24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

57. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í umr., varð sjútvn. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n., stuðningsmenn ríkisstj. í sjútvn., vill samþykkja frv., eins og það er eftir afgreiðslu í Ed. En við, sem erum í minni hl., teljum hins vegar, að það sé ekki ástæða til þess að gera þá breyt. á l. um Fiskveiðasjóð, sem felst í þessu frv., þótt við viðurkennum, að sú breyt., sem orðið hefur á frv. frá því það var lagt hér upphaflega fram, er mjög til bóta.

Þetta frv. fól í sér till. um það að fella niður skyldu ríkissjóðs til þess að greiða Fiskveiðasjóði ákveðið framlag á hverju ári, eins og fyrir er mælt í lögum. En það er gert ráð fyrir því, eins og kunnugt er, að Fiskveiðasjóður hafi ákveðinn tekjustofn af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum. Síðan er gert ráð fyrir því í I. um Fiskveiðasjóð, að ríkissjóður skuli leggja sjóðnum jafnháa fjárhæð á hverju ári og tekjur sjóðsins nema af útflutningsgjaldi.

Nú hefur verið vikið frá þessu um tveggja ára skeið og því borið við, að þar væri um að ræða erfiðleika hjá ríkissjóði að standa undir þessum greiðslum. En nú er sem sagt lagt til með þessu frv. að lögbinda þetta þannig, að ekki yrði um að ræða framlag frá ríkissjóði. Ed. hefur breytt frv. þannig, að það skuli ákveðið, að ríkissjóður greiði til Fiskveiðasjóðs gjald, sem nemur 35 millj. kr. á ári, í fyrsta skipti árið 1971. Ef lög um Fiskveiðasjóð verða látin standa óbreytt, eins og er mín skoðun, að þau ættu að standa, í þessum efnum, þýðir það, að Fiskveiðasjóður á að fá greiðslur fyrir árin 1969 og 1970, — en það hefur ekki verið staðið við greiðslur til sjóðsins skv. því, sem fyrir er mælt í lögum —, og síðan stæði það ákvæði í lögum áfram, að ríkið greiddi sjóðnum jafnhátt gjald á hverju ári og tekjur sjóðsins nema af útflutningsgjaldi. Ég tel engan vafa á því, eins og nú er komið, að þá mundi framlag ríkisins til sjóðsins nema nokkru hærri fjárhæð en 35 millj. kr., því miðað við útflutninginn, eins og hann er orðinn nú, þá mundi framlag ríkissjóðs vera nokkru hærra. Það er því mín skoðun, að það eigi ekki að samþykkja þetta frv., heldur að halda sig við það, að lög um Fiskveiðasjóð standi óbreytt í þessum efnum.

Þetta frv. miðar að því að skerða tekjur Fiskveiðasjóðs frá því, sem þær voru ákveðnar hér í l. Það er enginn vafi á því, að Fiskveiðasjóður hefur svo miklu hlutverki að gegna, að það á ekki að skerða þetta tiltölulega litla framlag ríkissjóðs til sjóðsins, sem bundið er í l. Ég tel, að hvort tveggja sé, að útlit um afkomu ríkissjóðs sé þannig, að það sé engin ástæða til þess að fara að taka upp sérstakan sparnað í þessu skyni, útflutningsverðmætin fara ört vaxandi, það horfir mjög vel á þessu ári, en við vitum líka mætavel, að tekjur ríkissjóðs standa í föstu sambandi einmitt við gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, því að eftir gjaldeyrisöfluninni fer um innflutning og þar með um alla megintekjustofnana hjá ríkissjóði.

Það er því skoðun mín, að rétt sé að standa gegn þessari breyt., sem hér er gert ráð fyrir með frv., eins og það liggur nú fyrir, og halda sig við það að láta l. um Fiskveiðasjóð í þessu efni standa óbreytt og að ríkissjóður endurgreiði Fiskveiðasjóði það, sem hann hefur vangreitt á þessum tveimur árum, því að ekki var tekið upp á fjárlögum fé í þessu skyni. Ég legg síðan til, að á komandi fjárlögum verði staðið við skuldbindingar samkv. l. um Fiskveiðasjóð, eins og þau gilda nú. Ég vildi aðeins láta þetta sjónarmið mitt og okkar í minni hl. koma hér fram, að þetta er afstaða okkar til þessa frv.