæði og alls konar fánýtt glingur, í staðinn verið varið til að afla nýtízku togara, þá horfðu atvinnumálin öðru vísi við í dag en nú. Eins og málum er háttað á ýmsum stöðum í landinu eru togarar jafnvel það eina, sem getur tryggt nokkurn veginn stöðuga atvinnu og skynsamlega nýtingu þeirra fiskvinnslustöðva, sem til eru þar og mikil verðmæti eru bundin í. Samkvæmt till. okkar í minni hluta fjvn. um sérstaka fjárveitingu til atvinnuaukningar er gert ráð fyrir, að ríflega 200 millj. kr. verði til viðbótar því fé, sem til togarasmíði færi, ráðstafað af fjvn. í samráði við atvinnumálanefnd viðkomandi sveitarstjórnar til nýrra framleiðslutækja. Hér er um að ræða ráðstöfun, sem er óhjákvæmilegur liður í aðgerðum til að rjúfa þann vítahring, sem atvinnulífið í landinu er komið í: Samdrátturinn og atvinnuleysið veldur minnkandi kaupgetu og minni kaupgeta enn frekari samdrætti. Hér verður að koma til frumkvæði ríkisstj. um öflun nýrra atvinnutækja, sem auðveldaði þjóðinni að brjótast út úr vítahringnum og bæta lífskjörin. En á því er enginn vafi, að hin lágu laun almennings og stórrýrnun kaupmáttar launa er einn grundvallarþáttur þeirrar uppdráttarsýki, sem nú markar atvinnulífið. Atvinnuleysið hefur ekki sízt verið áberandi í byggingariðnaðinum með þeim afleiðingum m. a., að fjöldi iðnaðarmanna hefur leitað úr landi til að afla sér lifibrauðs. Stórfelld lækkun á tölu íbúða, sem hafin var bygging á, á þessu ári hvarvetna um land er uggvænlegur fyrirboði um frekari samdrátt í byggingariðnaði. Ráðstafanir til þess að flýta útborgun húsnæðismálalána, með því að nota tekjur næsta árs fyrr en ella hefði verið, eru góðra gjalda verðar, en duga skammt og koma niður á útlánum næsta árs, ef ekki er frekar að gert um auknar lánveitingar úr húsnæðismálakerfinu. Þess vegna flytjum við, sem skipum minni hl. fjvn. till. um, að ríkisstj. verði heimilað að taka allt að 100 millj. kr. að láni til að endurlána til íbúðarbygginga á næsta ári. Þegar atvinnuleysið er til í landinu verður afgreiðsla fjárl. ríkisins að markast af aðgerðum til þess að ráða niðurlögum þess. Á það teljum við í minni hl. fjvn. skorta og því eru þessar brtt. fluttar.

Það fer ekki á milli mála, að í verðhækkanaflóði undanfarinna ára hafa brýnustu nauðsynjavörur hækkað meir en allt annað. Þessu veldur vísvitandi stefna stjórnarflokkanna, sem birzt hefur í álagningu söluskatts á þessar vörur og lækkun niðurgreiðslna. Þeim mun bágari sem hagur þjóðfélagsþegns er, einstaklings eða fjölskyldu, þeim mun stærri hluti tekna fer til greiðslna á þeim vörum, sem mest hafa hækkað. Þetta fólk, þar er ekki sízt um að ræða stórar barnafjölskyldur og lífeyrisþega, hefur því goldið þessarar stefnu alveg sérstaklega. Aðrar ráðstafanir, svo sem lækkun tekjuskatts hefur á hinn bóginn komið hinum tekjuhæstu að mestu gagni. Þegar viðreisnarstjórnin hóf göngu sína með gengislækkun og álagningu söluskatts á nauðsynjavörur, voru greiðslur almannatrygginga hækkaðar að marki, en þróunin á verðlagi brýnustu lífsnauðsynja vegna stjórnarstefnunnar hefur valdið því, að kaupmáttur tryggingabóta hefur síðan hrapað ár frá ári. Kaupmáttur tryggingabóta er nú lægri gagnvart ýmsum hinna algengustu nauðsynjavara en hann var, ekki aðeins árið 1960, heldur einnig áður en hækkun bótanna fór fram. Skal ég nú draga fram nokkur dæmi um það. Hjón með fjögur börn fengu árið 1959 fjölskyldubætur með tveimur börnum, samtals 391 kr. og 46 aura á mánuði, en fá í dag bætur með öllum börnunum samtals 1.452 kr. á mánuði. Árið 1959 kostaði eitt kg af nýjum fiski 2 kr. og 86 aura, en nú 28 kr. Fyrir mánaðarfjölskyldubætur með fjórum börnum fengust því árið 1959 199 kg af fiski, en nú í dag aðeins 52 kg. Árið 1959 fengust 1.32 l af mjólk fyrir þessar fjölskyldubætur, nú 1.021. Árið 1959 fengust 108 kg af hveiti fyrir þessar fjölskyldubætur, nú 68 kg. Árið 1959 fengust 290 kg af kartöflum fyrir mánaðar fjölskyldubætur með fjórum börnum, nú 80 kg. Árið 1959 fengust 47.2 kg af smjörlíki fyrir fjölskyldubæturnar, nú 25.8 kg. Breytingin hefur orðið enn óhagkvæmari hjá stærri fjölskyldum, en hér hefur verið miðað við, en ekki eins óhagstæð, ef fjölskyldan hefði verið minni. Og er það enn eitt dæmið um, hvernig að hefur verið staðið. Ef miðað er við ellilífeyrisþega, er sama upp á teningnum um kaupmátt ellilífeyris gagnvart brýnustu nauðsynjavörum. 1959 var ellilífeyrir 835 kr. og 90 aurar á mánuði, en nú er hann 3.416 kr. Fyrir mánaðar ellilaun var hægt að kaupa eftirtalið magn af vörum, annars vegar árið 1959 hins vegar á þessu ári: Af mjólk 283 l 1959, en 241 l nú. Af fiski 292 kg 1959, 122 kg nú. Af hveiti 230 kg 1959, 160 kg nú. Af kaffi 24.1 kg 1959, 21.9 kg nú. Af smjörlíki 101.7 kg 1959, en 59.5 kg nú. Og fyrir hver 10 kg af kartöflum, sem hægt var að kaupa fyrir ellilífeyrinn 1959, er hægt að kaupa 3.1 kg nú. Þessar tölur sýna, að kaupmáttur tryggingabóta hefur hrapað stórkostlega gagnvart þeim vörum, sem miklu máli skipta í neyzlu fólks með lágar tekjur, hvort sem um er að ræða árið 1960 eða 1959. Það er því fyrir löngu óhjákvæmilegt að hækka bætur almannatrygginga. Því verður að vísu ekki að öllu leyti komið í kring með breyt. á fjárl. einum, en til þess að leggja áherzlu á nauðsynlega lausn þessa máls, höfum við, sem skipum minni hl. fjvn. flutt till. um 75 millj. kr. lið á fjárl. til uppbóta á greiðslum úr lífeyristryggingum almannatrygginga og sjúkra– og slysadagpeninga. Hér er aðeins um að ræða 5% hækkun þessara bóta, ef einungis kæmi til greiðsla þessi frá ríkissjóði, en væri gert ráð fyrir því, að ákvörðun yrði tekin um samsvarandi hlut annarra þeirra, sem undir greiðslum bóta almannatrygginga standa, næmi hækkunin um 13–14%. Krafan er ekki sett hærra en þetta, þó að þörfin sé brýn, í trausti þess, að sé farið svo vægilega í sakirnar, séu meiri líkur á, að meiri hl. hv. Alþ. geti fallizt á að samþ. till.

Þótt fjölmargar frekari brtt. þyrfti að sjálfsögðu að gera til bóta á fjárlagafrv. flytjum við, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í fjvn., ekki nema þessar fáu till., sem við höfum hér gert grein fyrir. Þetta gerum við til að undirstrika skyldur ríkisvaldsins til sérstakra aðgerða gegn atvinnuleysinu, sem er glæpsamlegt af hverri ríkisstj. að líða. Við látum flutning minni till., sem vissulega eiga rétt á sér, liggja milli hluta að þessu sinni og ég endurtek það, sem ég áðan sagði, að þegar atvinnuleysi fyrirfinnst í landinu, hvað þá þegar það er fyrir hendi í jafn ríkum mæli og víða um land og nú, þá verður afgreiðsla fjárl. ríkisins að markast af aðgerðum til þess að ráða niðurlögum þess, en það er einn höfuðgalli fjárlagafrv., að það miðar ekki að lausn þessa mikilvæga verkefnis.