16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

57. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. og hef reyndar engu við það að bæta, sem hv. frsm. meiri hl. sjútvn. hafði hér að segja um þetta frv., öðru en því, sem liggur vitanlega í augum uppi og þarf ekki að vera að karpa hér um, að þær 90 millj., sem hv. frsm. minni hl. áætlaði hér, að mundu hafa bætzt við í ríkisframlögum til þessa sjóðs, ef þetta fé hefði verið í fjárl., er að sjálfsögðu engin leið til að greiða af þeirri einföldu ástæðu, að ekki er gert ráð fyrir þeim í fjárl. og Alþ. hefur þegar fyrir sitt leyti tekið ákvörðun um, að þetta framlag skuli niður fellt.

Ég tek einnig undir það með hv. frsm. meiri hl. n., að það er ákaflega bagalegt og á ekki að fylgja þeirri reglu yfirleitt með ákvörðun fjárveitinga, að þær séu einhver hlutfallsleg upphæð af fjárhæðum, sem geta sveiflazt stórlega frá ári til árs. Hvort hér er um að ræða Fiskveiðasjóð eða aðra sjóði, þá gildir það sama. Þetta gerir að vísu minna til í þeim tilfellum, þar sem um er að ræða fjárveitingar, sem miðast við einhvern stofn, sem breytist lítið frá ári til árs og leikur ekki nema á litlum upphæðum, hvaða sveiflum hann tekur. En eins og réttilega var hér bent á og frsm. beggja nefndarhluta hafa hér í rauninni sagt og við vitum að er rétt, þá getur hér orðið um stórfelldar sveiflur að ræða, þannig að þennan útgjaldalið ríkissjóðs, sem ákvarðaður er með þessum hætti, er ómögulegt að áætla. Ég tel það því rétta stefnu, sem meiri hl. n. hefur markað hér, að ákveða fasta fjárhæð, sem getur að vísu í vissum tilfellum verið lægri en verið hefur og í öðrum tilfellum hærri, þannig að þá er hægt að vita fyrir ríkissjóð frá ári til árs, að hverju er að ganga í þessu efni.

Ég er sammála meiri hl. n. og reyndar n. allri um það, að annars sé ekki lengur kostur, miðað við stórauknar kvaðir á Fiskveiðasjóði, en að gera ráðstafanir til að auka eigið fé sjóðsins, og þá eðlilegt, að sú bráðabirgðaráðstöfun, sem gerð var, meðan þrengst var hjá ríkissjóði á síðustu erfiðleikaárum, að fella niður framlög til sjóðsins, gildi ekki lengur og tekin verði upp sú fasta fjárveiting, sem lagt er til í brtt. n., að verði gert framvegis.

Það, sem var eiginlega ástæðan til þess fyrst og fremst, að ég stóð hér upp, er ekki að ræða um þessi atriði, sem endalaust má karpa um, en ég skal ekki fara að gera að umtalsefni, staðreyndirnar liggja fyrir í því efni, heldur hitt, að ræða lítið eitt um þann vanda, sem Fiskveiðasjóður á nú við að glíma og hv. frsm. minni hl. n. réttilega gat um að mundi nema um 140 millj. kr., þ.e.a.s. sem skorti á ráðstöfunarfé sjóðsins til hinna venjulegu lánveitinga hér innanlands, og þá miðað við það, að allar skipasmíðastöðvar séu í fullum gangi. Þessi áætlun er við það miðuð. Ég vil láta það koma hér fram, að það hefur verið ákveðið og þegar verið gerðar ráðstafanir í þá átt að afla þessa fjár, þannig að Fiskveiðasjóður geti haldið uppi eðlilegum lánveitingum á þessu ári, enda þótt þetta vanti inn í tekjuáætlun sjóðsins. Reyndar mun ég hafa einnig tekið það fram í sambandi við framkvæmdaáætlunina, þegar ég vék að þessu vandamáli, að þetta mál væri í sérstakri athugun og mundi verða leyst.

Til viðbótar vil ég geta þess, að ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að afla 30 millj. kr. í viðbót til Fiskveiðasjóðs af innlendu fé til þess að létta þann vanda, sem skapazt hefur vegna vandkvæða stóru fiskibátanna eða síldarbátanna, sem keyptir hafa verið undanfarin ár. Hv. frsm. minni hl. gat um réttilega, að erfiðleikar þessara báta í rekstri að undanförnu hefðu valdið því, að þeir hefðu ekki getað staðið í skilum og mikil vanskil safnazt hjá viðskiptabönkunum, sem ég hygg nú vera í kringum 90 millj. kr. samtals hjá tveimur viðskiptabönkum útgerðarinnar. Ætlunin með þessum 30 millj. er fyrst og fremst að létta þennan vanda, og svo komi til á næsta ári sú fjárveiting, sem hér er talað um, 35 millj. kr. frá ríkissjóði. Þá skapast þar nýtt fjármagn, sem væri hægt að nota til þess að létta enn frekar á þessu vandamáli, sem verður nokkurra ára vandi, sem þarf að leysa þarna til að hjálpa eigendum þessara báta úr þessum vandkvæðum, sem eðlilegt er að hafi skapazt, þegar tekjumöguleikarnir hrynja.

Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram við þessa umr., til þess að hv. þdm. væri það ljóst, — hvað sem segja má um það, sem gert hefur verið og þegar hefur verið ákveðið og þýðir ekki um að tala og var gert af illri nauðsyn, að fella niður þessa fjárveitingu um þriggja ára bil, — að þá eru nú annars vegar gerðar ráðstafanir til þess, að þessi fjárveiting verði tekin upp aftur, og með batnandi hag ríkissjóðs skulum við vona, að verði auðveldara um vik að fást við það. Í annan stað hafa verið gerðar ráðstafanir, hvað sem líður niðurfellingu þessa framlags til þess að leysa með öðrum hætti þann vanda í ár, sem Fiskveiðasjóður stendur ella andspænis, þannig að hann mun geta sinnt þeim útlánum, sem nauðsynlegt verður að sinna.