09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1970

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Í sambandi við ummæli hæstv. fjmrh. í tilefni af því, sem ég sagði hér áðan um kaupmátt tryggingabóta annars vegar árið 1959 og hins vegar árið 1969, þá vildi ég aðeins taka það fram, að hann miðar samanburð sinn við vísitölu framfærslukostnaðar, en ég við raungildi bóta til kaupa á ákveðnum tilteknum vörutegundum og þá ber okkur að sjálfsögðu ekki saman. Þá er spurningin sú, hvort er raunhæfari viðmiðunargrundvöllur gagnvart því fólki, sem hér er um að ræða. Það má t.d. vel vera, að fjölskyldubætur og ellilífeyrir hafi haldið mjög vel kaupmætti sínum gagnvart grammófónsplötum, myndavélum, dönskum tertubotnum eða öðrum eftirlætisvörum fólks, sem hefur úr meiri launum að spila, en þarf til brýnustu neyzlu einnar saman og ég efast reyndar ekkert um, að bæturnar hafa haldið verðgildi sínu gagnvart þessum vörum og ýmsum fleiri. En ég sýndi hins vegar fram á, að kaupmáttur tryggingabóta gagnvart nokkrum algengustu neyzluvörum, fiski, mjólk, smjörlíki, kartöflum, hveiti og kaffi, hefur hrapað alveg stórkostlega síðan 1959. Og fleiri slíkar vörur hefði mátt nefna.

Sú staðreynd sýnir, hvað hefur verið að gerast gagnvart bótaþegum. Ég tel það fjarri öllu lagi, að það geti talizt eðlilegt að miða mat á breytingum raungildis tryggingabóta við almenna framfærsluvísitölu, sem mun vera byggð á skiptingu útgjalda hjá fjölskyldu, sem hafði um 240 þús. kr. tekjur á árunum 1964 eða 1965, – ég man ekki nákvæmlega hvort árið þetta var. Þeir, sem hafa vilja til að viðhalda a.m.k. raunverulegum kaupmætti tryggingabóta og vilja ekki nota samanburð byggðan á almennri framfærsluvísitölu sem skálkaskjól til að minnka smátt og smátt bæturnar, hljóta fyrst og fremst að láta sig skipta kaupmátt bótanna gagnvart brýnustu neyzluvörum. Það eitt er raunhæft að meta kaupmátt bóta við kaup á þeim vörum, sem það fólk, sem hefur tryggingabætur einar að lifa á, kaupir. Því miður er þróunin óumdeilanlega sú, að raunverulegur kaupmáttur bótanna út frá þessu sjónarmiði hefur lækkað eins hrapallega eins og ég greindi áðan. Samanburður byggður á útgjöldum fjölskyldu með 20 þús. kr. mánaðartekjur á árinu 1964 eða 1965 er í rauninni út í hött. Það vona ég, að hæstv. ráðh. sjái. Menn mega ekki hengja sig í einhverja mælistiku, sem sé jafngild til að mæla alla hluti. Það getur orðið til þess, að svo fari, sem farið hefur í stjórnartíð viðreisnarstjórnarinnar, að þeir, sem verst eru settir í þjóðfélaginu, verði sífellt verr settir. Það er vissulega ástæða til að láta reikna út sérstaka vísitölu tryggingabóta, sem væri byggð á útgjaldaskiptingu bótaþega, en ekki fólks, sem hefur að meðaltali 20 þús. kr. tekjur á mánuði. Ég vonast til þess, að þegar að því kemur, að tryggingabætur verða endurskoðaðar, hendi það ekki hæstv. fjmrh. eða aðra í mati á þörf bótaþega til hækkunar á bótum að miða við svo óraunhæfan matsgrundvöll á þróun kaupmáttar tryggingabóta, sem vísitala framfærslukostnaðar hlýtur að vera í þessu sambandi.