09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

1. mál, fjárlög 1970

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Við 1. umr. fjárl. gerði ég fjárlagafrv. nokkuð að umtalsefni, bæði tekjuhlið þess og útgjaldabálk, benti sérstaklega á það, að frv. væri í ákaflega lausum tengslum við þau vandamál, sem blöstu við í þjóðfélaginu, við atvinnuástandið, við ástandið í húsnæðismálum og ástandið í tryggingamálum, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Þessi atriði hafa ekki breytzt í meðförum fjvn. Meiri hl. hennar hefur ekki fallizt á þau sjónarmið. Hins vegar hefur hv. minni hl. n. flutt hér brtt. um fjármagn til atvinnumála og til uppbóta á greiðslur á lífeyristryggingum og enn fremur um lán til Byggingarsjóðs ríkisins. Ég tel þessar brtt. mjög veigamiklar; ef þær yrðu samþ., mundi frv. breytast mjög til bóta. En eins og það er, er eins og ég sagði áðan ekkert tillit tekið m.a. til þeirrar staðreyndar, að skráðir atvinnuleysingjar á Íslandi eru fleiri nú en þeir hafa nokkurn tíma verið áður um þetta leyti árs.

Eins og stundum áður ber þetta mál þannig að, að okkur er ekki fullkomlega ljóst við þessa 2. umr., hvernig fjárl. eiga að samþykkjast að lokum. Hæstv.

fjmrh. gat þess hér áðan, að gerðar yrðu mjög verulegar breytingar á tekjuhlið frv. með nýjum lagabálki um tolla annars vegar og hins vegar um söluskatt. Frá þessu var okkur greint í gær við 1. umr. um aðild Íslands að EFTA, því að þá greindi hæstv. viðskrh. frá því, að niðurfelling á tollum mundi nema 500 millj. kr. og taka yrði samsvarandi upphæð með hækkun á söluskatti. Nú bætir hæstv. fjmrh. við nýrri vitneskju. Hann segir, að ætlunin sé að jafna halla, sem er kominn á fjárl., um 90 millj. kr., með hækkun á söluskatti einnig. Og hæstv. ráðh. bætti því við, að þó væru ekki öll kurl komin til grafar. Nú trúi ég naumast öðru en hæstv. ráðh. viti, hvað ríkisstj. ætlar að gera till. um mikla hækkun á söluskatti og ég sé ekki nokkra ástæðu til þess, að hæstv. ráðh. sé að leyna okkur þessari vitneskju. Mér finnst, að það sé einföld skylda hans að skýra okkur frá því nú við þessa 2. umr., hvaða till. ríkisstj. hugsar sér að gera um breytingar á söluskatti. Hvað verða þetta miklar upphæðir umfram þær 590 millj., sem þegar er búið að nefna? Er t.d. ætlunin að hækka lífeyrisbætur almannatrygginga og jafnvel fjölskyldubætur með hækkun á söluskatti? Hæstv. ráðh. sagði, að þau mál væru í sérstakri athugun og talið væri, að hækka þyrfti a.m.k. lífeyrisbæturnar, en þegar hæstv. ráðh. gerir till. um breytingar á söluskattinum, þá hlýtur hann að hafa einhverja hugmynd um, hversu miklar þessar breytingar verða. Og ég tel, að hæstv. ráðh. hefði átt að greina Alþ. frá þessu einnig. Raunar var allt tal þessa hæstv. ráðh. um ástand almannatrygginganna mun dauflegra en yfirlýsingar, sem birzt hafa í öðru aðalmálgagni ríkisstj., Alþýðublaðinu. Ég las þar forystugrein fyrir nokkrum dögum, þar sem á það var lögð þung áherzla, að það væri ekki nokkur leið að afgreiða fjárlagafrv. að þessu sinni nema fyrir lægi sú örugga vitneskja, að bætur almannatrygginga yrðu hækkaðar til mjög mikilla muna. Það var talið, að þetta væri alveg sérstök krafa Alþfl. og þar var raunar borin fram sú till., að upphæð til þess að hækka bætur almannatrygginga yrði fengin með því að draga úr útflutningsuppbótum á landbúnaðarvörur. Nú má vera, að þetta viðhorf Alþfl. sé breytt, eftir að hæstv. viðskrh. er farinn að telja það EFTA til ágætis, að hægt sé að auka útflutning á landbúnaðarvörum með aðild að því bandalagi, en engu að síður hlýtur stefna Alþfl. að vera sú, sem fram kom í forystugreininni, að þessar bætur verði að hækka til mikilla muna.

Umtal hæstv. ráðh. um málefni togaraútgerðarinnar voru furðulega neikvæð. Hann sagði, hæstv. ráðh., að það mál þyrfti allt meiri athugunar við. Nú veit ég ekki betur en hæstv. ríkisstj. sé búin að vera með málefni togaraútgerðarinnar í athugun í heilan áratug og í alveg sérstakri athugun síðan fyrir kosningar 1967. Þá birti hæstv. ríkisstj. vegna kosninganna yfirlýsingar um það, að til stæði á hennar vegum að beita sér fyrir endurnýjun togaraflotans. Skipuð var sérstök nefnd, sem hefur síðan staðið í því að láta teikna og teikna og ég hafði satt að segja ímyndað mér, að sveitarstjórnarkosningarnar á næsta ári kynnu að geta leitt til þess, að hæstv. ríkisstj. léti verða úr einhverjum framkvæmdum, jafnvel að við fengjum að sjá þó ekki væri nema einn eða tvo togara. En þessi ummæli hæstv. ráðh. drógu mjög úr þessum hugmyndum mínum, því að mál hans

allt var ákaflega neikvætt um þau atriði. Hann taldi öll tormerki á því, að ríkissjóður legði fram sérstakt fjármagn til þess að tryggja endurnýjun togaraflotans og taldi, að það væri mjög háskalegt fordæmi. Ég vil minna hæstv. ráðh. á það, að hann og samráðh. hans hafa ekki verið ámóta smeykir við að leggja fram fjármuni, ef aðrir eiga í hlut. Þar á ég við hið erlenda fyrirtæki í Straumi. Ríkisstj. gaf eftir lögboðin gjöld, sem nema hundruðum millj. kr., til þess að erlendir aðilar kæmu þessu fyrirtæki á laggirnar. Og eins og nú standa sakir, verða Íslendingar að greiða stórfelldar upphæðir með raforku til þessarar verksmiðju. Þarna er ekkert hik að leggja fram fjármuni í þágu erlendra aðila. En þegar röðin kemur að innlendum atvinnurekstri, þá er hér annað hljóð í hæstv. ráðh.

Ég vil minna hæstv. ráðh. á það, að það er mjög algengt orðið, þegar um er að ræða framkvæmdir, sem kosta mikið fjármagn, að lagðar eru fram af opinberu fé upphæðir til þess að greiða niður stofnkostnað slíkra fyrirtækja. Annars staðar er vafalaust um að ræða miklu stærri fyrirtæki en togaraútgerð á Íslandi, en út frá okkar smáu sjónarmiðum eru togarakaup býsna mikið fyrirtæki. Og ég held, að við eigum ekki að kasta frá okkur þeirri hugmynd.

Að öðru leyti ætlaði ég ekki að ræða hér almennt um fjárl., ég gerði það við 1. umr. eins og ég gat um áðan, en minnast aðeins nokkrum orðum á örfáar brtt., sem ég flyt hér ásamt öðrum þm. eða einn.

Á þskj. nr. 158 er brtt., sem ég flyt ásamt hv. þm. Jóni Skaftasyni, um hækkun á framlögum til Landsspítalans þess efnis, að fjárfestingarliður Landsspítalans hækki um 10 millj. kr. og sú upphæð renni sem fyrsta framlag til byggingar geðdeildar. Þessi till. er flutt í áframhaldi af umr., sem varð hér á þingi fyrir skömmu. Ég spurði þá hæstv. heilbrmrh. um fyrirætlanir hæstv. ríkisstj. á sviði geðverndarmála. Og í þeim umr. var minnt á ákaflega alvarlegar staðreyndir. Læknar telja, að nú sé þörf á Íslandi fyrir 600 sjúkrarúm handa geðsjúklingum. Í sjúkrahúsum þeim, sem ætluð eru fyrir geðlækningar, eru hins vegar aðeins sjúkrarúm fyrir 232 sjúklinga, 200 á Kleppi og 32 á Borgarspítalanum. Það hefur verið sett miklu fleira fólk inn á Klepp, en upphaflega var til ætlazt og gerðar ýmsar bráðabirgðaráðstafanir aðrar, þannig að á sjúkrahúsum dveljast nú 300–400 menn, sem þurfa á tæknismeðferð að halda vegna geðsjúkdóma. En utan sjúkrahúsa eru enn 200–300 menn, sem þurfa að vera á sjúkrahúsi. Þarna er um algert neyðarástand að ræða vegna þess, að geðsjúkdómar eru langalgengustu sjúkdómar nú á Íslandi og víðar og það hefur verið mikill skortur á skilningi á þeim sjúkdómum til skamms tíma. Hér er um að ræða mál, sem taka verður föstum tökum. En í svari hæstv. heilbrrh. við fsp. minni kom það fram, að ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um næstu framkvæmdir. Hæstv. ráðh. sagði, að fyrirhugað væri á sínum tíma að byggja sérstaka deild við Landsspítalann fyrir 90 –100 sjúklinga, en hann fékkst ekki til að segja neitt um það, hvenær ætti að hefjast handa um þá framkvæmd. Hæstv. ráðh. bar því við, að fjárveitingar skorti og hann talaði þá eins og hann oft talaði um áður, að það sé ekki nóg fyrir hv. alþm. að flytja fögur orð hér úr ræðustóli, þeir verði að tryggja ráðh. fé til þess að framkvæma.

Þessi till. er flutt í því skyni, að hæstv. ráðh. verði tryggð byrjunar fjárveiting í þessum tilgangi og ef hæstv. ráðh. fæst til þess að beita sér fyrir þessu máli innan flokks síns og innan stjórnarflokkanna, þá ætti að vera öruggur mikill þingmeirihl. fyrir því. Hitt má vel vera, að annarlegar og undarlegar framkvæmdir í sjúkrahúsamálum gleypi á næstunni upphæðir, sem þyrftu að renna til heilsugæzlunnar sjálfrar. Í brtt. meiri hl. fjvn. er greint frá makaskiptum við Reykjavíkurborg, þar sem Reykjavík fær Arnarhól, en ríkissjóður fær viðbótarlóð kringum Landsspítalann. Þar á meðal stendur til að gera Hringbrautina, sem nú er, að eins konar bílastæði fyrir Landsspítalann, en ríkissjóður tekur á sig í staðinn að gera nýja Hringbraut. Mér er tjáð, að sú framkvæmd muni kosta ekki minna en 40 millj. kr. Hæstv. fjmrh. leiðréttir mig, ef þetta er ekki rétt, 40 millj. kr. Og meðan ríkissjóður stendur í vegagerð til þess að tryggja bílastæði með þessum tilkostnaði, þá finnst kannske hæstv. ráðh., að hann hafi lítið fé til þess að sinna sjúku fólki.

Þetta er til marks um átakanlegt skipulagsleysi, sem einkennir ýmsar framkvæmdir á Íslandi. Landsspítalinn er 50 ára, en enn er ekki búið að ganga endanlega frá skipulagi á þessari lóð. Þar hefur verið byggt í skipulagsleysi endalaust, þangað til málin eru komin í þennan harða hnút, að það verður að leggja af eina af aðalgötum Reykjavíkur til þess að tryggja bílastæði fyrir spítalann og leggja nýja braut í staðinn. En þetta tel ég ákaflega einkennilegar framkvæmdir í heilbrigðismálum, ef hægt er að kalla þetta heilbrigðismál.

Önnur till., sem ég flyt og ekki er enn búið að prenta, er brtt. við till. fjvn. við liðinn á bls. 8, til sjúkrahúsa, sjúkraskýla o.s.frv., þ.e. liðurinn, sem heitir Reykjavík. Þarna er gert ráð fyrir, að Reykjavík fái undir þessum lið 24 millj. kr., en ég legg til, að þessi upphæð verði hækkuð upp í 40 millj. kr. Ástæðan fyrir þessari till. er sú, að ríkissjóður er í mjög mikilli vanskilaskuld við Reykjavík og ég flyt þessa till. sem þm. Reykv., því að þessi vanskilaskuld er algerlega ótæk. Hæstv. ráðh. hristir höfuðið, en um síðustu áramót skuldaði ríkissjóður Reykjavík vegna Borgarsjúkrahússins 98.6 millj. kr. Á næsta ári gerir Reykjavíkurborg ráð fyrir því að greiða vegna Borgarsjúkrahússins til þess að fullgera þann áfanga, sem nú er verið að vinna að, 30 millj. Og á móti á að koma jafnhá upphæð úr ríkissjóði. Þá yrði heildarskuld ríkissjóðs komin upp í 128.6 millj. kr. Og á móti kemur svo framlagið á fjárl. En þessi tala, 24 millj., sem þarna stendur, er mjög villandi, því að ríkissjóður tók einu sinni 40 millj. kr. lán til þess að stytta þennan langa skuldahala. Hann verður nú að greiða í vexti og afborganir af þessu láni 14 millj. kr., þannig að raunverulegt framlag til þess að grynnka á þessari skuld er aðeins 10 millj. kr. Með þessu móti hækkar skuldin á næsta ári, en lækkar ekki. Ríkissjóður skuldar Reykjavík ýmislegt fleira. Það er einnig um að ræða vanskilaskuldir á fleiri sviðum. Um síðustu áramót voru vanskilaskuldir ríkissjóðs vegna skóla í Reykjavík yfir 10 millj. kr. og skuld Íþróttasjóðs við Reykjavík var um síðustu áramót 34.7 millj. kr. Að sjálfsögðu eru vanskil af þessu tagi algerlega ótæk. Þau gera sveitarfélögunum mjög erfitt fyrir að framkvæma þau verkefni, sem þau þurfa að framkvæma, og ég tel ekki, að ríkið hafi nokkra heimild til þess að setja sveitarfélögunum þannig stólinn fyrir dyrnar.

Þá flyt ég hér ásamt hv. alþm. Jónasi Árnasyni og Sigurði Grétari Guðmundssyni litla till. í sambandi við listamannalaun: Að þessu sinni gerist sá atburður í fyrsta skipti í mörg, mörg ár, að framlög til listamanna eru hækkuð. Um það hafa verið fluttar till. árlega svo lengi, sem ég man eftir mér, en núna um mjög langan tíma hafa þær ævinlega verið felldar. Nú er þessi upphæð allt í einu hækkuð um 1 millj. kr. og ég er ekki frá því, að þar megi þakka sérstaklega forystugrein, sem birtist í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum. En þá var talað mjög harkalega við hv. fjvn. og hæstv. ríkisstj. um það, að það væri ótækt með öllu að láta þessa fjárhæð standa óbreytta. Það er sannarlega gott, ef Morgunblaðið getur hrifið á þann veg og væri betur, að það beitti áhrifum sínum oftar til skynsamlegrar kröfugerðar. Engu að síður finnst mér þessi hækkun ekki vera fullnægjandi. Það er engan veginn þannig, að hún nægi til þess að vega upp þá raunverulegu lækkun, sem orðið hefur á listamannalaunum að undanförnu, og þaðan af síður til þess að koma til móts við vaxandi áhuga á þessu sviði. Þess vegna flytjum við hér till. um það, að sá nýi liður, sem upp var tekinn í fyrra og heitir starfslaun listamanna verði hækkaður úr 440 þús., sem n. gerir till. um, upp í 1 millj. Ég held, að þessi aðferð, sem þarna var tekin upp, starfslaun listamanna, sé mjög skynsamleg og að þessi aðferð geti á margan hátt gert meira gagn, ekki sízt ungum listamönnum, heldur en þessir almennu listamannastyrkir. Það væri ekki hægt að kalla það háa fjárveitingu, á þessum tímum þegar háar tölur tíðkast mjög, þó að gert sé ráð fyrir, að í millj. verði veitt í þessu skyni.

Í annan stað leggjum við til, að almennu listamannalaunin, sem úthlutað verður af nefnd, verði hækkuð úr 4 millj. 229 þús. upp í 6 millj. Þessi hækkun, sem ég talaði um áðan um 1 millj., næstum því helmingur hennar rennur til heiðurslauna listamanna. Þar er um að ræða hækkun til hvers manns um 25 þús. og auk þess er bætt við tveimur frá því, sem var í fyrra, þannig að í þetta fara 450 þús. kr. Þessi till. um hækkun á almennu listamannalaununum mundi fela það í sér, að það yrði á svipaðan hátt rýmra um eins og í þessum heiðurslaunaflokki, þannig að þetta getur ekki heldur talizt neitt óeðlileg tillögugerð.

Mig langar að lokum að minnast hér aðeins á tvö atriði önnur, þó að ég geri engar till. um þau. Í heimildarlið við fjárl. er ríkisstj. veitt heimild til að endurgreiða væntanlegan tekjuskatt af Henrik Steffens verðlaununum, sem Magnús Már Lárusson prófessor hefur hlotið. Ég vakti athygli á þessu máli fyrr á þessu þingi, þegar ég flutti hér sérstakt frv. um skattfrelsi heiðursverðlauna, þar sem lagt var til, að sett verði um það almenn regla, að menn, sem fengju án umsóknar slík heiðurslaun, væru undanþegnir opinberum gjöldum. Hæstv. fjmrh. sagði þá í ræðu, að hann væri sammála þessari hugsun minni. En vandinn væri sá að finna orðalag, sem dygði til þess að afmarka þá, sem þarna ættu að koma til greina. Ég vona, að þessi aðferð að setja þessa heimild inn á fjárlög þýði ekki, að hæstv. ráðh. hafi gefizt upp við það verkefni að finna orðalag

um þetta einfalda atriði. Ég held, að okkur sé algerlega óhjákvæmilegt að búa til einhverja slíka reglu. Dæmi af þessu tagi munu áreiðanlega koma árlega og jafnvel oft á ári og það er ekki nokkur aðferð að vera endalaust að setja það inn í fjárlög hverju sinni, hvernig að skuli farið. Enda geta stundum komið upp leiðindaatvik, ef menn njóta mismunandi hylli hér á Alþ. Þarna verður að vera skýlaus regla, sem allir geta gengið að sem vísri. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að ítreka þá ósk mína til hæstv. ráðh., að hann hugi að þessu máli.

Ég vil einnig víkja hér að öðru heimildarákvæði, að hefja byggingu nýs stjórnarráðshúss á árinu 1970 og undirbúa nauðsynlega fjáröflun, til þess að unnt sé að ljúka byggingu hússins með eðlilegum hraða. Í þessu sambandi langar mig til að minna á annað hús, sem stundum hefur verið rætt um hér á Alþ. Fyrir 12 árum var tekin um það einróma ákvörðun af Alþ. að sameina Landsbókasafn og Háskólabókasafn og byggja nýtt hús yfir þau bókasöfn. Þessari efnisákvörðun var hins vegar ekki fylgt eftir með neinum fjárveitingum fyrr en 1967, en þá komst í fyrsta skipti inn á fjárlög fjárveiting til byggingar slíkrar bókhlöðu. Hún var að vísu aðeins 1/2 millj. og sú upphæð hefur staðið óbreytt síðan, en engu að síður fólst í því ný ákvörðun um fjárveitingar í þessu skyni.

Eins og allir vita, hefur verið mjög vaxandi áhugi á þessu máli á undanförnum árum og margir ágætir menn tekið undir hugmyndina um byggingu þjóðarbókhlöðu. Nefnd, sem skipuð var af Alþ. til þess að fjalla um það, hvað Íslendingar gætu gert til hátíðabrigða á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar, komst að einróma niðurstöðu um það, að benda á það sem meginverkefni að byggja nýja bókhlöðu. Það yrði aðalverkefni Íslendinga af þessu tilefni og ég veit, að n. hefur sent hæstv. ríkisstj. till. sínar um þetta efni fyrir alllöngu. Mér er einnig kunnugt, að það hefur verið nokkur skriður á þessu máli, ýmiss konar undirbúningur. Hér voru nýlega tveir erlendir sérfræðingar til þess að kynna sér vandamál okkar og búa í haginn fyrir tillögugerð um þetta mál. Hitt sýnist vera algerlega augljóst, að ef unnt á að vera að framkvæma þá hugmynd að tengja byggingu bókhlöðu við 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar, þannig að einhver myndarlegur áfangi væri kominn af stað 1974, yrði algerlega óhjákvæmilegt að taka um það ákvörðun á þessu þingi. Nú þykist ég vita og veit raunar, að hæstv. ráðh. hafa fullan skilning á þessu máli, en ég vildi beina því til hæstv. fjmrh. og fjvn., hvort ekki gæti af þessu ástæðum verið skynsamlegt að taka inn á heimildarlið einhvern lið hliðstæðan þessari heimild um stjórnarráðshús. Nú má það vel vera, að það sé unnt að vinna samtímis að tveimur jafnstórum verkefnum og stjórnarráðshúsi og bókhlöðu. Ég veit ekki, hvað menn hugsa sér í því efni. Ef það væri hægt, er það auðvitað prýðilegt. Hitt vil ég segja hreinskilnislega, að ef á að gera upp á milli þessara bygginga þannig að hefjast yrði handa um aðra á undan hinni, þá tel ég það algerlega ótvírætt, að bókhlaðan ætti að koma á undan. Ég þekki rökin fyrir nauðsyn þess að byggja stjórnarráðshús og get fallizt á þau. En hin nauðsynin er miklu meiri. Hún er líka í tengslum við þau verkefni, sem nú eru hvað brýnust á Íslandi, að stórauka hér rannsóknir og vísindastarfsemi. Það er hreinlega ekki hægt án þess að bókasafnsmálum okkar sé komið í nútímahorf. Ég vil sem sé ítreka þessa fsp. mína til hæstv. ráðh.