05.03.1970
Neðri deild: 55. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

14. mál, gagnfræðanám

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég er sannfærður um, að það hefur verið tímabært að stofna til þeirrar framhaldskennslu við gagnfræðaskólana, sem þetta frv. er ramminn um, og er því sannfærður um það, að með lagasetningu sem þessari er rétt stefnt, einkum ef það vakir fyrir stjórn menntamálanna í landinu að sveigja námsbrautir ungs fólks meira inn á praktískar leiðir og tengja þær nánar atvinnulífi þjóðarinnar. En ég er hins vegar hræddur um það, að þó að þetta hafi verið gert í tilraunaskyni, þá hafi verið farið út í þetta mál nokkuð undirbúningslítið og að sú tilraun, sem hér er verið að gera í 4–5 gagnfræðaskólum í landinu, sé því í nokkurri hættu af þeim sökum og kunni að misheppnast. Ef svo færi, væri verr farið en heima setið.

Ég hefði haldið, að slíka breytingu á framkvæmd kennslumála í landinu og skólahalds, hefði þurft að undirbúa mjög gaumgæfilega og þá ekki eingöngu með breytingu á þessu skólastigi, heldur einnig í framhaldi af því á menntaskólastigi. Ef ekki er ætlunin að leiða þá nemendur, sem í þessar framhaldsdeildir fara og verja þar einu til tveimur árum ævi sinnar, inn á blindgötu í menntakerfinu, þá þarf líka að sjá um, að nýjar námsleiðir opnist upp í gegnum háskóla í framhaldi af þessu sérnámi.

Ég er hræddur um, að það hafi ekki einu sinni verið búið að búa nægilega vel um framkvæmd þessarar kennslu í gagnfræðaskólunum, þegar rokið var í það á s.l. hausti á grundvelli þessara brbl., sem sett voru í sumar, hvorki að ákveða nákvæmlega í einstökum atriðum, hvert námsefnið skyldi vera, né að sjá fyrir kennslubókum við hæfi þeirrar kennslu eða í þriðja lagi, að þeir gagnfræðaskólar, sem tóku kennsluna upp strax á þessum vetri, hafi verið vel undir það búnir að hafa kennslukrafta við hæfi til þess að framkvæma þessa framhaldskennslu.

Þó má vel vera, og færi betur, að svo væri, að þetta fari allt vel úr hendi á þessum vetri og að undirbúningsleysið verði ekki málinu til mikils tjóns. En ég held, að það verði þá frekar hending heldur en að viturlega og af gaumgæfni hafi verið stofnað til málsins. En um það þýðir ekki að sakast.

Þetta skref hefur verið stigið, og það var þörf á að stíga skrefið. Um það er ég sammála þeim, sem að þessu máli hafa staðið, en ég held sem sé, að undirbúningurinn hafi verið of losaralegur og að tilraunin kunni e.t.v. að meira eða minna leyti að misheppnast af þeim sökum. Þó vil ég vænta hins bezta í þeim efnum og ekki vera með neina bölsýnisspá um það. Betur kann úr að rætast en til var stofnað.

Varðandi þann ágreining, sem virðist vera í n. um kostnað í sambandi við þessar deildir, þá tek ég alveg undir það, að ég tel eðlilegt, að deildirnar séu kostaðar að öllu leyti af ríkinu, því að þær eru hliðstæð kennsla eins og framkvæmd er nú á menntaskólastiginu, og menntaskólarnir eru, eins og fram var tekið hér áðan, algerlega kostaðir af ríkinu. Það er verið að færa kostnað af námi yfir á sveitarfélögin að hluta, ef farið er inn á þá braut að láta þau bera hluta af kostnaðinum í sambandi við deildirnar, því að þessir framhaldsnemendur, eftir gagnfræðapróf og landspróf, sérstaklega eftir landsprófið, mundu sennilega flestir hafa haldið áfram námi í menntaskólunum.

Það sýnir m.a., hversu undirbúningurinn hefur verið ófullnægjandi og losaralegur, eins og við mátti búast, þegar í skyndingu var stofnað til málsins, þegar í ljós kom í framsöguræðu frsm. menntmn., að það væru nú starfandi tvær nefndir, önnur um námsefni deilda, hin um réttindastöðu nemenda. Hvort tveggja var óákveðið, þegar af stað var farið með kennsluna, og geta menn séð, hversu þetta hefur hvílt í lausu lofti, þótt ekki kæmi nú annað til en upplýsingar um það, að 2 n. eru nú starfandi, sem eru að íhuga um námsefni deildanna og réttindastöðu nemendanna, sem þarna eru að námi.

Það hvarflaði að mér, þegar hv. frsm. upplýsti þetta, hvort það væri nú ekki misskilningur, að þessar tvær n. væru teknar til starfa, því að núna í miðdagstímanum, rétt áður en ég fór á þennan fund, var hringt til mín úr menntmrn. og ég beðinn sem forseti Alþýðusambandsins að gera ábendingu um eða veita uppástungu um menn í þær. Eða þá að bæta þyrfti við þeirri þriðju, því að þessar eru báðar að ljúka störfum og sú þriðja á að fara að fæðast til þess að athuga eitthvað enn þá frekar um þessi mál. Þá er það upplýst af hæstv. menntmrh. sjálfum, að þessar tvær n. hafa starfað að sínum verkefnum, fjallað um námsefni deildanna og réttindastöðu nemendanna, en það á að fara að setja á fót þriðju nefndina til þess að kryfja einhver undirstöðumál þessarar framhaldskennslu til mergjar.

Það er þá viðbótarupplýsing um það, að allt er þetta mjög lítt formað enn þá og óráðið, hvernig þessi framhaldskennsla verður endanlega mótuð, hverjir kosta hana, hver séu réttindi nemendanna, sem ljúka þessu námi, og jafnvel hvaða námsefni skuli lagt til grundvallar kennslunni. Um þetta þýðir ekki að sakast, það er sem sé verið að vinna að þessu í n., en ótvírætt hefði verið hyggilegra að búið hefði verið að vinna og komast að niðurstöðu um þetta, áður en sjálft kennslustarfið hófst.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, tek aðeins undir það, að ég tel, að ef hv. Alþ. ætlar að hafa áhrif á það, hvort kennslan sé kostuð af ríkinu eða ríki og sveitarfélögum, verður að koma fram brtt. við 66. gr., þar sem ákveðið er, hvernig kostnaðurinn skuli borinn uppi. Að öðrum kosti verður kostnaðurinn greiddur af ríki og sveitarfélögum í samræmi við ákvæði skólakostnaðarl.