09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

1. mál, fjárlög 1970

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Það er hér einn liður í brtt. hv. fjvn., sem mig langaði til að víkja aðeins að. Hann er lítill og lætur ekki mikið yfir sér, á bls. 6,

merktur o, nýr liður 55 til íslenzks dýrasafns 50 þús. kr. Mér er kunnugt um tilefni þessa. Það er Vopnfirðingur, Kristján Jósefsson frá Síreksstöðum, einhleypur maður, sem hefur fengið áhuga fyrir því að koma upp safni yfir öll íslenzk dýr. Hann er kominn þarna nokkuð áleiðis með þetta starf og einmitt um þessar mundir mun vera opin, a.m.k. á sunnudögum, sýning á þessu safni hér úti í Miðbæjarbarnaskólanum. En þetta er all kostnaðarsamt fyrir hann. Hann er einhleypur maður og hefur varið sínum tekjum núna um tveggja til þriggja ára skeið algerlega í þetta áhugamál sitt og í raun og veru gengið þar mikið lengra heldur en það. Ég vil aðeins nefna það svona til upplýsingar um þann kostnað, sem af þessu leiðir, að á sýningunni er uppstoppuð hryssa með folaldi og mér er sagt, að hún hafi kostað um 90 þús. kr., þessi eini gripur. Þetta er gips og þess vegna mjög varanlegt. Á því má sjá, að þarna eru talsverðir fjármunir lagðir fram. Nú kann að vera, að menn greini eitthvað á um þetta eða telji misjafnlega mikla skynsemi í þessu, en ég hef nú séð þetta safn og það hefur haft þau áhrif á mig, að mér er allmikið áhugamál, að það væri komið svolítið betur til móts við hann, en með þessum 50 þús. kr. Ég flyt ekki neina till., en mig langar aðeins til þess að beina því til hv. fjvn. við þessa umr., að hún tæki þessa till. aftur og athugaði svolítið nánar á milli umr., hvort það væri ekki hægt að hækka þetta eitthvað ofurlítið.

Ég vil bæta þessu við með þennan Kristján Jósefsson. Hann er algerlega ómenntaður nema barnaskólamenntaður og er þess vegna algert náttúrubarn og ég álít, að þessi starfsemi sé eiginlega mjög virðingarverð og ástæða til þess að hlynna að þessari viðleitni Kristjáns. Nú býst ég við, að hann fái nokkurn stuðning út úr þessum sýningum, en eins og ég nefndi með kostnaðinn af því að koma upp t.d. aðeins hryssu með folaldi, þá má mönnum vera það ljóst, að hann leggur í þetta allmikla fjármuni. Ég held, að það sé ætlun hans að ánafna þetta safn, þegar hann er búinn að koma því á stofn, annaðhvort ríkinu eða þá Reykjavíkurborg, sem sagt að koma því í þá vörzlu, að það geti orðið til gagns um langa framtíð, m.a. til upplýsingar og kannske nothæft við kennslu. Ég held, að þetta sé þess virði, að það væri athugað, hvort það væri ekki hægt að koma svolítið betur þarna til stuðnings.