29.01.1970
Neðri deild: 46. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

137. mál, verslun með ópíum o.fl.

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. um tilbúning og verzlun með ópíum hefur verið afgr. ágreiningslaust, að ég hygg, í hv. Ed., en það er fram borið af þeim sökum, að l. um verzlun með ópíum frá 1923 þóttu á sínum tíma orðin nokkuð úrelt, og var því gerð breyting á þeim hér á þingi með l. nr. 43 frá 2. maí 1968. Síðar við nánari athugun hefur þó þótt vanta á ákvæði í þeim l. um að óheimilt væri að hafa undir höndum eða varðveita, veita viðtöku gefa, afhenda, selja eða verzla með hvers konar lyf og efni, er ákvæði þessara l. taka til og ólöglega eru flutt inn eða framleidd.

Hér eru þess vegna hert ákvæði um þetta. Þar er ekki aðeins ólöglegur innflutningur og verzlun með ópíum og skyld efni eða lyf, sem nánar er skilgreint í reglugerð, að falli undir þessi l., heldur má ekki veita þeim móttöku, framleiða þau, gefa þau eða á annan hátt eiga nokkurn þátt í meðferð þeirra, öðru vísi en tekið er sérstaklega fram um sem læknislyf og nánari reglur taka til um.

Samhliða þessu þótti ástæða til þess að herða mjög refsingar við brotum á þessum l., og tekur önnur grein til þess. Segja má, að það sé nýmæli þarna, að það varðar sektum, allt að 1 millj. kr., eða varðhaldi eða fangelsi, allt að 6 árum, sem er miklu þyngra ákvæði en hér var áður um að ræða, ef um stórfellt brot er að ræða.

Eins og hv. þm. er eflaust kunnugt, þá hefur meðferð ýmissa lyfja og efna, sem eru kannski að einhverju leyti tengd ópíum og skyldum efnum og geta talizt vanalyf, verið áhyggjuefni hjá mörgum þjóðum og nágrannaþjóðum okkar, einnig á Norðurlöndum. Hafa margvíslegar ráðstafanir verið gerðar til þess að koma í veg fyrir misnotkun þessara efna, sem eru því miður víða mikið áhyggjuefni, ekki kannski sízt hjá hinum stóru þjóðum. Við höfum haft nokkra samvinnu um þetta við Norðurlöndin, og hafa komið til umræðu samstæðar reglur, t.d. á fundum dómsmrh. Norðurlanda.

Hér á landi hefur þetta verið mál, sem unnið hefur verið í dómsmrn. í samvinnu við landlækni, lögreglustjóra og tollgæzluna. Það er mikið vandamál og áhyggjuefni að búa vel um hnútana, þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af hvorki ólöglegum innflutningi eða hættulegri meðferð þessara lyfja og efna, sem hér um ræðir. Ég held, að þó að nokkuð hafi gætt meðferðar á vissum tegundum skyldra lyfja hér, þá er óhætt að segja, eftir því sem landlæknir hefur tjáð og fram hefur reyndar komið hér í þingsölum, að þetta hafi ekki verið verulegt alvörumál hjá okkur, en á síðustu árum hefur sérstaklega verið reynt að fylgjast í auknum mæli með hugsanlegri notkun og meðferð þessara lyfja. Ég vil því leyfa mér að vænta, að um þetta frv. verði ekki ágreiningur hér, og leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.