06.04.1970
Efri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Á undanförnum þingum hefur sá háttur verið á hafður, að fjmrh. hefur í Sþ. gefið skýrslu um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisstj. fyrir viðkomandi ár jafnhliða því, sem gerð hefur verið grein fyrir efnahagsþróun í þjóðfélaginu almennt, svo og heildaryfirlit eða spá um framkvæmdamál og fjárfestingar almennt í landinu viðkomandi ár.

Í annan stað hefur svo verið flutt árlega frv., þar sem aflað hefur verið heimildar fyrir ríkisstj. til þess að taka ýmis lán vegna framkvæmdaáætlunarinnar, þ.e.a.s. þess þáttar hennar, sem fjallar um hinn svokallaða ríkissektor, þ.e.a.s. beinar ríkisframkvæmdir, og stundum er að vísu í þessu frv. einnig aflað heimildar til fyrirgreiðslu í lánum eða ríkisábyrgðum fyrir aðra aðila.

Nú tvö síðustu árin hefur sá háttur verið á hafður varðandi framkvæmdaáætlun ríkisins í þrengri merkingu, þ.e.a.s. framkvæmdir ríkissjóðs, að drög að þeirri áætlun hafi verið látnar fylgja fjárlagafrv. strax, er það hefur verið lagt fram að haustinu, þannig að hv. þm. gæfist kostur á þá þegar að sjá, hvaða viðfangsefni það væru, sem talið væri óumflýjanlegt að sinna, annaðhvort utan fjárlaga eða þá, eins og stundum hefur gerzt í meðferð þingsins, að sum þessara mála eða fjárveitingar til þeirra hafa verið tekin inn í fjárlög næsta árs. Þetta hefur auðveldað mönnum mjög að átta sig á því, hvaða viðfangsefni væri við að fást. Síðan hefur að sjálfsögðu komið að þeirri lögfestingu um lántökuheimildir, sem ég gat um, því að þetta hefur verið afgr. sem fskj. með fjárlagafrv. og ekki nánari ákvörðun tekin um það í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.

Það hefur stundum verið nokkuð að því fundið, að ekki væru saman frv. um lántöku vegna framkvæmdaáætlunar og skýrsla fjmrh. um heildarviðfangsefnið, þ.e.a.s. fjárfestingarmálin almennt og þróun fjármálanna á liðnu ári. Hefur jafnvel komið fyrir, eins og á síðasta þingi, að afgreiða varð frv. um lántöku, áður en hægt var að flytja þessa skýrslu.

Þá hefur í annan stað verið nokkuð að því fundið, að þessi skýrsla hefur verið munnlega flutt af fjmrh., en það er mikið og langt mál og í henni mikið af tölum, þannig að mönnum hefur þótt heppilegra, að skýrslan lægi fyrir þm., þannig að auðið væri að átta sig á þeim tölulegu upplýsingum og yfirlitsskýrslum, sem áætluninni fylgja. Að vísu hefur verið venja að útbýta jafnan yfirlitstöflum, en í skýrslunni sjálfri er alltaf mjög mikið af tölum og því eðlilegt, að erfitt sé að átta sig á málinu.

Ég hef því valið þann kostinn nú, sem er ný aðferð varðandi þetta mál í heild, að flytja ekki munnlega sérstaka skýrslu mína í þetta sinn, heldur útbýta henni meðal hv. þm. án sérstakrar umr. í Sþ. og útbýta henni þá einmitt samtímis og tekið er til umr. frv. um heimild til lántöku vegna framkvæmdaáætlunarinnar. Er þá ekki ætlun mín að lesa upp þessa skýrslu, heldur aðeins vitna til hennar, og gefst hv. þm. þá kostur á að kynna sér málið í meðferð frv., eða frá því, að athugun þess hefst, og gera sér grein fyrir því, hvernig almennt horfir um þessi vandamál, sem hér er um að ræða og frv. sjálft er aðeins þáttur af.

Raunverulega má segja, að þetta vandamál, sem hér er við að fást, greinist árlega í þrennt. Í fyrsta lagi er það heildaryfirlit um áætlaða fjárfestingu og framkvæmdir í landinu á því ári, sem er að hefjast, en vegna þessarar áætlunar er ekki auðið að birta þessa grg. eða taka hana saman, fyrr en nokkuð er liðið á árið, og mun þetta vera með því fyrsta, sem tekizt hefur að ljúka þessari skýrslu, því að safna þarf til þessa yfirlits margvíslegum upplýsingum frá ótalmörgum aðilum. Í annan stað er svo um að ræða framkvæmdaáætlunina sjálfa, sem er í tveimur liðum, annars vegar framkvæmdir ríkisins og hins vegar fjáröflun til fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna, en samkv. nýjum lögum um Framkvæmdasjóð Íslands er það á vegum þess sjóðs, sem fjár er aflað til stofnlánasjóða atvinnuveganna. Fyrir utan þetta kunna svo að vera einstök vandamál, sem þarf að leysa og eru blönduð að eðli til, og mun ég víkja nokkuð að þeim. Auk þess er ekki víst, að undir öllum kringumstæðum sé hægt að leysa með venjulegum hætti þann vanda, sem við er að glíma, með hinu almenna ráðstöfunarfé, svo sem koma mun í ljós varðandi sum atriði þessa máls.

Áður en ég vík að einstökum atriðum þessa máls, vildi ég leyfa mér að gera örlítinn samanburð á fjáröflunaráætluninni nú í ár, eins og hún liggur fyrir, og eins og hún var á s.l. ári eða árinu 1969. Þá kemur í ljós við þann samanburð, að gert er ráð fyrir því, að hægt sé að afla innanlands mun meira fjármagns en þá var gert. Gert er ráð fyrir því, að í heild verði hlutföllin á milli innlends og erlends fjármagns þannig, að 71% verði innlent fjármagn og 29% erlent, en á fyrra ári voru hlutföllin 43% innlend og 57% erlend fjáröflun. Að vísu kunna hér að koma til nokkrar viðbótarlántökur, en sem ekki hagga þó verulega þessari mynd. Þetta hefur reynzt auðið vegna þess, að það hefur rýmkazt til á lánamörkuðum innanlands, og hefur verið lögð áherzla á að leysa sem mest af þessum vandamálum á þeim vettvangi.

Um fjáröflunina, sem um er að ræða, er það að segja, að gert er ráð fyrir því nú, að fjáröflunin alls nemi 748.7 millj. kr., en var í fyrra 627.9 millj. Þá var gert ráð fyrir í þeirri áætlun hlutdeild í þýzku skuldabréfaláni 193 millj., sem ekki er nú um að ræða. Aftur á móti er nokkru hærri notkun, sem nú er gert ráð fyrir vegna lánsins frá Viðreisnarsjóði Evrópu, sem tekið var á s.l. ári, en það er fyrst og fremst lán vegna Norðurlandsáætlunar, sem ekki hefur verið ráðstafað enn nema að tiltölulega litlu leyti. Orsökin til þessara breytinga er sú fyrst og fremst, að gert er ráð fyrir því, að eigið fé Framkvæmdasjóðs vaxi allverulega, eða úr 65 millj. í 151 millj., og lánsfé hjá viðskiptabönkunum hækki vegna mikillar aukningar á innstæðum úr 50 millj. í 141 millj. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að endurseld spariskírteini verði um tvöfalt meiri í ár en í fyrra, eða hækki í 160 millj. úr 80 millj. Gert er hins vegar ráð fyrir nokkurri minnkun á bandaríska vörukaupaláninu, sem stafar af því, að það eru erfiðleikar á að nota það nema að takmörkuðu leyti, og mun ég síðar lítillega koma að því, hvernig það muni geta breytzt aftur til hins betra, ef á annað borð verður um slíkt fé að ræða til ráðstöfunar fyrir okkur á næstu árum.

Varðandi útgjaldahliðina, þ.e.a.s. ráðstöfun þessa fjár, þá er gert ráð fyrir, að fjárfestingarlánasjóðir og fyrirtæki fái nú 453.7 millj., samsvarandi 402.9 millj. í fyrra, og aðrar framkvæmdir verði 356.8 millj. en voru 225 millj. í fyrra. Áætlunin er hins vegar 61.8 millj. kr. hærri en þessari fjáröflun nemur, og það var að vísu einnig svo á s.l. ári, að lítið eitt brá út af áætluninni, en það hefur ekki reynzt auðið að skera niður þessa nauðsynlegu útgjaldaliði, sem hér er um að ræða. Því er treyst á það, að eitthvað af þessu kunni að frestast. Má m.a. gera ráð fyrir því, að til bygginga á vegum Háskólans þurfi ekki að leggja fram á þessu ári nema að litlu leyti það fé, sem nú er gert ráð fyrir í áætluninni. E.t.v. kunna einhverjar aðrar greiðslur að færast á milli ára, en verði svo ekki, verður að sjálfsögðu að leysa þetta með viðbótarlántöku eða bráðabirgðaláni, þangað til hægt verður að mæta því með sérstökum ráðstöfunum í framkvæmdaáætlun næsta árs.

Með framkvæmdaáætluninni fylgir skýrsla um það, hvernig ástatt er varðandi fjárfestingarsjóðina og fyrirtækin, sem þar er um að ræða, en gert er ráð fyrir því, að sjóðirnir í heild geti veitt lán, sem nema 995 millj. kr., samanborið við 792 millj. á síðasta ári, sem er aukning um 203 millj. eða 26%. Af þessari lánsfjárhæð mun Framkvæmdasjóður samkv. áætluninni leggja fram 290 millj., samanborið við 208 millj. samkv. áætlun síðasta árs. Það er aukning um 82 millj. eða tæp 40%. Hins vegar voru í fyrra með þessum áætlunarhluta háar fjárhæðir til opinberra fyrirtækja, innlendra skipasmíða og Vestfjarðaáætlunar, en þessir liðir eru nú ýmist fallnir brott eða færðir yfir á opinberar framkvæmdir.

Ef ég vík að einstökum liðum varðandi fjárfestingarlánasjóðina, þá er um þá það að segja, að gert er ráð fyrir, að Stofnlánadeild landbúnaðarins fái 62 millj. kr., eða svo að segja óbreytta fjárhæð frá áætlun fyrra árs, en aukning annars ráðstöfunarfjár mun gera deildinni kleift að auka útlánin um 24 millj. frá fyrra ári upp í 140 millj. En þar af munu væntanlega ganga um 10 millj. kr. til stofnunar minkabúa. Veðdeild Búnaðarbankans fær nú 8 millj. kr., sem er sama fjárhæð og endanlega var lánuð 1969, en þá var í deildinni að vísu sérstakt ráðstöfunarfé, sem voru 15 millj. kr. af gengishagnaði.

Fiskveiðasjóður er eitt mesta vandamálið í sambandi við stofnlánasjóðina nú. Þar er um mjög háa útfærða áætlun að ræða, því að fyrir utan 188 millj. kr. vegna innfluttra skipa frá fyrri árum er útlánaáætlun 366 millj. til samanburðar við 231 millj. á síðasta ári. Að meðtöldu 80 millj. kr. lánsfé Framkvæmdasjóðs og áætluðu 50 millj. kr. erlendu lánsfé vegna vélakaupa nemur ráðstöfunarfé sjóðsins til nýrra lána 225 millj. Þá vantar allverulega fjárhæð, eða samkv. þessari áætlun 141 millj., sennilega þó töluvert hærri eða allt upp í 170 millj. til þess að ná nauðsynlegri útfærðri áætlun. Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að afla meginhluta þess fjár og áætlanir um, hvernig afla skuli þess, sem á vantar, en enn þá er ekki fullkomlega frá því máli gengið. Ég tel hins vegar fulla ástæðu til þess að ætla, að hægt verði að afla alls þessa fjár.

Á lánum Fiskveiðasjóðs hafa orðið meginbreytingar, vegna þess að fiskiskipasmíði hefur nú færzt að meginhluta til inn í landið. Áður var þetta fjármagnað með 7 ára export-kredit-lánunum erlendis, sem Fiskveiðasjóður tók síðan að sér. Nú verður að afla þessara lána beint, til þess að auðið sé að smíða skipin innanlands. Hér verður því um vandamál að ræða, og í rauninni er ekkert að athuga við, þó að það sé leyst að allverulegu leyti með erlendu lánsfé, þar sem það er engin breyting frá því, sem áður var, því að aðeins er um að ræða, að skipasmíðarnar eru fluttar inn í landið. Annars hefðu skipakaup þurft að fjármagnast með erlendu lánsfé, þannig að þar er ekki um nýjar raunverulegar erlendar lántökur að ræða frá því, sem áður var.

Þá er enn fremur í sambandi við Fiskveiðasjóð við þann vanda að glíma, að geysileg vanskil hafa orðið á gengislánum þeim, sem tekin voru vegna stóru síldveiðiskipanna vegna þeirra miklu áfalla, sem þau skip urðu fyrir, og verður að afla nokkurs fjár til viðbótarlána til þess að leysa þann vanda.

Á vegum Fiskveiðasjóðs eru dráttarbrautalánin sérstakur liður, sem lækkar nú nokkuð, eða í 18 millj. úr 23 millj. á s.l. ári. Nú í ár skiptast lánin á þrjá staði, til dráttarbrauta á Akranesi, í Njarðvík og í Reykjavík.

Eigið ráðstöfunarfé Iðnlánasjóðs mun aukast mjög frá fyrra ári og nema 117 millj. kr. vegna iðnlánasjóðsgjaldsins fyrst og fremst, hærri fjárhæð en útlánin á síðasta ári. Með 28 millj. kr. lánsfé samkv. áætluninni mun sjóðnum gert kleift að veita verulega fjárhæð að láni til Kísiliðjunnar auk þess að sinna eðlilegri, almennri aukningu. Munu útlánin væntanlega hækka í 145 millj. úr 105.6 millj. á fyrra ári. Sjóðurinn mun þó ekki þurfa að sjá fyrir viðamestu þörfum iðnþróunar, þar sem Iðnþróunarsjóður mun taka til starfa á árinu með upphaflegu stofnfé, sem mun væntanlega koma til útlána nú, um 300 millj. kr.

Gert er ráð fyrir, að lánveitingar Lánasjóðs sveitarfélaga aukist mjög verulega eða sem næst tvöfaldist á þessu ári, hækki úr 33.7 millj. í 62.4 millj., og er aukningin einkum vegna hitaveituframkvæmda á Húsavík, Dalvík og á Seltjarnarnesi, og er sjóðurinn studdur af Framkvæmdasjóði með sérstöku láni til að mæta þessum þörfum.

Gert er ráð fyrir, að til Ferðamálasjóðs gangi 6 millj. kr., og þar fyrir utan er áætlað, að Framkvæmdasjóður aðstoði við útvegun á tveimur lánum til gistihúsabygginga í Reykjavík, hvoru að fjárhæð 15 millj. kr., þannig að til fjárfestingar í ferðamálum og hótelum verði samtals um 36 millj. kr.

Stofnlánasjóður verzlunarfyrirtækja er enn þá mjög vanmegnugur, en reiknað er með verulegri aukningu útlána, eða í 39 millj. úr 16.6 millj. á síðasta ári, og stuðlar Framkvæmdasjóður sérstaklega að þessu með verulegri aukningu á sínu framlagi, þ.e.a.s. 18 millj. í stað 6 millj. á árinu sem leið.

Þegar gengið var frá þessum málum og áætlunum, var enn allverulega á huldu um Byggingarsjóð verkamanna og húsnæðismálin í heild. Unnið hefur verið að þeim málum af ríkisstj. nú að undanförnu. Lausn þeirra er ekki tekin hér sérstaklega inn í þetta dæmi, vegna þess að ekki var ljóst, hvernig frá þeim málum yrði gengið, en þess má vænta, að frv. um það efni komi fyrir Alþ. næstu daga. Hins vegar tel ég ekki rétt á þessu stigi að vera að rekja það mál. Gerð verður grein fyrir því, þegar þar að kemur. Meginbreytingin, sem þar kemur til greina, mun ekki koma til á þessu ári, heldur fyrst og fremst á næsta ári, þ.e. ný fjáröflun, m.a. ríkisframlög, en gert er ráð fyrir því á þessu stigi varðandi árið í ár að afla lánsfjár, 15 millj. kr., auk framlags fjárl. 15 millj., þannig að 30 millj. verði aflað til verkamannabústaða, en sérstakar lánveitingar komi til vegna annarra byggingarmála.

Til byggðaáætlana fer fyrst og fremst það, sem eftir er af fé Norðurlandsáætlunar, 160.3 millj., sem ekki er hægt að segja um, að hve miklu leyti verður ráðstafað á þessu ári, og nokkurt fé, sem eftir var til þess að ljúka vegáætlunum samkv. Vestfjarðaáætlun.

Ég hef þá lítillega gert grein fyrir fjárfestingarsjóðunum og þeim vanda, sem þar er við að fást. Eins og hv. þm. sjá, er þar yfirleitt um verulega hækkun útlána að ræða og í sumum tilfellum mjög verulega hækkun.

Opinberu framkvæmdirnar eru annar þáttur þessa máls, og það er sá þátturinn, sem þetta frv. fyrst og fremst fjallar um, vegna þess að þar er nauðsynlegt að afla sérstakrar lántökuheimildar. Nú er það svo, að framlög ríkisins til þeirra opinberu framkvæmda, sem ríkið er beint eða með sveitarfélögunum aðili að, hafa aukizt mjög mikið í fjárl. yfirstandandi árs, sem sést bezt á því, að bein framlög á fjárl. til opinberra framkvæmda nema nú um 987 millj. eða 30.7% af framkvæmdaupphæð á móti 720 millj. kr. eða 22.2% fyrir ári. Hér er einnig um að ræða fjáröflun, eins og menn sjá, til framkvæmda, þar sem fjárveitingar koma úr öðrum áttum. En ef við lítum á frv. sjálft og framkvæmdaáætlunina í þrengri merkingu, eins og hún þar lítur út, þá er upphæðin þar 356.8 millj. kr., sem afla þarf fjár til, og meginhluti af þeim framkvæmdum, sem þar er um að ræða, eru framkvæmdir, sem teknar voru í drög þau að framkvæmdaáætlun, sem fylgdu fjárlagafrv.

Í fyrsta lagi er um að ræða framlag til Reykjanesbrautar. Það er gamalt vandamál, sem er enn þá óleyst, en í sérstakri athugun er, hvernig á að leysa þann vanda. Vandinn stafar af því, að það fé, sem á hverju ári fæst, annars vegar með framlögum í vegáætlun og hins vegar veggjaldi, nægir alls ekki til þess einu sinni að greiða að fullu vexti af þeim lánum, sem hvíla á Keflavíkurvegi, þannig að lántökurnar munu fara hækkandi á næstu árum, ef ekki verður sérstaklega spyrnt við fótum með sérstakri fjáröflun. Það mun vera nægilegt í ár að afla 27.2 millj. til að standa undir skuldbindingum vegna vegarins.

Þá er jafnframt nauðsynlegt að afla 11.8 millj. sérstaklega til þess að ljúka vegaframkvæmdum samkv. Vestfjarðaáætlun. Það eru eftirstöðvar frá s.l. ári, sem ekki tókst þá að ljúka, og þar er um svo lága upphæð að ræða, að auðvitað kemur ekki til álita að fara að leita á sömu mið og áður til þess að leysa þær eftirstöðvar. Eins og hv. þm. er kunnugt, var þetta leyst fyrst og fremst með lánum úr Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins.

Í þriðja lagi í vegaframkvæmdum er framlag til Hafnarfjarðarvegar í Kópavogi, 12 millj., sem eru eftirstöðvar af lofaðri fyrirgreiðslu í sambandi við þann veg. Auk þess hefur Kópavogskaupstað verið veitt vilyrði um, að greitt yrði fyrir sérstöku 5.5 millj. kr. láni til kaupstaðarins sjálfs til þess að halda áfram þessu verki, en heildaráætlun um það er ekki lokið enn.

Varðandi vegamálin að öðru leyti er það að segja, að ætlunin er sú, og að því hefur verið unnið að undanförnu á vegum samgmrn., að gera heildarvegáætlun auk þeirra sérstöku vegáætlana, sem unnið hefur verið að í sambandi við Austurland og Norðurland. En stærsti þátturinn í hinni almennu athugun á vegamálunum eru hraðbrautaframkvæmdirnar, og samkv. þeirri áætlun, sem síðast hefur verið gerð um það efni og hugsunin er að reyna að framkvæma, er gert ráð fyrir, að það þurfi um 212 millj. kr. á þessu ári í hraðbrautaframkvæmdir. Í því sambandi þarf að afla lána, sem munu vera um 132 millj. kr. fyrir utan lán, sem gert er ráð fyrir, að fáist hjá Alþjóðabankanum, en þangað hefur verið sótt um lán til hraðbrauta, og má telja nokkurn veginn öruggt, að það lán fáist nú á þessu hausti. En það verður ekki nema lítið eitt, sem hægt verður að vinna fyrir það lán á þessu ári. Það kemur aftur aðallega til framkvæmda á næstu tveimur árum. En fyrir utan það lán mundi þurfa að afla, eins og ég sagði, um 130 millj. kr. á þessu ári, og er það mál nú í sérstakri athugun.

Þá eru landshafnir með smávægilegar framkvæmdir, sem gerð er grein fyrir í grg.

Framlag til Rafmagnsveitna ríkisins, þ.e. 35 millj. kr., er hið sama og gert var ráð fyrir í framkvæmdaáætlun í haust. Þar er fyrst og fremst um að ræða tengingar á milli rafveitukerfa til þess m.a. að reyna að minnka dísilrafstöðvanotkun, sem er mjög mikilvægt að hægt sé að draga úr vegna óhagkvæmni hennar.

Þá er 6. liður í þessari framkvæmdaáætlun. Það er nýtt mál, 15 millj. kr. lánsöflun til rafvæðingar í sveitum, og þessi fjárhæð er sett hér með það í huga, að það er ætlunin að ljúka þessari rafvæðingu í ár og á næsta ári, þ.e.a.s. öllum þeim línum, sem eru innan við 1 1/2 km að lengd, og við það eru þessar lántökur miðaðar. Engin ákvörðun hefur verið tekin um, hvað gert verði varðandi framhald þessara framkvæmda, en ríkisstj. ákvað á sínum tíma að reyna að ljúka þessum framkvæmdum á árinu 1970 eða 1971, og til þess að það geti tekizt, verður — auk þess sem fjárveitingin sjálf hækkar nokkuð, eins og hv. þm. er kunnugt — að leggja út í þessa lántöku, sem ekki þarf að teljast óeðlileg, þegar svo langt er komið í þessum framkvæmdum. Þá væri hægt að borga það lán niður aftur af framlögum næstu ára, ef svipuðum fjárveitingum verður haldið.

Til jarðvarmaveitna ríkisins er varið 18.2 millj. og til orkurannsókna 19 millj. Bæði eru þetta mjög stór viðfangsefni, og nýlega hafa verið gerðar stórar áætlanir, bæði um jarðhitarannsóknir og almennar orkurannsóknir á vegum Orkustofnunarinnar. Það er mikið plagg, og þetta kostar 100 millj. kr. Að sjálfsögðu er útilokað að hefjast handa nú, enda er þetta umfangsmikið mál, sem þarf að kanna betur. Það, sem menn reyna að halda sig við á þessu stigi, er að ljúka þeim nauðsynlegu rannsóknum, sem mikilvægastar eru vegna framkvæmda, sem annaðhvort er brýn nauðsyn að hraða ellegar hafa þegar komizt í gang, og nefni ég í því sambandi, t.d. Kísiliðjuna við Mývatn og orkustöðina þar. Það kemur á daginn, að þar vantar aukna orku, enda leiðir það af sjálfu sér vegna tvöföldunar Kísiliðjunnar. Þar er óumflýjanlegt að gera ráðstafanir til nýrra borana, til þess að þessi fyrirtæki stöðvist ekki, og sömuleiðis þarf að halda áfram borunum á Reykjanesi. Þá þarf einnig að vinna að frekari athugunum á leiðum til orkuöflunar, bæði á Norðurlandi og Austurlandi. Er gert ráð fyrir nokkurri fjáröflun til þeirra mála. Þá er hér einnig gert ráð fyrir að verja 55 millj. kr. til Laxárvirkjunar. Það mál hefur verið í athugun að undanförnu og nokkur styrr um það staðið, en það stendur enginn styrr um það út af fyrir sig, að það er óumflýjanlegt að afla nýrrar orku fyrir þetta svæði, þannig að ekki er hægt að fresta þeim framkvæmdum með neinu móti. Á þessu stigi hefur ekki verið talin ástæða til þess að falla frá þeirri áætlun, sem fyrir liggur, að afla fjár, svo sem í upphafi var talið nauðsynlegt, til þess að hægt væri að ráðast í þær framkvæmdir þegar á þessu ári. Að öðru leyti skal ég á þessu stigi ekkert fullyrða um það, hver verður niðurstaða þess máls, en orkuna þarf að fá með einhverjum hætti.

Þá er nýtt mál, sem ekki var á framkvæmdaáætlun í haust, en það er 41 millj. til Landsvirkjunar. Vegna afkomu virkjunarinnar eða vegna nauðsynlegrar arðgæfi, sem hún þarf að hafa vegna skuldbindingar, m.a. við lánveitendur til virkjunarinnar, varð annaðhvort að hækka mjög verulega raforkusölu frá virkjuninni, þ.e. heildsöluverð á raforku, eða þá að eignaraðilar legðu fram meira fé, og var millileiðin farin, að eignaraðilar legðu fram 82 millj., Reykjavíkurborg að hálfu og ríkið að hálfu, og rafmagnið hækkar þá því minna.

Gert er ráð fyrir að afla til Áburðarverksmiðju ríkisins 55 millj. kr., og á það að vera nægilegt miðað við síðustu áætlanir. Auk þess er í frv. að finna heimild til sérstakrar lántöku fyrir hana, en það er vegna vélakaupa, 115 millj. kr., og er ætlunin að taka erlent lán. Aftur á móti mundu þessar 55 millj. fara til greiðslu á innlendum kostnaði.

Þá eru smáfjárveitingar vegna jarðefnaleitar og sjóefnarannsókna, sem hvort tveggja hafa verið nokkuð í gangi. Er nauðsynlegt að halda þeim áfram og ljúka þeim könnunum, sem þar er verið að gera.

Þá eru næst framlög til framkvæmda á Keldnaholti, en meginhluti þess fjár mun fara til Rannsóknastofnunar iðnaðarins, sem þar er verið að byggja, og um 2 millj. kr. munu fara til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins til sérstaks útbúnaðar vegna kalrannsókna. Þá eru 10 millj. til byggingar lögreglustöðvar í Reykjavík. Þar vantar enn þá mjög verulegt átak, en ekki er talið mögulegt að afla meira fjár að sinni til þeirra framkvæmda. Þar er einnig fjárveiting í fjárlögum, 3 millj. kr.

Loks eru byggingarframkvæmdir á vegum Háskóla Íslands, 30 millj., og er það í samræmi við áætlun, sem háskólanefndin svokallaða gerði um byggingarframkvæmdir Háskólans, en þar er um að ræða mjög stórt viðfangsefni, sem menn munu standa andspænis næstu árin, sérstaklega þennan áratug, og mun í rauninni fara vaxandi eftir því sem á áratuginn líður.

Svo sem ég áðan sagði, vantar hér í heild rúmar 60 millj. kr., sem ekki hefur enn þá verið aflað fjár til, þannig að menn sjá, að hér er mjög knappt um fé og langt gengið. Þetta leiðir í ljós, að þess er ekki kostur að bæta hér við nýjum framkvæmdaliðum, nema við getum þá skorið annað niður eða bent á sérstakar leiðir til fjáröflunar í þessu skyni. Fjáröflunin er hugsuð þannig, að gefin verði út ný spariskírteini, 75 millj. kr., með sömu kjörum og verið hefur undanfarin ár. Ég skal hins vegar taka það skýrt fram, af því að á það hefur nokkuð verið deilt á undanförnum árum og ég í rauninni ekki allt of ánægður með það sjálfur, að þessi bréf hafa verið með sérstökum kjörum, laus við bæði framtalsskyldu og skattskyldu. Þá hefur verið bent á, að þetta væri óeðlilegt bæði miðað við önnur bréf og eins hitt, að hér væru erfiðleikar vegna skatteftirlits. Þá vil ég taka það fram, að það mál allt saman varðandi spariféð og skuldabréfin og arð af hlutafé er í sérstakri athugun í sambandi við skattamál fyrirtækja, og það má vænta annaðhvort á þessu þingi eða þá strax í byrjun næsta þings heildartillagna um meðferð þeirra vandasömu mála, sem vissulega er erfitt að leysa.

Það er gert ráð fyrir að gefa út ný spariskírteini í stað þeirra, sem innleysa ber, og samkv. fenginni reynslu er það svo, að mikill meiri hluti fólks óskar eftir því að framlengja bréf sín, og er ráð fyrir því gert í áætlun Seðlabankans, að óhætt sé að tvöfalda þá tölu eða gera ráð fyrir, að það verði um 160 millj. kr. í stað 80 millj. á þessu ári, sem afla megi með þeim hætti.

Svo sem ég gat um áðan, eru erfiðleikar um notkun á PL-láni. Við getum í rauninni ekki notað það, sem okkur gæti staðið til boða. Þetta er, eins og mönnum er kunnugt, vörukaupalán frá Bandaríkjunum. Erfiðleikarnir stafa ekki sízt af því, að ekki er hægt að nota að fullu þau fóðurkaup og kornkaup, sem þar standa til boða, og það sýnist vera alveg ljóst, að það verður ekki gert nema með því að grípa til sérstakra ráðstafana. Þess vegna er lagt til að verja nú á þessu ári allt að 32 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs Íslands, sem endurláni það til kornsölubyggingar í Reykjavík, en aðalkorninnflytjendur til landsins, Samband ísl. samvinnufélaga, Mjólkurfélag Reykjavíkur og Fóðurblandan hf., hafa sameinazt um að byggja hér kornhlöðu. Jafnframt hafa þessir aðilar skuldbundið sig næstu árin að flytja inn korn frá Bandaríkjunum, ef þessi fyrirgreiðsla verður veitt, og mundi þetta því á næstu árum auðvelda mjög notkun þess fjár. Með þessu á einnig að sparast mjög verulega fé, sem kemur þá innlendum aðilum til góða.

Ég held, herra forseti, að ég hafi þá vikið að þeim meginatriðum, sem máli skipta í sambandi við þetta frv., eins og það liggur fyrir, og gert í stórum dráttum grein fyrir ráðstöfun til fjárfestingarlánasjóðanna og þörf þeirra og jafnframt lítillega vikið að öðrum vandamálum, sérstaklega vegamálunum og hinum sérstaka vanda Fiskveiðasjóðs. Að öðru leyti vísa ég til þeirrar grg., sem ég hef hér látið leggja á borð hv. þm., og sé ég enga ástæðu til þess að fara að þreyta þá með að lesa hana hér upp, en vænti þess, að sú tilhögun, sem hér er á höfð, verði til þess að mæta þeim óskum, sem fram hafa komið um nægilega góð vinnuskilyrði til þess að taka ákvörðun varðandi lántökuheimildirnar og áætlunina í heild.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og vildi jafnframt mjög beina því til n., að hún tæki það sem skjótast til meðferðar. Að vísu liggur ekki endilega á að afgreiða frv. svo skjótt, að það geti ekki fengið eðlilega athugun, en það tekur nú að líða nokkuð á þingið, og er þess vegna æskilegt, að reynt verði að hraða málinu svo, að það verði ekki alveg til meðferðar á síðustu dögum þingsins.