09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

1. mál, fjárlög 1970

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi gera hér grein fyrir nokkrum brtt., sem ég stend að, að flytja hér við fjárl. Það er í fyrsta lagi nokkrar brtt., sem við flytjum hér þm. úr Austurlandskjördæmi. Ásamt mér eru flm. að þeim till. Páll Þorsteinsson, Vilhjálmur Hjálmarsson og Eysteinn Jónsson.

Þessar till. okkar eru

Í fyrsta lagi um, að tekinn verði upp nýr liður til skólabygginga, fjárveiting til gagnfræðaskóla byggingar í Neskaupstað, en þar er um að ræða 2. áfanga og varið verði í því skyni 2.5 millj. kr. Þessu máli er þannig varið, að alllangt er síðan gert var ráð fyrir því að leggja í 2. áfanga byggingar við gagnfræðaskólann í Neskaupstað. Tvívegis áður hefur verið veitt í þessu skyni nokkurt fé á fjárl., eða 1/2 millj. kr. í hvort skipti, en í bæði skiptin var fjárveitingin bundin við það að vera til undirbúnings, en ekki var um að ræða heimild til þess að hefja framkvæmdir. Nú var þess enn óskað, að hægt væri nú að fá leyfi til þess að hefja framkvæmdir við þennan áfanga, en í till. fjvn. er ekki gert ráð fyrir því að veita þá heimild enn. Enn er gert ráð fyrir því að veita til gagnfræðaskóla byggingarinnar í Neskaupstað undirbúnings fjárveitingu í þriðja sinn, en það tel ég og við, sem að þessari till. stöndum, aldeilis ófullnægjandi, þar sem skólinn er þannig fullsetinn og tvísett í skólann og fyrirsjáanlegt á næsta vetri, að þá verður skólinn vegna fjölmennis að leita í annað húsnæði. Og þá er hart að geta ekki fengið leyfi til þess að byrja á 2. áfanga þessarar byggingar. Við vonum það, að við nánari athugun gæti fengizt samkomulag um að taka upp þessa fjárveitingu.

Í öðru lagi flytjum við, þessir sömu menn, till. um það, að á þeim lið í till. fjvn., sem gerir ráð fyrir áframhaldandi fjárveitingu til gagnfræðaskólans í Neskaupstað sem undirbúnings fjárveitingu, en það eru 400 þús., þar verði aðeins um orðalagsbreytingu að ræða, fjárveitingin haldi áfram, en við liðinn komi aths. um að þarna sé um byrjunar fjárveitingu að ræða til heimavistarbyggingar við skólann, en heimavist hefur þegar verið sett á stofn við skólann, að vísu í leiguhúsnæði, en með þessu yrði veitt samþykki til þess, að þarna yrði byggð heimavist við skólann, þegar nægileg fjárveiting lægi fyrir.

Í þriðja lagi flytjum við sömu þm. till. um það, að tekin verði upp fjárveiting til sundlaugarbyggingar við barnaskólann á Reyðarfirði, 1 millj. kr. og þá gert ráð fyrir því, að um framkvæmdaheimild verði að ræða.

Og í fjórða lagi flytjum við till. um það, að tekinn verði upp nýr liður til barnaskóla byggingar á Búðum í Fáskrúðsfirði og þar verði einnig um framkvæmdaheimild að ræða, 2 millj. kr. En ástandið í skólamálum á Búðum í Fáskrúðsfirði er þannig, að það er orðin brýn þörf á því að hefjast handa um byggingu skólahúsnæðis og heimamenn þar hafa lagt mikla áherzlu á það að fá leyfi til þess að hefja þessa byggingu.

Þá flytjum við sömu þm. till. um það, að veitt verði til Sambands austfirzkra kvenna 50 þús. kr. og er það til samræmis við hliðstæða fjárveitingu, sem ætluð er í till. fjvn. til Sambands norðlenzkra kvenna. En Samband austfirzkra kvenna hefur starfað af miklum dugnaði og okkur þykir full ástæða til þess, að ef teknar eru upp fjárveitingar á annað borð til fjórðungssambanda kvenna, þá fái Samband austfirzkra kvenna hliðstæða viðurkenningu eins og Samband norðlenzkra kvenna.

Og í sjötta lagi flytjum við svo till. um það, að veitt verði fé til hafnarmannvirkja í Borgarfirði eystra, 4 millj. 650 þús. kr., en það er til samræmis við hafnaráætlun þá, sem fyrir liggur og fjárveitingar eru almennt miðaðar við, en mikil þörf er á í Borgarfirði að ráðast í þessa framkvæmd og heimamenn hafa tengt miklar vonir við það, að staðið yrði við þessa hafnalagaáætlun. Okkur þykir því ástæða til að koma fram með till. um það, að veitt verði fé til þessara framkvæmda í samræmi við það, sem gert hafði verið ráð fyrir í hafnaáætluninni.

Þá flyt ég hér nokkrar aðrar till. með ýmsum öðrum þm., m.a. flyt ég hér þrjár till. með Steingrími Pálssyni og Jónasi Árnasyni.

Fyrsta till. er um það að hækka rekstrarstyrki til sjómannaheimila úr 50 þús. kr. í 500 þús. kr. Ég hef flutt hliðstæða till. hér á undanförnum þingum. Ég tel, að þessi fjárveiting sé allt of lág til þess að mæta fyrirliggjandi óskum og það sé full sanngirni í því að hækka þessa fjárveitingu.

Í öðru lagi leggjum við til, að hækkuð verði fjárveiting til humar– og rækjuleitar úr 1 millj. 822 þús. í 2 millj. 822 þús. kr. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa till. Ég veit, að mörgum þm. er það vel ljóst, að mikið hefur verið leitað eftir því víða, að rækilegri leit færi fram á möguleikum til bæði humar– og rækjuveiða við landið en gert hefur verið og okkur sýnist full þörf á því að hækka þessa fjárveitingu um 1 millj. kr.

Í þriðja lagi leggjum við til, að liðurinn fiskileit og veiðarfæratilraunir verði hækkaður úr 775 þús. kr. í 3 millj. 775 þús., eða um 3 millj. kr. Þessi liður er beinlínis lækkaður á fjárl. og það mun vera gert með þeirri skýringu, að þegar rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson kemur í notkun sé eðlilegt, að þessi liður lækki nokkuð, til fiskileitar og veiðarfæratilrauna, því þessi starfsemi mun að nokkru leyti færast yfir á rekstur skipsins. Ég álít og við flm., að ekki eigi að lækka þennan lið, það sé þvert á móti þörf á því að hækka hann og störf rannsóknaskipsins Bjarna Sæmundssonar eigi að miðast við annað, en beina fiskileit og að ég tali nú ekki um veiðarfæratilraunir. Það eigi að vinnast með öðrum hætti og það eigi ekki að draga úr þessum rekstri, heldur eigi að auka hér verulega við frá því, sem verið hefur.

Þá flyt ég hér eina till. enn með sömu þm. um það, að tekinn verði upp nýr liður til stuðnings við fullvinnslu á sjávarafla og liðurinn orðist þannig: „Til stuðnings við niðursuðu– og niðurlagningariðnað og aðra fullvinnslu sjávarafurða til útflutnings 50 millj. kr.“ Þessi till. er í fullu samræmi við till., sem við höfum flutt hér áður, Alþb.–menn, um það, að við teljum brýna þörf á því, að frá ríkisvaldsins hálfu komi verulegur stuðningur fram, til þess að unnt sé að byggja hér upp nútíma fiskiðnað, þar sem um er að ræða fullvinnslu á ýmsum afurðum sjávarútvegsins og við álítum, að það ætti að taka upp á fjárl. fjárveitingu sem þessa, sem síðan yrði ráðstafað á sem heppilegastan hátt, en það teldi ég, að gæti sérstaklega komið fram í því að ráða til lengri eða skemmri tíma sérfræðinga, sem gætu leiðbeint við uppbyggingu í þessari iðngrein og að einhverju leyti til markaðsöflunar.

Þá flyt ég hér till. ásamt Sigurði Grétari Guðmundssyni og Jónasi Árnasyni um nokkra hækkun á fjárveitingu til Íþróttasjóðs, eða úr 5 millj. kr. í 10 millj. kr. Hér er um að ræða sams konar till. og ég hef staðið að, að flytja nokkur undanfarin ár. Ég veit, að allir hv. þm. gera sér fulla grein fyrir því, að Íþróttasjóður er í miklum fjárskorti eða býr við fjárskort og hann þarf á miklu meiri fjárveitingu að halda heldur en honum er ætluð á fjárlagafrv., ef hann á að geta sinnt sínu verkefni.

Þá flyt ég hér tvær till. með þeim Steingrími Pálssyni og Jónasi Árnasyni, um hækkun á fjárveitingum til Félagsheimilasjóðs úr 9 millj. kr. í 15 millj. kr. og hækkun á framlagi til sumardvalarheimila og dagheimila úr 900 þús. kr. í 2 millj. kr. Það þarf heldur ekki að fara mörgum orðum um þessar till. Ég veit, að öllum þm. er ljóst, að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, og fyllilega þess virði, að lagt sé fram meira fé, en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. í þessu skyni.

Þá flytjum við Sigurður Grétar Guðmundsson hér tvær till. varðandi byggingarmál. Önnur er um það, að fjárveiting til Byggingarsjóðs verkamanna verði hækkuð úr 15.1 millj. kr. í 30.1 millj. kr., en hin er um það, að fjárveiting til útrýmingar heilsuspillandi íbúða hækki úr 18 millj. kr. í 30 millj. kr. Á því er enginn vafi, að það er brýn þörf á því, að ríkið leggi Byggingarsjóði verkamanna til meira starfsfé, en verið hefur um skeið, því að það má segja nánast, að þetta byggingarkerfi hafi verið óvirkt að mestu að undanförnu sökum fjárskorts og það er í rauninni alveg óviðunandi. Og það er það sama að segja um liðinn til útrýmingar heilsuspillandi íbúða. Þar hefur verið um ónóga fjárveitingu að ræða, til þess að hægt væri að sinna fyrirliggjandi beiðnum, en það er vitanlega sjálfsagt að reyna að vinna að því af fullum krafti að losna við þessar heilsuspillandi íbúðir.

Ég hygg þá, að ég hafi gert hér grein fyrir öllum þeim till., sem ég er flm. að eða stend með öðrum að flutningi að og vænti þess, að þessar till. nái fram að ganga.