06.04.1970
Efri deild: 65. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Varðandi fsp. hv. síðasta ræðumanns, 5. þm. Reykn., vildi ég aðeins segja, sem ég sagði raunar í inngangsræðu minni, að orkumálin eru geysilega fjárfrek mál, og áætlanir, sem um þau hafa verið fram settar af Orkustofnuninni, nema geysimikilli fjárhæð.

Á undanförnum árum hefur verið mjög mikið unnið á Reykjanessvæðinu og meira en nokkurs staðar annars staðar í sambandi við orkuleit, það er rétt, að það er fyrst og fremst verið með hugsanlega sjóefnavinnslu fyrir augum, en varðandi það fé, sem nú er ætlað til orkurannsókna, þá er gert ráð fyrir, að nokkur hluti þess eða rúmar 4 millj. kr. renni til athugunar á fullvinnslu sjóefna og hugsanlegrar nýtingar á höfuðstaðarsvæðinu. Hér er að sjálfsögðu ekki nema hluti af því fé, sem Orkusjóður hefur til ráðstöfunar til orkurannsókna, og má vel vera, að hægt sé að sameina það að einhverju leyti, enda er gert ráð fyrir því í áætlun Orkustofnunar, að þetta geti komið að sameiginlegum notum leitin að orku vegna sjóefnavinnslunnar og orkuleit, sem hugsanlega gæti orðið til almennra nota fyrir Reykjanessvæðið. Ekki er ástæða til að halda að það einangrist við það viðfangsefni. Hins vegar er ekki talið mögulegt að leggja fram alla þá peninga, sem hv. þm. gat um, umræddar 10 millj., sem að vísu voru teknir sem lántökuheimild, án þess að nokkuð væri fullyrt um, að væri hægt að afla þess láns nákvæmlega til þeirra hluta, þ.e. láta það sitja fyrir, sem brýnast er í þessu efni. En ég tek undir það með hv. þm., að þetta er mikilvægt mál, sem hefur verið sinnt og þarf að sinna.

Ég held hins vegar, að það sé ekki enn þá endanlega gengið frá því, hvernig sveitarfélög á þessu svæði ætla að standa að þessum málum, og vitanlega er ekki hægt að ætlast til þess, að ríkið að sínu leyti kosti jarðhitaleit fyrir hitaveitur. Það er ekki venjan, heldur er lánað fé til þess, og síðan er það reiknað með sem tilkostnaður hitaveitnanna, þegar þar að kemur. Þar sem leitað hefur verið að jarðhita, hafa jarðboranirnar að hálfu leyti verið kostaðar af framlögum úr Orkusjóði, en að hálfu leyti með framlögum frá viðkomandi sveitarfélögum, og ég held mér sé óhætt að segja, að það liggja ekki endanlega fyrir enn þá áætlanir frá sveitarfélögum hér, að þau vilji fjármagna það að sínu leyti á þennan hátt. Með þessu er ég ekki, eins og ég sagði, að draga úr nauðsyn þess, að þetta verði gert, og tel, að þarna séu möguleikar fyrir hendi með þessari fjáröflun að sameina að nokkru athugun í þessum tvíþætta tilgangi.

Varðandi það, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði um Norðurlandsáætlun, að ekki væri sérstaklega um sundurliðun á fjárveitingum hennar að ræða í greinargerð minni um framkvæmdaáætlunina, þá er það alveg rétt. Það er aðeins tekið fram, hvaða fé sé til ráðstöfunar. Eins og hv. þdm. mun væntanlega kunnugt, vann Efnahagsstofnunin að gerð þessarar áætlunar og hefur fyrir nokkru afhent ríkisstj. atvinnumálakafla hennar. Það hafa verið nokkuð skiptar skoðanir um það, hvernig sá kafli gæti litið út. Sumir hafa talið, að það væri hægt að setja þar upp nokkuð nákvæma áætlun um það, hvaða mannvirki ætti að reisa og hvar þau jafnvel ættu að vera. Ég hef aldrei verið þeirrar skoðunar, að það væri auðið, eða þeir menn, sem að áætluninni hafa unnið. Hitt er annað mál, að í áætluninni er að finna lauslega sundurliðun á því, til hvers talið er af hálfu þeirra, sem að áætluninni stóðu, eðlilegt að verja þessu fé, þ.e.a.s. til hvers konar framkvæmda, ekki nákvæmlega til tiltekinna verksmiðja eða tiltekinna hafnargerða eða annarra opinberra framkvæmda, heldur hvernig hugsa mætti sér, að eðlilegt væri vegna uppbyggingar landshlutans að verja fénu til einstakra liða í framkvæmdum. Það er að finna í áætluninni.

Það var niðurstaðan hjá ríkisstj. að fela Atvinnujöfnunarsjóði að sjá um framkvæmd áætlunarinnar að því leyti að ráðstafa þessu fé í samræmi við það, sem áætlunin mælti nánast fyrir, að gert yrði og talið væri þjóðhagslega skynsamlegast að gera á hverju svæði. Það hefur á fyrsta ári þessarar áætlunargerðar verið ráðstafað töluverðu fé, að því er ég hygg á mjög skynsamlegan hátt almennt séð, með því að leggja áherzlu á að hraða ýmsum opinberum framkvæmdum. Það fé endurgreiðist fljótt aftur, og má þá endurnýja þær lánveitingar til einhverra annarra þarfa á svæðinu, þannig að með þessu móti má ráðstafa fénu oftar en einu sinni og jafnvel oftar en tvisvar til að hraða ýmsum mikilvægum framkvæmdum, og er það að sjálfsögðu mikils virði.

Það hafa þegar verið teknar einstakar ákvarðanir um ýmsar lánveitingar inn á þetta svæði til framkvæmda, sem talið hefur verið rétt í áætluninni sjálfri, að hagkvæmt væri að vinna einmitt að í þessum landshluta, og nefni ég t.d. skinnavinnslu, til þess að nefna eitthvað ákveðið. Vitanlega var ekkert fullyrt um það, hvar skinnavinnsluverksmiðju skyldi reisa. Það er nú líka mikið vandamál að gera upp á milli staða þannig, en auðvitað veltur framkvæmdin öll á því, að fyrir hendi séu á stöðunum framkvæmdaaðilar, sem vilja koma þessum framkvæmdum áleiðis. Það hefur gerzt í þessu sambandi, að tveir aðilar, annar á Akureyri, Samband ísl. samvinnufélaga, og hinn á Sauðárkróki, hlutafélag þar, hafa ráðizt í það að byggja þessar verksmiðjur. Hefur verið talið rétt að veita lán til þeirra, og fleiri framkvæmdir hafa ýmist verið ákveðnar eða í athugun, en ég held, að allir hv. þm. geti orðið sammála um, þegar þeir athuga málin nánar, að það er fyrir fram útilokað að ákveða nákvæmlega, til hvers konar verksmiðja eða hvers konar atvinnurekstrar þessu fé skuli varið. Það verður að skoðast hverju sinni miðað við þær hugmyndir, sem upp koma.

Atvinnujöfnunarsjóður mun fyrir sitt leyti leggja fram aðstoð, eftir því sem óskað verður, og leiðbeiningar varðandi fyrirtæki, sem menn kynnu að hafa áhuga á að koma á laggirnar á þessum stöðum, og einnig líta vinsamlegum augum óskir um að hraða opinberum framkvæmdum í bili með bráðabirgðalánum. En að hinu leytinu held ég, að við getum öll orðið sammála um, að það er auðvitað alveg vonlaust að koma með áætlunargerð á þann hátt að ákveða fyrir fram og leggja fyrir Alþ. einhvern lista yfir framkvæmdir. Þetta kemur smám saman, og því ekki hægt að gera þetta allt í einu, ef við hefðum yfirlit yfir um 100 millj. kr. eða eitthvað slíkt. Þannig ber málin ekki að. Þetta er að smáþróast með mismunandi hraða, og auðvitað er ekki hægt að láta eina framkvæmd bíða eftir því, að athugun á annarri sé lokið. Þetta held ég nú, eftir atvikum, að við ættum öll að geta verið sammála um að svona þarf að vinna. Hitt er annað mál, að ég er hv. þm. alveg sammála um það, að auðvitað á þetta allt að gerast fyrir opnum tjöldum, enda ekki ætlunin að leyna með nokkrum hætti því, sem þarna er gert, enda stendur nú að endanlegri ráðstöfun fjárins stór þingkjörin nefnd, þ.e.a.s. stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs, og svo vill nú til, að hún er eingöngu skipuð þm.