14.04.1970
Efri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

14. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. um gagnfræðanám er flutt til staðfestingar brbl. frá 27. ágúst s.l. Frv. fjallar um svokallaðar framhaldsdeildir við gagnfræðaskóla, og það er byggt á álitsgerð og tillögum svokallaðrar námsbrautanefndar, en þann 4. júlí fyrra árs skipaði hæstv. menntmrh. n. til þess að gera till. um, „með hvaða hætti sé nú þegar í haust hægt að opna þeim, sem staðizt hafa landspróf og gagnfræðapróf, fleiri námsleiðir en þeir eiga nú kost á,“ eins og segir í erindisbréfi n. Í þessari n. áttu sæti Andri Ísaksson, forstöðumaður skólarannsókna, Bjarni Kristjánsson, skólastjóri Tækniskólans, Jóhann Hannesson skólameistari, tilnefndur af rektorum menntaskólanna, dr. Broddi Jóhannesson, skólastjóri Kennaraskólans, Ólafur Þ. Kristjánsson skólastjóri, tilnefndur af Félagi skólastjóra á gagnfræðastigi, Þór Sandholt, skólastjóri Iðnskólans, og Helgi Elíasson fræðslumálastjóri.

Það var þegar ljóst, að tími var mjög naumur fyrir n. til þess að inna þetta starf af höndum, þar sem að því var stefnt, að starfræksla slíkra framhaldsdeilda gæti hafizt þegar á s.l. hausti. N. stefndi að því og henni tókst að skila álitsgerð þann 15. ágúst. Í till. n., sem er að finna í plaggi allmiklu um fjölgun námsbrauta fyrir gagnfræðinga og landsprófsmenn, sem ég ætla, að hv. þdm. hafi átt kost á að kynna sér eða fengið sent, eru rakin störf n. og gerð grein fyrir till. hennar.

Þar er í fyrsta lagi, svo að minnzt sé á nokkur atriði úr álitsgerð n., gert ráð fyrir því, að inntökuskilyrði í framhaldsdeildir verði annars vegar samræmt gagnfræðapróf með meðaleinkunn 6 eða hærri í samræmdum greinum — sömuleiðis eldri gagnfræðapróf með jafnháum meðaleinkunnum í sömu námsgreinum — og hins vegar próf miðskóla með meðaleinkunn 6 eða hærri. Þó gerir n. þessi till. með þeirri aths., að skólastjórum skuli þó veitt heimild til að víkja frá fyrrgreindum reglum um einstaka nemendur, sem alveg sérstaklega stendur á um að þeirra dómi.

Um fjölda nemenda í deildunum telur n. hæfilegt, að hámarksfjöldi sé um það bil 25, en lágmarksfjöldi sem næst 15. Þá álítur n., að hæfilegur lágmarksfjöldi nemenda á kjörsviði sé sem næst 7, en um hvort tveggja þetta telur þó n., að þurfi að vera möguleiki til nokkurs sveigjanleika, þegar sérstaklega stendur á.

Námið sjálft skiptist í kjarna, þ.e.a.s. sameiginlega kennslu fyrir alla nemendur, síðan kjörsvið, sem séu uppeldiskjörsvið, hjúkrunarkjörsvið, tæknikjörsvið og viðskiptakjörsvið. Auk þessa sé námsefni eða kennsla, sem skólunum sé nokkuð í sjálfsvald sett, hver verði. Um kjörsviðin er rétt að minnast einnig á það, að n. gerði till. um, að kjörsviðunum yrði síðar meir fjölgað t.d. með því að bæta við iðnkjörsviði og almennu hagnýtu kjörsviði, sem að áliti n. kæmi þá til athugunar síðar, þegar nokkur reynsla væri fengin af starfrækslu framhaldsdeildanna.

N. lagði til, að þessum deildum yrði komið á fót þegar um haustið, þ.e.a.s. s.l. haust, þær yrðu a.m.k. fyrsta veturinn eingöngu starfræktar við gagnfræðaskólana og að kostnaður skiptist milli ríkis og hlutaðeigandi sveitarfélaga samkv. skólakostnaðarl. frá 1967. Svo yrði a.m.k. skólaárið 1969–1970. Það var þegar í upphafi ljóst, að mjög naumur tími var til þess að koma þessum deildum á, skipuleggja starfsemina, útvega kennara og sjá fyrir húsnæði og slíku. Var það vissulega til verulegs baga.

Námsbrautanefnd gerir ráð fyrir, að þessi starfræksla verði raunverulega á tilraunastigi fyrstu 2–3 árin, en hún lagði jafnframt áherzlu á, að skipaðar yrðu nefndir, sem falin yrðu tiltekin verkefni við nánari mótun ýmissa þátta starfrækslunnar.

Nú munu vera að störfum nefndir, annars vegar til athugunar á námsefni deildanna og hins vegar til athugunar á tengingu námsins við aðra skóla, m.ö.o. til þess að ákveða, hvaða réttindi nám í framhaldsdeildunum á að skapa nemendum þeirra.

Framhaldsdeildir eru nú starfandi á 4 stöðum. Þeir staðir eru þá fyrst Reykjavík, þar sem eru 120 nemendur. Þeir skiptast þannig, að um 40 nemendur eru í tæknideild, 40 í viðskiptadeild, 20 í uppeldisdeild og 20 í hjúkrunardeild. Á Akranesi starfar ein deild með 15 nemendur. Þar eru allir í tæknideild. Á Akureyri eru nemendur 17 og skiptast þannig, að 8 eru í tæknideild og 9 í viðskiptadeild. Í Neskaupstað eru 14 við nám í framhaldsdeild, og þar skiptast þeir þannig, að 5 eru í viðskiptadeild og 9 í uppeldisdeild.

Það hefur, eins og ég áður sagði, verið naumur tími til undirbúnings s.l. haust, bæði fyrir þau sveitarfélög, sem ákváðu að efna til slíkra deilda, og einnig fyrir sjálfa námsbrautanefndina til þess að undirbúa svo rækilega, sem æskilegt hefði verið, að hægt væri að fara af stað með þessar deildir, þannig að starfið frá upphafi væri fastmótað. Þetta hefur hvort tveggja trúlega dregið úr ýmsum sveitarfélögum, sem ella kynnu að hafa haft áhuga á því að stofna til slíks náms fyrir sitt unga fólk, en allt ætti þetta þó að liggja ljósar fyrir strax eftir þennan fyrsta vetur, sem deildirnar hafa verið starfræktar.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. nr. 535, hefur menntmn. þessarar hv. þd. athugað frv., og mælir n. einróma með samþykkt þess, en þó áskilja einstakir nm. sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. og að fylgja brtt., sem fluttar kunna að verða, og liggur þegar fyrir ein brtt. frá tveim hv. nm.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, a.m.k. að svo stöddu, að fara fleiri orðum um þetta frv., nema þá að sérstakt tilefni gefist til.