24.11.1969
Efri deild: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

16. mál, æskulýðsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var samþ. þar með shlj. atkv., eftir að menntmn. hv. deildar hafði gert nokkrar smávægilegar breytingar á stjfrv., eins og það upphaflega var lagt fyrir. Þetta frv. er samið af n., sem menntmrh. skipaði í árslok 1963. Það var fyrst lagt fyrir Alþ. 1967–68, en hlaut ekki afgreiðslu. Það var tekið upp sem þmfrv. á þinginu 1968–69 en var ekki heldur afgr. þaðan. Ástæðurnar voru fyrst og fremst þær, að ákvæði upphaflega frv. varðandi kostnaðarhlið málsins þóttu óljós. Ýmsir höfðu á það bent, að samþykkt frv., eins og n., sem það samdi, gekk frá því, mundi geta haft lítt takmörkuð útgjöld í för með sér, eða a.m.k. væri ekki aðstaða til þess að hafa nægilegan hemil á hugsanlegum útgjöldum vegna ákvæða frv., sem talið var nauðsynlegt að gera skýrari heldur en þau upphaflega voru.

Á s.I. sumri var þetta gamla frv. endurskoðað í menntmrn., ákvæði þess gerð einfaldari að ýmsu leyti og kveðið skýrar á um þær kostnaðarskyldur, sem samþykkt frv. mundi hafa í för með sér. En tilgangur lagasetningar um þetta efni er sá að setja almennar lagareglur um opinberan stuðning við æskulýðsstarfsemi.

Það er tekið fram í frv., hvaða aðilar geti notið stuðnings, en það eru félög, sem vinna að æskulýðsmálum á frjálsum áhugamannagrundvelli, enda byggist félagsstarfsemi fyrst og fremst á sjálfboðastarfi og eigin fjárframlögum félagsmanna, og síðan aðrir aðilar, sem einkum sinna velferðarmálum ófélagsbundins æskufólks í skipulögðu starfi. Það er tekið skýrt fram, að l. taka til íþrótta- og bindindisstarfsemi og félags- og tómstundastarfsemi í skólum að svo miklu leyti, sem við á og önnur lög og reglur taka þar ekki til.

Þess er nú getið, að l. miðist við æskulýðsstarfsemi fyrir ungmenni á aldrinum 12–20 ára. Gert er ráð fyrir því, að það haldist, sem nú er, að menntmrn. fari með yfirstjórn æskulýðsmála og stofni Æskulýðsráð ríkisins, skipað 5 mönnum. 3 menn skulu tilnefndir af aðildarsamtökum Æskulýðssambands Íslands og öðrum hliðstæðum æskulýðssamböndum, einn maður af Sambandi ísl. sveitarfélaga, en ráðh. er ætlað að skipa formann ráðsins.

Mikilvægasta ákvæði frv. er í 4. gr. þess, þar sem gert er ráð fyrir, að menntmrh. skipi æskulýðsfulltrúa ríkisins að fengnum till. Æskulýðsráðs ríkisins. Er hér um að ræða hliðstætt embætti íþróttafulltrúa, sem starfað hefur um nokkra áratugi og hefur látið margt gott af sér leiða varðandi skipulagsmál íþróttastarfsemi í landinu. Gert er ráð fyrir, að skipaður verði æskulýðsfulltrúi, sem gegni hliðstæðu hlutverki gagnvart æskulýðsfélögum í landinu og íþróttafulltrúi gegnir gagnvart íþróttafélögum. Að gefnu tilefni er rétt að taka það skýrt fram, að ekki er gert ráð fyrir því, að í kjölfar samþykktar þessa frv. leiði, að komið verði á fót nýrri stofnun, sem hafi með æskulýðsmál að gera, frekar en störf íþróttafulltrúa eru bundin nokkurri sérstakri stofnun. Íþróttafulltrúi er starfsmaður menntmrn. og hefur aðsetur á fræðslumálaskrifstofunni. Með hliðstæðum hætti mundi væntanlegur æskulýðsfulltrúi ríkisins, ef frv. nær fram að ganga, verða starfsmaður rn. með hliðstæða starfsstöðu og hliðstætt hlutverk og íþróttafulltrúi hefur nú.

Nd. gerði tvær breytingar á upphaflega frv. Í því var gert ráð fyrir, að skipunartími Æskulýðsráðs ríkisins skyldi vera 3 ár. Nd. stytti skipunartíma Æskulýðsráðs í 2 ár, og þá mikilvægu breyt. samþ. hv. Nd. einróma að till. menntmn., að ekki sé gert ráð fyrir því að væntanlegur æskulýðsfulltrúi verði skipaður sem embættismaður ævilangt eins og t.d. íþróttafulltrúi er, heldur skuli skipunartími hans taka til 5 ára í senn.

Ég tel hér vera um mjög þarft mál að ræða, sem ég er viss um að muni verða til mikils góðs fyrir frjálsa æskulýðsstarfsemi í landinu, ef það nær fram að ganga, og ég vona, að undirtektir þessarar hv. deildar verði með sama hætti og hv. Nd., að það hljóti hér einróma stuðning.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að vænta þess, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.