05.03.1970
Neðri deild: 55. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

14. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út í ágúst s.l. og fjalla um framhaldsdeildir við gagnfræðaskóla til að auka fjölbreytni þeirra námsleiða, sem ungmenni eiga þar völ á.

Þessum l. var hvarvetna vel tekið, og í vetur hafa verið starfandi framhaldsdeildir á 5 stöðum á landinu með samtals 180 nemendum. Deildirnar eru þessar: Í Reykjavík, 120 nemendur, á Akranesi, 15 nemendur, á Ísafirði, 14 nemendur, á Akureyri, 17 nemendur og í Neskaupstað, 14 nemendur. Námið hefur skipzt í kjarna og kjörsvið, en hið siðara nemur 6 stundum á viku. Kjörsvið eru 4, uppeldiskjörsvið, sem 30 nemendur hafa valið, tæknikjörsvið, sem 62 nemendur hafa valið, og loks viðskiptakjörsvið, sem 69 nemendur hafa valið.

Nú eru starfandi á vegum menntmrn. a.m.k. 2 n., sem fjalla um starfsemi þessara deilda í framtíðinni, og hefur ein með að gera réttindastöðu nemenda með tilliti til inngöngu þeirra í aðra skóla og tengsl þessara deilda við aðra aðila í skólakerfinu, og önnur fjallar um námsefnið.

Eitt deiluefni hefur þó komið upp varðandi þessar framhaldsdeildir. Það er skipting kostnaðar á milli ríkis og sveitafélaga. Hefur Samband ísl. sveitarfélaga haldið fram þeirri skoðun, að hér sé um að ræða framhaldsnám, sem ríkinu beri að kosta að öllu leyti.

Ljóst er, að eftir eitt til tvö ár verður að endurskoða I. um skólakostnað. Þá verður og fengin nokkur reynsla af hinum nýju framhaldsdeildum. Verður að treysta því, að greiðsla kostnaðar við framhaldsdeildirnar komi þá til athugunar og endurskoðunar. Einnig koma deildirnar án efa eitthvað við sögu í sambandi við endurskoðun fræðslulöggjafarinnar, sem nú stendur yfir og lýkur væntanlega fyrri hluta þessa árs.

Í trausti þess, að kostnaðarákvæði l. verði athuguð frekar og þess freistað að ná samkomulagi við sveitarfélögin um það mál, mælir meiri hl. menntmn. með því, að frv. verði samþ. óbreytt. 3 nm., sem eru samþykkir aðalefni frv., hafa hins vegar áskilið sér rétt til þess að flytja, og hafa nú flutt brtt. um greiðslu kostnaðar við deildirnar.