16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

57. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mér þótti rétt að fjalla örlítið um þetta mál, en eins og frsm. tók fram, þá urðu nokkrar umr. eðlilega í sjútvn. um þetta, og það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, þar sem samtök útvegsmanna og reyndar fleiri aðilar hafa gert ályktanir í því efni, að Fiskveiðasjóði væru tryggðar sem mestar tekjur og lánsmöguleikar í þeim tvíþætta tilgangi, að útvegsmenn fái hér eðlileg lán og einnig að eðlileg starfsemi geti haldizt í skipasmíðastöðvum landsins.

Nú var það svo, að við afgreiðslu fjárl. var tekin upp sú stefna að fella niður framlagið núna 3 s.l. ár vegna minni möguleika ríkissjóðs. Um það má auðvitað alltaf deila, hversu skynsamleg sú ákvörðun var, en hún var nú einu sinni tekin og þess vegna er það nánast staðfesting á því, sem við leggjum til í meiri hl. n., að viðurkenna þá ákvörðun. Undir hitt vil ég taka, að fram hjá þeirri staðreynd verður ekki gengið, að Fiskveiðasjóði, sem er mjög öflugur sjóður og veitir mikil lán samkv. þeirri skýrslu, er lögð var fram af hæstv. sjútvmrh. við fsp. hér í Sþ., verður að tryggja nægilegt fjármagn, og einnig er nauðsynlegt að auka eigið fé sjóðsins. Þess vegna vildum við koma því í gegn, ef hægt væri, og á það hefur hæstv. fjmrh. fallizt, að fastar tekjur sjóðsins yrðu 35 millj. Það hefði verið æskilegt að geta haft þær sem mestar, en ég held, að við verðum að sætta okkur við það eftir atvikum, að þetta sé svo, og við getum átt von á því, að þessi tala haldist og verði ekki lækkuð síðar meir.

Hitt er svo mjög mikilvægt atriði vegna skyndilegrar lánaþarfar innanlands, þar sem íslenzk skipasmíði hefur að mestu leyti flutzt inn í landið, að sjóðnum séu tryggðir auknir möguleikar til lánveitinga, og í því efni þarf að taka stórlán, sem annaðhvort gæti orðið innanlands eða erlendis, til þess að veita mjög aukinni eftirspurn fullnægingu. Þessi lánaþörf mun nema mikið á annað hundrað millj.

Ef hlustað er á þá erfiðleika, sem útvegsmenn eiga í vegna gengisfellingarinnar 11. nóv. 1968, þá er lánaþörf bátanna, ef miðað er við, að lánað sé 80%, þegar dreginn er frá gengisstyrkur, um 224 millj. Nú munu ekki nást inn lánsloforð fyrir árið 1969, sem er liðið, en hæstv. fjmrh. drap á það, að útvegsmenn hafa fengið loforð um 30 millj. En ég vil undirstrika það eftir þeim fréttum, sem ég fékk í dag, að enn hafa engar reglur verið settar um þessar 30 millj., og vil ég koma því til hæstv. sjútvmrh. og fjmrh., ef þeir sameiginlega þurfa á það að ýta, að þegar í stað verði gengið frá lánareglum um þessar 30 millj., því að mér er kunnugt um, að viðskiptabankarnir innheimta nú af fullum krafti enn þá, án tillits til þessa möguleika, peninga upp í vanskil útvegsmanna, sem munu vera nálægt 90 millj. eða voru það fyrir nokkrum dögum.

Hins vegar eru veðsetningar miklar á afurðum þessa dagana, og bankarnir seilast eðlilega í þá peninga, því að ábyrgðardeildir bankanna — það verða allir að viðurkenna — geta ekki starfað sem lánadeildir. Þær eru ekki í þannig formi, og er ósanngjarnt að ætlast til þess. En þessi mál þurfa að komast á hreint og í snarheitum. Annars vegar er rekstur stærri báta í miklum erfiðleikum, og útvegsmenn eru í leiðinlegum vanskilum út af þessum gengisskelli. 30 millj. eru aðeins fyrir árið í ár, og því verður að halda áfram að vinna að fjármögnun á því, sem eftir er, sem mun vera 80–90 millj. á hin 4 árin, og þá fæst sæmileg niðurstaða. Að öðrum kosti verða þessir bátaeigendur, sem áttu 125 báta alls, í mjög miklum vanskilum næstu árin vegna gengisfellingarskellsins, sem er nettó um 228 millj.

Aðstaða einstakra útvegsmanna er auðvitað mjög misjöfn, vegna þess að sumir höfðu léttari fjármögnun á sínu skipi en aðrir, eins og gengur. En mér er kunnugt um, að allmargir, sem fengu skip sín núna glæný fyrir gengisfellingu, eiga í miklum vandræðum. Þessi skip eru víða um land, og eru hér sérstaklega 5 skip, sem eiga í miklum erfiðleikum. Það þyrfti að líta á þær aðstæður með velvilja. Hitt má Fiskveiðasjóður og bankakerfið vel við una, að það er komið í lög að greiða fasta greiðslu af brúttóverðmæti inn í Fiskveiðasjóð, þannig lagað, að Fiskveiðasjóður fær núna öruggar tekjur í vexti og afborganir. Auðvitað gengur þessi greiðsla mishratt eftir aflabrögðum, en hér er á mikil bót, þannig að Fiskveiðasjóður og bankakerfið ættu ekki að vera eins hrædd við það, að menn fengju góð lán, þar sem skil á þessum lánum eru nú tryggð. Það er mikil breyting frá því, sem áður var. En lánin verða að vera með þokkalegum kjörum og innt af hendi án mikilla tafa, því að þessi skip eru mörg dýr. Sama mun sennilega verða tekið upp við fyrirhuguð togarakaup, og er þetta til bóta, bæði fyrir útvegsmenn og lánasjóði.

Ég vil taka undir þau sjónarmið, að nauðsynlegt er, að stjórn Fiskveiðasjóðs verði skipuð á annan veg en verið hefur. Ég fullyrði, að mismunurinn í lánakerfinu, sem átti sér stað 1970, mundi ekki hafa átt sér stað, ef fulltrúar sjómanna eða útvegsmanna hefðu setið í stjórninni, en ég tel það mjög miður farið, að á vissu tímabili skuli stjórn sjóðsins hafa lánað án gengisáhættu til manna 134 lán að upphæð um 405 millj. kr., þegar öðrum, sem tóku lán rétt á undan og rétt á eftir, vár gert að skyldu að taka fulla gengisáhættu í þessu efni. Slíkt tel ég mjög óeðlilegt. Mér finnst það mjög sanngjarnt, að fulltrúar útvegsmanna, sem fjármagna þennan sjóð að langmestu leyti, eigi möguleika á fulltrúum í stjórn hans. Það má deila um, með hvaða hætti slíkt yrði. Það skal ég taka undir, og enn hef ég ekki gert það upp við mig, með hvaða hætti það skal vera, en á þessu stigi mun ég því ekki geta fylgt brtt., sem minni hl. er með, að Alþ. kjósi þessa stjórn. Ég tel, að það væri réttara, að samtök útvegsmanna tilnefndu þessa menn, og mun því heldur hallast að þeirri lausn. Við þurfum, sem erum með þá lausn, að vinna henni fylgi hér á hv. Alþ., og eru vissar undirtektir í þá áttina, að slíkt geti tekizt innan skamms, þó ekki á yfirstandandi þingi.

Að svo mæltu vil ég ekki tefja umr. lengi, en ég vænti þess, að hæstv. ráðh. muni skilja nauðsyn þess, að fjármögnun sjóðsins sé trygg, því að hún hefur mikið að segja bæði fyrir útvegsmenn og atvinnulífið við skipasmiðar í landinu.