06.04.1970
Efri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Um leið og ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans skýrslu, vil ég láta í ljós, að ég tel, að hér sé réttur háttur hafður á, að útbýta þessari skýrslu bréflega, þannig að þm. gefist tóm til þess að lesa hana og athuga. En um leið vil ég benda á, að það væri æskilegra að mínum dómi, ef það gæti átt sér stað eilítið fyrr en umr. fer fram um málið, vegna þess að það er í raun og veru ekki hægt að gera ráð fyrir því, að þm. geti rætt þetta mál verulega, svo að nokkru gagni sé við 1. umr. málsins, nema þeim hafi gefizt áður tóm til þess að kanna þetta, og væri það þá til athugunar eftirleiðis. Það þarf ekki að eyða orðum að því, að þetta er náttúrlega eitt af þýðingarmeiri málum, sem hér er um fjallað, og auðvitað æskilegt, að þm. gefist góður kostur á því að setja sig vel inn í það, og er ekki að efa, að þeir hafa ríkan áhuga á því.

Ég mun nú ekki fara að ræða þetta mál mikið á þessu stigi. Eins og ég sagði áðan, eru í raun og veru ekki nægar forsendur til þess. Þó að ræða sú, sem hæstv. fjmrh. hélt hér, væri glögg, þá er auðvitað betra að kanna þetta í n. og kynna sér þessi gögn, áður en maður fer að ræða það, og taka afstöðu til þess.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., er þetta frv., sem hér liggur fyrir, um lánsheimild til framkvæmdaáætlunar og um framkvæmdaáætlunina, ekki fullkomið að því leyti, að utan þess liggja mjög þýðingarmiklir framkvæmdaliðir, eins og hann gerði grein fyrir, og sumir þeirra liggja nú ekki enn ljóst fyrir, en eru auðvitað ákaflega mikilvægir, og skiptir höfuðmáli, hvernig reiðir af, bæði um áætlunargerð og fjáröflun til þeirra, eins og t.d. húsnæðismálin og vegamálin. Nú sá ég, rétt áður en ég gekk upp í pontuna, að það er búið að útbýta frv. til nýrra húsnæðislaga, en ég hef ekki getað sett mig inn í það. Sama er um vegamálin að segja. Að vísu gerði hæstv. ráðh. grein fyrir þeim hugmyndum, sem uppi eru í sambandi við þau varðandi lántökur á þessu ári með einhverjum hætti, þ.e. 132 millj., og þar að auki væntanlegt lán frá Alþjóðabankanum. Um þetta vil ég ekki segja annað á þessu stigi en það, að þessa er áreiðanlega mikil þörf. Það er að mínu viti þörf á því að gera stórátak í vegamálunum, og ég hygg, að allir séu í raun og veru sammála um það. Það, sem fyrir liggur í þessu frv., er nánast og að verulegu leyti aðeins til að standa undir því, sem þegar hefur verið gert eða að mestu leyti gert, þó að þarna sé aðeins efnt til framkvæmda, svo sem þar nánar segir. Ég fyrir mitt leyti vil þess vegna leggja áherzlu á, að því sé fylgt eftir, að ekki sé staðnæmzt í vegaframkvæmdunum við það, sem þetta frv. út af fyrir sig gefur bendingu um, heldur er þörfin rík, bæði náttúrlega á hraðbrautunum, eins og ráðh. vék að, og eins er brýn þörf á því að koma á braut alveg um landið, hringvegi um landið, eins og það hefur verið kallað, nokkurn veginn tryggum. En það gefur auga leið, að slíkt hlýtur að kosta mikið fé. En ég held, að það verði að horfast í augu við það, að það er verkefni, sem verður að leysa.

Þá er þetta nú svo, að frv. þetta fjallar út af fyrir sig ekki um byggðaáætlanirnar, en þar er mér af eðlilegum ástæðum sérstaklega rík í huga Norðurlandsáætlunin svokölluð. Að henni er vikið hins vegar, sé ég, í þessari skýrslu fjmrh. og gert er ráð fyrir því, að það verði til ráðstöfunar, skilst mér, í hana 152 millj., og gert ráð fyrir því, að það megi nota það fé á þessu ári, og þó að það kunni að fara svo, að það verði ekki allt notað á þessu ári, þá sé það til. En í þessari skýrslu fjmrh., sem hér liggur fyrir, þá segir um þetta á bls. 10, með leyfi hæstv. forseta: „Notkun fjármagns Norðurlandsáætlunar liggur enn ekki að fullu ljós fyrir, en þar í blandast lán til atvinnuframkvæmda og margháttaðra opinberra framkvæmda.“ Nú vil ég í sjálfu sér ekki ætlast til þess, og kannske er það ekki rétt, að blanda því máli frekar inn í þessa skýrslu. En ég vil þó láta það í ljós, sem ég hef reyndar oft gert áður í sambandi við þessa Norðurlandsáætlun og umr., sem hafa farið fram um hana, að ég fyrir mitt leyti legg mjög ríka áherzlu á það, að um raunverulega áætlunargerð sé að ræða, en fénu sé ekki útdeilt af þeim aðila, sem með það hefur að gera, í það og það skiptið í þetta verkefni, og svo standi maður nánast eftir andspænis því, að það sé gefin svona skýrsla um, hvernig þessu hefur verið ráðstafað. Það hefur nú verið gert að vísu og lagt fram það, sem kalla mætti vísi að Norðurlandsáætlun, og það hefur verið birt og það hafa þm. séð, en það er þó mjög almenns eðlis og án allrar sundurliðunar á því, hvaða framkvæmdir það séu, sem þar komi til greina. Nú er þetta auðvitað brennandi mál á Norðurlandi, og þarfirnar eru margar, og það er sjálfsagt erfitt að fullnægja þeim öllum, en mig langar mjög til þess að vita, — og ég veit varla, að hvaða aðila ég á að snúa mér með þetta, hvernig hugsað er að ráðstafa þessu fé, og mér finnst endilega, að það eigi að gera fyrir opnum tjöldum, þannig að t.d. þm. og ég vil segja Alþ. fái hugmynd um það, áður en þessar ráðstafanir eru gerðar. Ég veit, eins og ég sagði, að þarfirnar eru miklar. Það eru náttúrlega atvinnumálin, sem eru þar nr. eitt að mínum dómi, en það eru líka samgöngumál, eins og flugvellir o.fl., o.fl., sem menn hafa á sínum óskalista þar, og það er ákaflega æskilegt og nauðsynlegt, að menn geti fengið eitthvað, sem þeir geta fest hendur á í því efni. Þessu vildi ég nú aðeins skjóta hér fram. Ég veit, að fjmrh, er nú á margan hátt við þetta riðinn, bæði sem þm. og ráðh. og eins atvinnujöfnunarsjóðsformaður, en ég vil leggja áherzlu á þetta, að mér finnst ekki liggja nægilega ljóst fyrir varðandi þessa áætlunargerð fyrir fram. En mér finnst, að það ætti ekki að valda ágreiningi, að það væri æskilegt, að þetta væri gert á þann hátt, sem ég hef hér verið að reyna að benda á, að mönnum gæfist kostur á að fá yfirlit og hugmyndir um þetta fyrir fram.

Ég veit nú ekki, hvort ég á að fara að minnast hér á fleiri atriði í þessu sambandi, því að, eins og ég sagði áðan, þá er eðlilegra, að þær umr. séu látnar bíða, þangað til þetta mál liggur skýrar fyrir. Ég heyrði, að hæstv. ráðh. gerði grein fyrir fjárþörf Fiskveiðasjóðs, og það kemur mér ekki á óvart, og þá minnist ég þess einnig, að ég hef bent á það á sínum tíma hér í vetur, þegar umr. voru um Fiskveiðasjóðinn, að honum mundi ekki veita af því framlagi, sem ætlað var til hans úr ríkissjóði áður. Það má segja, að það sé kannske ekki stór hluti í þessari fjárþörf, en eigi að síður staðfestir þó þetta það, að honum veitir sannarlega ekki af sínu.

Hæstv. ráðh. minntist á það, að þarna væri gert ráð fyrir allmikilli aukningu fjár til Stofnlánasjóðs verzlunarinnar. Verzlunin er náttúrlega alls góðs makleg, og mér er það ljóst, að það er mikil þörf á því að skipuleggja og ég vil segja bæta starfshætti í verzlun hér, og ég held, að með þeim viðbrögðum mætti stuðla mjög að því að gera hana hagstæðari og ódýrari. En þegar þarfirnar eru jafnmargar og þær nú óneitanlega eru, þá er ekkert óeðlilegt, þó að maður stingi aðeins við fótum, þegar maður heyrir þessa tölu, sem þarna er ráðgert að hækka til Stofnlánasjóðs verzlunarinnar, og maður vilji fá nánari grg. um það, til hvers það sé ætlað. Það kemur sjálfsagt fram og upplýsist nánar í meðferð málsins. Þetta vildi ég benda á, en það er ekki svo að skilja, að ég sé að telja það eftir út af fyrir sig, að það sé hugsað til þessarar þarfar.

Þá get ég undirstrikað það, sem við höfum bent á áður og alltaf í sambandi við þetta frv., eins og ráðh. reyndar kom að, að við höfum alltaf talið það óeðlilegt, að þessi skuldabréf, sem þarna eru seld, séu undanþegin framtalsskyldu. Ég fyrir mitt leyti tel enga nauðsyn á því að blanda því saman, hvort um skattskyldu sé að tefla, og þótt þau séu undanþegin skattskyldu, þá geta þau verið framtalsskyld allt að einu, og það hefur verið okkar sjónarmið í þessu. Það var ánægjulegt að heyra, að hæstv. ráðh. sagði, að þessi mál mundu öll verða tekin til athugunar og mundi e.t.v. verða að vænta nýrrar stefnu í því efni, og er ekki nema gott um það að segja. En það verður þó sjálfsagt ekki komið til sögunnar, þegar þetta frv. verður afgreitt, og þá er náttúrlega spurning, a.m.k. fljótt á litið í mínum huga, hvort skattareglur, sem þá verða settar, geti verkað aftur fyrir sig á þau kjör, sem þegar hafa verið ákveðin í lögum um þessi skuldabréf, og þess vegna fyndist mér nú enn eins og fyrr eðlilegt, að þetta ákvæði um sjálfa framtalsskylduna eða lausnina undan framtalsskyldunni væri nú fellt niður úr þessum lögum, af því að ég get ekki séð, að það sé með réttu móti hægt að segja nokkru spillt, þó að maður verði að gera grein fyrir þessu, telja það fram. En hitt er allt annað mál svo um skattskylduna, það er allt annað mál.

Ég ætla svo ekki, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri.

Þetta voru aðeins örstuttar aths., en ég fellst alveg á það sjónarmið ráðh., að það sé auðvitað eðlilegt, að þetta sé síðar rætt frekar, þegar menn hafa frekar kynnt sér þessi gögn, sem hafa verið fram lögð og endurtek það, að ég álít, að það sé út af fyrir sig eðlilegur háttur og skynsamleg vinnubrögð í þessu sambandi, að mönnum gefist þannig kostur á að kanna þetta, þannig að menn séu ekki að eða menn eigi ekki að þurfa að ræða þetta svona út í loftið, af því að þeir geta ekki kynnt sér það nægilega vel.