13.04.1970
Neðri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

118. mál, endurhæfing

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Heilbr: og félmn. hefur haft þetta frv. til athugunar, og er n. sammála að mæla með, að frv. verði samþ. Frv. er í síðari d. Heilbr.- og félmn. Ed. leitaði umsagnar nokkurra aðila um frv., og allar þær umsagnir, sem bárust, mæltu með því, að frv. yrði samþykkt. Alþ. samþykkti þáltill. 8. marz 1967, þar sem skorað var á ríkisstj. að undirbúa löggjöf um öryrkjaheimili og endurhæfingarstöðvar. Síðar á því ári fól félmrh. Öryrkjabandalagi Íslands að semja drög að frv. til l. um öryrkjaheimili og endurhæfingarstöðvar, og við samningu þess frv. var höfð hliðsjón af tillögum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um atvinnuþjálfun fatlaðra manna.

Eins og fram kemur í aths. fyrir frv. þessu, eru engin lög hér á landi um endurhæfingu fólks, sem er með skerta starfshæfni, en þó má minna á það, að mikið og merkilegt starf hefur verið unnið af hinum ýmsu félagasamtökum, og ríkisvaldið hefur stutt að því beint og óbeint á undanförnum árum. En það er hér sem annars staðar mikil þörf fyrir löggjöf í þessu efni, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, því að það er talið, að rúmlega 5% fullorðins fólks sé með skerta starfsorku og þarf því sannarlega á endurhæfingu að halda. Það eru miklir fjármunir, sem hægt er að stuðla að, fyrir utan það, að fólk, sem er með skerta starfsorku, þarf auðvitað aðstoðar við, til þess að það geti haldið áfram að vera raunverulegir þátttakendur í að skapa verðmæti í sínu landi. Þetta frv. gerir því ráð fyrir að lögfesta endurhæfingu, og ég þarf ekki að fara um það fleiri orðum. Ég hygg, að allir séu sammála um nauðsyn þess að setja slíka löggjöf.