24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

57. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Sjútvn. hv. d. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég mæli eingöngu f.h. meiri hl. n., þegar ég mæli með því, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 608, komið frá hv. Ed.

Frv. er ákaflega einfalt. Skv. ákvæðum þess til bráðabirgða er gert ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs, skv. c-lið 4. gr. 1. um Fiskveiðasjóð, falli niður fyrir árin 1969 og 1970. Er það reyndar staðfesting á þegar orðnum hlut, en í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs á móti öðrum tekjum sjóðsins skuli síðan vera árlega 35 millj. kr. og greiðist sú upphæð í fyrsta skipti á árinu 1971.

Það hefur sjálfsagt enginn gert það með gleði að skerða framlag ríkisins til Fiskveiðasjóðs. Sú skerðing er til komin vegna almennra fjárhagserfiðleika, sem sköpuðust á árunum 1966 – 1968, og þurfti að grípa til hennar í sambandi við fjárlagaafgreiðslu þeirra ára, til þess að unnt væri að koma saman tekjuhallalausum fjárlögum. Meiri hl. þm., sem styður hæstv. ríkisstj., hefur að sjálfsögðu staðið að þessari niðurfellingu. Við gerum okkur hins vegar vonir um, að í þessum efnum hafi rofað svo vel til, að ekki þurfi eftirleiðis að fella þetta framlag niður með öllu. Þessvegna er lagt til í frv., að framlag ríkisins verði eftirleiðis árlega 35 millj. kr.

Fiskveiðasjóður hefur vissulega mjög miklu og gagnmerku hlutverki að gegna í sambandi við skipasmíðar. Er það ekki eingöngu í sambandi við það, að skipin séu byggð, heldur stuðlar sjóðurinn einnig að því, að skipasmíðarnar fari fram sem mest í landinu sjálfu og verði þannig til þess að auka atvinnuna.

Það er kunnugt, að Fiskveiðasjóður hefur átt í nokkrum fjárhagserfiðleikum, m.a. vegna þeirrar niðurfellingar á ríkisframlagi, sem skeð hefur. Ég tel þó óhætt að fullyrða, að úr fjárþörf Fiskveiðasjóðs verði bætt á annan hátt, þannig að hann geti eftir sem áður staðið undir hlutverki sínu, eins og hann hefur gert á undanförnum árum. Til þess bendir reyndar það, að allmikið fjör virðist hafa færzt í innlendar skipasmíðar nú þegar.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að fara um frv. fleiri orðum, en mæli með samþykkt þess f.h. meiri hl. sjútvn.