16.04.1970
Efri deild: 71. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fjhn. fyrir fljóta og greiða afgreiðslu á þessu máli og fyrir undirtektir hennar í meginefnum við frv. Það er vitanlega ekkert að undra, þótt fram komi einhver sérsjónarmið. En mér er það gleðiefni, að það hefur ekki verið farið inn á þá braut að flytja till. um margvíslegar nýjar framkvæmdir, sem ég sé, að allir hv. nm. hafa gert sér grein fyrir, enda væri það óraunhæft, þar sem þegar stendur nokkuð út af, eins og ég gerði grein fyrir í framsögu minni, þ.e. ekki er til hlítar búið að afla þess fjár, sem gert er ráð fyrir að þurfi til þess að standa undir þessari framkvæmdaáætlun. Því fer þar af leiðandi víðs fjarri, að það sé möguleiki til þess að leggja út í meiri framkvæmdir en þar er lagt til, nema eitthvað sé fellt brott.

Hér er að vísu gerð ein brtt., sem hnígur í þessa átt, og það er um hækkun á fjárframlögum til rafvæðingar í sveitum. Þessi brtt. er að mínu mati ástæðulaus og kemur raunar ekki að neinu gagni. Það stafar af því, að það liggur alveg ljóst fyrir, að það verður ekki framkvæmt meira í sveitarafvæðingunni á þessu ári en þegar er búið að afla fjár til. Það er gert ráð fyrir því, að eftir ýmsum leiðum, að meðtöldum þeim 15 millj., sem hér er ætlunin að afla, verði unnið að sveitarafvæðingu fyrir 66 millj. kr. á þessu ári. Þá eru meðtalin þau lán, sem boðin hafa verið af ýmsum aðilum til að hraða lagningu lína. Hér er um að ræða margfalt meira fé en áður hefur verið til ráðstöfunar í þessu sambandi. Til framkvæmdanna sjálfra munu fara um 62 millj. því að 4 millj. ganga til endurgreiðslu lána, og Rafmagnsveitur ríkisins hafa tjáð mér, að það væru sáralitlar líkur til þess, þótt meira fé væri til ráðstöfunar, að það yrði hægt að hagnýta það á þessu ári.

Ég skýrði frá því í framsöguræðu minni með frv., að það væri ætlunin að ljúka á næsta ári lagningu allra lína innan við 1.5 km og það væri auðið að gera með því fé, sem ætlunin er nú að afla. Það er ljóst við endanlega samþykkt áætlunarinnar fyrir þetta ár og næsta ár, sem þegar hefur verið ákveðin af hálfu orkumálarn. í samráði við orkuráð, að það verður mjög auðvelt að ljúka lagningu línanna, svo sem ég gerði grein fyrir. En það mundi sem sagt ekki hraða neinu, þó að það yrði nú farið að afla meira fjár í þessu skyni. Það kann að vera, að það þurfi að afla meira fjár á næsta ári til þess að ljúka þessu, en það verður þá gert þannig, að það verður undir öllum kringumstæðum við það staðið, sem ég hef skýrt frá í þessu sambandi, að þetta verði lagt á þessu og næsta ári.

Önnur brtt. hefur verið flutt í sambandi við framtalsfrelsi spariskírteina, og hefur sú till. áður verið hér flutt og nokkrar umr. um hana orðið. Ég skýrði frá því í framsöguræðu minni með frv., að það væru vissulega ýmsir annmarkar á því að hafa undanþegið framtalsskyldu bæði spariskírteini og sparifé, og ég get tekið undir það, en ég gerði jafnframt grein fyrir því, að það mál allt væri í heildarathugun og mundi vera að vænta till. um það, hvernig á því yrði tekið í sambandi við skattalagabreytingar, sem lagðar verða fram á næsta þingi eða væntanlega á næsta hausti, þannig að það hafi ekki verið talin ástæða til þess að gera hér á neinar breytingar, þar sem heildarstefnan í þessu sambandi hefði ekki verið mörkuð. Ég tel, að það að fara að gera breytingu á þessu nú, mundi eingöngu valda vissum vandræðum, því að menn vissu ekki, hver framhaldsstefnan í þessum málum yrði, og geta leitt til þess eins að valda vandræðum við endursölu á spariskírteinum. Nú er gert ráð fyrir, að helmingi hærri fjárhæðar verði aflað en áður hefur verið gert. Þannig gæti þetta orðið til að torvelda þá fjáröflun, sem hér hefur verið um að ræða. Málið þarf að skoðast í heild, þannig að menn viti, hvaða hlunnindi eru varðandi hin ýmsu sparnaðarform, áður en farið er að breyta þeim reglum, sem gilda um eitt þessara sparnaðarforma, miðað við það, sem gilt hefur undanfarin ár.

Af þessum ástæðum sé ég mér ekki fært að mæla með því, að þessi brtt. verði samþykkt frekar en undanfarin ár, en tek hins vegar undir það, að þetta er vandamál, sem þarf að skoða í sambandi við framtal yfirleitt. Ég get t.d. getið þess, eins og ég vék að í framsöguræðu minni um skattafrv. í hv. Nd., að það er verulegt vandamál, að sparifé er ekki framtalsskylt, vegna þess að þá er ekki möguleiki til þess að sannprófa, að fylgt sé þeim fyrirmælum skattalaga, að því aðeins séu skuldir frádráttarbærar eða vextir af þeim, að menn eigi ekki sparifé á móti. Framtalsundanþága á sparifé veldur því, að það er eiginlega ógerlegt fyrir skattstofur að sannprófa það, hvort viðkomandi aðilar eigi rétt á vaxtafrádrætti á skuldum. Ég skal ekki lengra út í þá sálma fara.

Það hefur að vísu verið talið, og það sagði einn hv. ræðumanna hér áðan, að með því að skrá bréfin nú væri aðeins verið að tala um skráningu þeirra. Það væri ekki verið að gera annað en það að gera eigendur þeirra jafna sparifjáreigendum. Þetta er ekki rétt, vegna þess að sparifé þarf ekki að skrá á nafn. Það er hægt að leggja það inn á banka án þess að skrá það á nafn. Svo eru vissar eignir líka, sem engin leið er að hafa eftirlit með, þótt miklar séu, eins og vikið var að af hv. frsm. n., eins og t.d. búslóð. Menn gáfust upp fyrir nokkrum árum að reyna að hafa eftirlit með slíku, það er gersamlega vonlaust verk. Áður var þetta talið fram og framtalsskylt; hlægilegar fjárhæðir voru þar taldar fram, þannig að það þótti miklu eðlilegra að fella skattálagningu á búslóð niður.

Varðandi þá fsp. eða þær fsp., tvær í raun og veru efnislega, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði hér, skal ég aðeins segja þetta:

Fyrri fsp. var um það, hvaða lánstími, vextir og önnur lánskjör mundu verða á þessum bréfum. Það er látið í vald fjmrh., og ég er hv. þm. sammála um, að það er að sjálfsögðu rétt að hafa þau kjör ekki girnilegri en ástæða þykir til, og það kann vel að vera, að þau séu nokkuð góð. Að vísu hefur það verið mjög mismunandi á hinum ýmsu tímum, hvað það hefur gengið auðveldlega að selja þessi bréf, og fer það nokkuð eftir því ástandi, sem er á peningamarkaðinum, þannig að mjög vandséð er, hvernig hægt er að haga þessum kjörum, og ég veit, að allir hv. þdm. skilja, að það er í rauninni ógerlegt að hringla með þetta frá ári til árs. Það mundi valda slíkri óvissu fyrir alla, sem keyptu þessi bréf, að það er ekki hægt, og á það ekki sízt við um framlengingu eða endurkaup hinna gömlu bréfa fyrir ný bréf. Ég geri því ráð fyrir því, án þess að ég þori að fullyrða það, að það muni verða sömu lánskjör á þessum bréfum og sama viðmiðun, þ.e.a.s. við byggingarvísitölu, eins og verið hefur undanfarin ár. Vextir af bréfunum eru, eins og hv. þdm. er vafalaust kunnugt, nokkuð mismunandi. Ef bréfin eru leyst út eftir 3 ár, eru aðeins 5% vextir, en vextirnir hækka, ef bréfin eru lengur, þannig að á bréfum, sem standa allan lánstímann eða um 12 ára bil, eru meðalvextir 6%. Vona ég, að þessu sé þá svarað á viðhlítandi hátt.

Ég skal fúslega játa það, varðandi það atriði, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sérstaklega gerði hér að umtalsefni, þ.e. fóðurvöruinnflutning, þá er ég ekki nægilega sérfróður um það. Það er auðheyrt, að hann hefur að einhverju leyti kynnt sér það mál mjög vendilega, og er ekki nema gott um það að segja, og sízt af öllu skal ég lasta það, að það komi hér fram talsmaður hins frjálsa framtaks. En ég hef nú ekki fyrir mér neinar ákveðnar tölur um, hvað það kostar að flytja þetta út á land og hvaða áhrif það mundi hafa, ef farið yrði út í að byggja þessa birgðageymslu hér, eða kornhlöðu, sem svo er kölluð, en veit það eitt, að það er mat þeirra aðila, sem að þessari framkvæmd standa, að þetta mundi valda verulegum sparnaði og aukinni hagkvæmni á margan hátt í sambandi við fóðurvöruinnflutning til landsins.

Að þessari kornhlöðu standa fleiri aðilar en 3, sem hafa flutt inn meginhluta fóðurbætis til landsins til þessa, þ.e.a.s. Samband ísl. samvinnufélaga, Fóðurblandan hf. og Mjólkurfélag Reykjavíkur. Það munu vera einhverjir einkaaðilar hér fyrir utan, og er ekkert nema gott um það að segja. Þessum aðilum hefur ekki verið gefin nein yfirlýsing um það, að þeir fengju einkarétt til þess að flytja til landsins. Þeir eru að sjálfsögðu háðir því að keppa við aðra aðila, sem geta boðið vörur með betra verði. Hins vegar er það ákaflega hæpinn grundvöllur til viðskipta jafnt um þessar vörur sem aðrar að ætla t.d. að miða verð þeirra við það, sem kann að vera í bili niðurborgað eða selt á niðurgreiddu verði, eins og hv. þm. sagði að hefði gerzt í Danmörku. Það eru mjög vafasamir viðskiptahættir, og má alltaf búast við, að menn kippi að sér höndunum með það.

Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, þá hefur einn stærsti liðurinn í sambandi við PL-480 lánin verið innflutningur á fóðurvörum, og hingað til hefur það þótt hagkvæmt að kaupa þessar vörur með þessum hætti. Eins og hv. þm. sagði sjálfur, eiga þessar vörur að seljast á alþjóðlegu markaðsverði, og þar af leiðandi á ekki að vera kostnaðarsamara að kaupa þær en aðrar vörur. Eftir því sem þær eru keyptar í stærri stíl, þá hlýtur að mega samkvæmt alþjóðlegum viðskiptareglum komast þar að hagkvæmari kjörum, a.m.k. hafa þeir aðilar, sem að þessari framkvæmd standa, ekki talið á neinn hátt vandasamt að gera ráð fyrir, að þeir á næstu árum a.m.k. gætu flutt þennan fóðurbæti inn frá Bandaríkjunum, og það er í rauninni eina ástæðan til þess, að þessar lánveitingar eru til umræðu, að gert er ráð fyrir, að það verði bundið því skilyrði, að þessar fóðurvörur verði á næstu árum fluttar frá Bandaríkjunum til þess að tryggja það, að við eigum kost á þessum lánum á næstu árum, ef þær eiga að verða á boðstólum. Verði það ekki, þá er heldur ekki það skilyrði fyrir hendi á sama hátt og verið hefur, því að hér er um mjög hagkvæmt lánsfé að ræða, og vitanlega skiptir það þjóðfélagið ekki litlu máli, að það sé hægt að nýta þetta fé.

Þetta er eina ástæðan fyrir því, að þetta er tekið inn í þetta frv., því það er rétt, eins og hv. þm. sagði, að það hefur ekki verið venja hér að taka hér inn lánveitingar til einkaaðila. Nú er að vísu ætlunin, að þetta verði endurlánað til Framkvæmdasjóðs. Það má segja, eins og hann sagði, að þetta sé sérstök fyrirgreiðsla. Hann spurðist fyrir um það, hvort aðrir aðilar gætu vænzt sömu fyrirgreiðslu. Ég geri ekki ráð fyrir því, eins og sakir standa með þetta fé, vegna þess að þetta er bundið því að auðvelda hagnýtingu á PL-480 láninu, og það hefði sem sagt ekki verið hægt að veita þessum aðilum þessa umræddu aðstoð, nema því aðeins að þeir ætluðu sér að kaupa þessar vörur frá Bandaríkjunum og þannig í rauninni tryggja möguleika á því, að hægt sé að afla þessa fjár, sem þeir eiga að fá, sem ekki hefði verið hægt með öðrum kosti á þennan hátt. Ég held því, að þetta þurfi ekki að teljast neitt undarlegt, þegar þetta er skoðað niður í kjölinn, og bak við þetta liggja engar dularfullar ástæður.

Hvort Framkvæmdasjóður kunni að lána öðrum aðilum, sem byggja hér fóðurgeymslustöðvar eða kornhlöður, skal ég ekkert um segja. Það hefur ekkert verið til umtals, og þar að auki vil ég ekkert fullyrða um, að sá sjóður veiti ekki einhverja fyrirgreiðslu í því skyni. En það verður ekki gert með þessum hætti, sem ég held, að allir hv. þdm. hljóti að geta efnislega fallizt á að sé nokkuð sérstakur, þar sem forsenda þess, að hægt er að veita lánið, er sú, að það sé hægt að afla þess með þessum hætti, sem annars hefði ekki verið, og leggja grundvöll að því, að hægt sé að hagnýta PL-480 lánin á næstu árum, sem ella kynni að vera takmarkað. Ég get svo ekki á þessu stigi svarað þessu nánar, en ef hv. þm. vill fá einhverjar tölulegar upplýsingar um það, þá hygg ég, að það sé hægt, en ég hef þær ekki í höndum hér í dag.

Þá vil ég aðeins að lokum gera hér grein fyrir brtt., sem ég er knúinn til þess að flytja við frv. og er að vísu fyllsta ástæða til þess að afsaka, að hún kom ekki til hv. n. eða var í frv. í upphafi, þar sem þar er um nokkuð veigamikla breytingu að ræða. Ástæðan er sú, að það var ekki ljóst þá, að það mundi þurfa að fá umrædda lántökuheimild. Af því að till. er skrifleg, ætla ég að leyfa mér að lesa hana upp hér og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni, en hún er við 5. gr. og aftan við gr. komi ný gr., svo hljóðandi: „Heimilt er fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán hjá Alþjóðabankanum og öðrum lánastofnunum að fjárhæð allt að 500 millj. kr. eða jafnvirði hennar í erlendum gjaldeyri og endurlána fé þetta handa Vegasjóði til lagningar hraðbrauta.“

Ég gerði grein fyrir því í sambandi við þetta frv. í upphafi, að einn veigamikill þáttur í framkvæmdum þessa árs væru hraðbrautaframkvæmdir, og lántökuheimildir í því skyni væri að finna í vegáætlun. Nú er það skoðun sérfróðra manna í þessu efni, að ekki sízt þar sem fyrirhugað er að taka lán hjá Alþjóðabankanum, þá sé mjög æskilegt að hafa þessa lántökuheimild í þessu frv., en ekki í vegáætlun, hún sé þar ekki nægilega skýr, til þess að bankinn geti látið sér hana nægja, og því tel ég mig þurfa að leggja til, að þetta verði tekið inn í frv. Hér er vitanlega ekki efnislega um neina nýja heimild að ræða, eins og öllum hv. þdm. er vitanlega kunnugt, þar sem hærri fjárhæð en þetta er þegar í vegáætlun, þannig að hér er aðeins um hluta þeirrar fjárhæðar að ræða, en ekki viðbót við það, sem þar er farið fram á. Ég vildi því leyfa mér að vænta þess, að hv. þdm. gætu fallizt á að samþykkja till. með hliðsjón af því, að hér er nánast og eingöngu um formlegt atriði að ræða, en ekki efnislega verið að fara fram á að taka ný lán, sem ekki hefur verið gert ráð fyrir.

En það varð að ráði með mér og formanni n., að það væri rétt, að ég flytti till., og náttúrlega, ef þess er óskað, þá er auðvitað sjálfsagt að taka hana aftur til 3. umr., þannig að hv. n. geti athugað hana milli umr., ef ástæða þykir til. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða um þetta frv. frekar eða það, sem fram hefur hér komið, en vil leyfa mér að biðja hæstv. forseta, þar sem hér er um skriflega brtt. að ræða, að leita afbrigða fyrir henni.