14.04.1970
Efri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

14. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð í tilefni af ræðu hv. síðasta ræðumanns. Það er alveg rétt, að Samband ísl. sveitarfélaga hefur mótmælt því, að sveitarfélögin ættu að taka nokkurn þátt í kostnaði við framhaldsdeildirnar og á þeim, grundvelli, að þarna væri um að ræða nám, sem hingað til a.m.k. hefði verið kostað af ríkinu eingöngu.

Nú er það svo, ef við víkjum að menntaskólunum, sem hv. 2. þm. Austf. gerði nokkra grein fyrir áðan, þá er af hálfu n. hugsuð möguleg hliðarbraut inn í menntaskóla úr framhaldsdeildunum. Það er þó ýmsum skilyrðum bundið, og ég held, að þegar ráðizt er í starfrækslu þessara deilda, þá eigum við ekki nema að takmörkuðu leyti að ganga út frá því, að það séu endilega nemendur, sem að fjöldanum til hyggja á menntaskólanám. Ég vil taka undir það, sem fram kemur í áliti n., þar sem lögð er áherzla á það almenna menntunargildi, sem nám í þessum deildum hafi, enda þar gert ráð fyrir, að námið í framhaldsdeildum auðveldi nemendum inngöngu í ýmsa aðra framhaldsskóla heldur en menntaskólana. Ég ætla að segja það sem mína skoðun, að þegar reynsla er komin á deildirnar og þegar það liggur ljóst fyrir, hvaða réttindi nám í þeim muni skapa nemendum — reynsla verður að sjálfsögðu ekki fengin fyrr en í fyrsta lagi eftir að búið er að starfrækja deildirnar í 2 ár — þá hljóti að þurfa að koma margt til athugunar og þar á meðal kostnaðarskiptingin við þessar deildir.

Með því að deildirnar eru reknar í tengslum við eða reknar við gagnfræðaskólana, sem fyrir eru, þá er það a.m.k. eins og stendur gert að sjálfsögðu í húsnæði, sem fyrir er, og er þá í flestum tilvikum sameign ríkis og sveitarfélags, og þegar ríkið borgar kennslukostnað allan, þá hvílir þetta ekki þungt á sveitarfélögunum, að ég held. Það er hins vegar svo, að ef til kemur mikil aukning, mikil nemendafjölgun og deildafjölgun á þessu skólastigi, þannig að til byggingaframkvæmda, jafnvel stórfelldra byggingaframkvæmda komi, þá væri ekki óeðlilegt að einmitt kostnaðarskipting kæmi til athugunar.

Ég held, eins og ég áðan sagði, að að því hljóti að reka, að nánar þurfi að athuga, hvernig fara skuli með kostnað af þessum deildum, þessu skólastigi, og það sé tæpast kannski tímabært að gera það fyrr en nokkur reynsla er á fengin.

Í trausti þess, að það verði athugað, þegar sá tími kemur, þá tel ég fyrir mitt leyti, að það sé a.m.k. að svo stöddu rétt að una við þessa ákvörðun brbl. um kostnaðarskiptinguna og að nánari athugun á málinu öllu komi svo síðar til.