09.12.1969
Sameinað þing: 21. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1970

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég verð nú að láta í ljósi nokkurn harm vegna þess, að allur búningur fjárl. nú, fjárlagafrv., er með þeim hætti, að það er miklu minni þátttaka af þm. hálfu í afgreiðslu þeirra heldur en áður var og auðvitað er þetta ekki búningurinn einn, heldur líka það, að búið er að færa mörg af þeim störfum, sem þm. eru kosnir til að inna af höndum sem fulltrúar fólksins víðs vegar á landinu, þetta er komið inn í embættismannakerfið hjá stjórnvöldunum og þaðan verður því ekki haggað og þm. eru komnir með nokkuð bitra reynslu af því, að þetta er allt saman svo fast í skorðum, að það er næsta lítil uppskera af því að reyna að koma hér fram till., sem falla utan við þetta kerfi. Þó kemur það öðru hverju fyrir, að svo augljós glöp hafa orðið á vinnubrögðum, að ekki verður hjá því komizt að freista þess að leiðrétta þau með brtt. Af því tilefni leyfi ég mér við afgreiðslu þessara fjárl. við þessa umr. að bera fram eina og aðeins eina till. Hún er þannig, að inn komi nýr liður í upptalningu þeirra nýrra skólabygginga, sem leyfðar verða á fjárlagaárinu 1970, en það er barnaskóli í Vestmannaeyjum, viðbygging við barnaskóla í Vestmannaeyjum. Bæjarstjórn Vestmannaeyja og fræðsluráð staðarins svo og fjölmargir áhugamenn um skólamál hafa unnið að því alllengi að koma því í kring, að þessi skóli fengi fjárveitingu og þar með leyfi til þess að á honum yrði byrjað. Það þarf ekki mörgum orðum um það að fara, að íbúatala Vestmannaeyja fer síhækkandi og barnafjöldinn eykst einnig. Sá húsakostur, sem barnaskólinn býr við og raunar gagnfræðaskólinn líka, er þegar orðinn allt of þröngur og gerðar hafa verið teikningar af viðbyggingu við barnaskólann og reyndar fyrr, heldur en næsta árs fjárlög gefa tilefni til, þó að ekki hafi úr orðið. Þetta er ekki stór bygging. Hún er upp á fjórar fullgildar kennslustofur og tvær minni og áætlun á kostnaði við þetta er nú ekki nema rösklega 6 millj. kr., þannig að ríkið mundi verða útgjaldaskylt fyrir rúmum 3 millj., en sveitarfélagið stendur sjálft undir hinum helmingnum. Forráðamenn úr Vestmannaeyjum eru búnir að koma hingað og ræða við þm. og valdamenn í skólakerfi landsins og hafa alls staðar fengið góðar undirtektir, svo að ég hlýt að ætla það, að þessi fjárveiting, sem til þess arna þarf, sem mundi vera svona um 1.1 millj. kr., hafi frekar af vangá orðið eftir við þær fjárlagatill., sem hér hafa verið gerðar, heldur en hitt, að það sé raunverulega ætlunin að neita Vestmannaeyingum um þessa brýnu þörf. Ég verð að segja það fræðsluyfirvöldum og fjvn. til hróss, að þau hafa í mörgum atriðum tekið vel undir þær till., þegar augljóst var, að einhver verulegur áhugi var fyrir því að hefja framkvæmdir, enda þótt þær væru meira og minna erfiðar sökum þess, hve þær eru fjárfrekar. Þess vegna vil ég ekki að óreyndu ætla, að hér sé um stefnumið að ræða, þegar Vestmannaeyingum er neitað um viðbyggingu við barnaskóla sinn, heldur hafi hér orðið á mistök máske vegna þess, að samtímis hafa Vestmannaeyingar sótt um að fá að byggja sundlaug, sem þeir einnig þurfa, en reyndar er barnaskóla þörfin miklum mun brýnni. Sundlaugin er inni á fjárlagatill. frá fjvn., en skólinn því miður ekki og þess vegna hef ég leyft mér að flytja hér till. um skólann í þeirri von, að hér fáist nauðsynleg leiðrétting.