24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

57. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér skildist raunar á framsöguræðu hv. frsm. sjálfs, að í þessari n. væri minni hl., sem væri andvígur frv., og ég ætlaði að hlýða á mál minni hl., en hann virðist ekki hafa kvatt sér hljóðs, og þess vegna vil ég nú bera fram eina fyrirspurn til hv. frsm. n. og annarra, sem þetta mál varðar sérstaklega.

Ég veitti því athygli, að í ákvæðum til bráðabirgða í þessu frv., um breyt. á l. um Fiskveiðasjóð Íslands, þá segir svo, að framlag ríkissjóðs skv. c-lið 4. gr. l. falli niður fyrir árin 1969 og 1970. Nú skal ég ekki ræða um þessa niðurfellingu framlags fyrir árið 1970, þótt nokkuð sé að vísu liðið á árið, en mér kemur hitt einkennilega fyrir sjónir, að hægt sé með l., sem nú eru sett, að fella niður framlag til sjóðsins fyrir árið 1969, þar sem það framlag er fallið í gjalddaga. Sé ég ekki annað en það hljóti að vera kræft að lögum, ef stjórn sjóðsins gengi eftir því. Ég sé í áliti frá sjútvn. eða hluta sjútvn. í Ed., að þar er gert ráð fyrir því, að þessi upphæð, sem sjóðurinn hefði átt að fá árið 1969, ef hann hefur ekki þegar fengið hana, sé nálægt 40 millj. kr. Þar er það enn fremur rifjað upp, að á síðasta þingi hafi verið lagt fram frv. um að fella þetta framlag niður úr lögunum fyrir árið 1969, en Alþ. hafi fellt það frv. Þetta allt í samhengi kemur mér undarlega fyrir sjónir, og ég vil gjarna heyra, hvað hv. frsm. hefur um þetta að segja, að Alþ. samþykki nú að fella niður framlag úr ríkissjóði, sem var lögbundið fyrir árið 1969 og er fallið í gjalddaga, hvort þetta sé hægt.