17.04.1970
Efri deild: 73. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það þýðir nú kannske ekki lengur að deila við dómarann um það atriði, sem ég gerði hér nokkuð að umtalsefni í gær, þ.e.a.s. þá óvenjulegu ráðstöfun að lögfesta stórfelld lán til einkaaðila í frv., sem annars fjallar um opinberar framkvæmdir. En við 2. umr. málsins hafði ég hugsað mér að gera svolitla aths. við ræðu hæstv. fjmrh., en varð þó að falla frá því, vegna þess að ég þurfti óhjákvæmilega að hverfa af fundi.

En ég vil þó ekki láta málið fara algerlega athugasemdalaust frá minni hálfu eftir það, sem fram er komið, þó að búið sé að samþykkja þetta. Kemur þar sérstaklega til, að ég vil lýsa alveg sérstakri furðu minni á þeim svörum, sem hæstv. fjmrh. gaf mér við hógværum og sjálfsögðum fyrirspurnum, sem ég held, að þd. hefði átt heimtingu á að fá greinileg svör við, þar sem um svo óvenjulegt mál eins og þetta er að ræða.

Eins og ég sagði í gær, þá tel ég, að það þurfi að vera alveg sérstök og mjög þung rök fyrir því, ef sá háttur er hafður á að lögfesta sérstaka fyrirgreiðslu til einkaaðila með þeim hætti, sem hér er gert. En þeim spurningum, sem verulegu máli skipta í sambandi við þetta, og sérstaklega, hvort hér væri um þjóðhagslega hagkvæma framkvæmd að ræða og hvort hún væri líkleg til að hafa áhrif til lækkunar á fóðurvöruverð, sem er ákaflega mikilvægt fyrir okkar verðlagsmál öll, fékk ég ekki svarað með öðru en því, að ráðh. játaði, að hann væri þessu máli svo ókunnugur, að hann gæti ekki svarað þessu.

Þetta er mér þeim mun meira undrunarefni, sem þessi hæstv. ráðh. er kunnur að því að vita sérlega góð skil á öllum þeim málum, sem hann fjallar um, og svara öllum fyrirspurnum, sem til hans er beint, greinilega og þannig að ekki sé um villzt. Ég verð að segja þess vegna, að svör hans hér í gær, svo ófullkomin og út í hött sem þau voru, komu mér mjög á óvart og alveg sérstaklega þar eð þau voru af hendi þessa ráðh. Ég ætla ekki að gera þetta að miklu umtalsefni og kannske ekki ástæða til, þar sem hann reyndi þó með þessum sérstaka hætti að svara, en raunverulega það eina, sem hann hafði verulega um málið að segja, var, að þetta væri gott fyrirtæki að mati þeirra, sem að því stæðu. Hver er það, sem vill fá lán, en telur ekki sitt fyrirtæki vera gott frá sínu sjónarmiði séð? En það er vitanlega ekki þungamiðja þessa máls.

Þá sagði hann, að það hefðu ekki reynzt nein vandkvæði á því fyrir þá aðila, sem hér ættu hlut að máli, að flytja korn frá Bandaríkjunum vegna verðsins. Þetta er ekki rétt. Það hafa einmitt verið mikil vandkvæði á því að flytja korn frá Bandaríkjunum, vegna þess að það hefur verið dýrara. Og ef svo er, að það eru engin sérstök vandkvæði á þessu, hvers vegna er þá nauðsynlegt að lögfesta 30–40 millj. kr. hjálp til einkaaðila til þess að flytja inn korn frá þessu landi, á meðan það er ódýrara í Vestur-Evrópu?

Ég held líka, og því hliðraði hæstv. ráðh. sér alveg hjá að svara, að það sé alveg auðsætt, að ef þarna sé um að ræða, eins og hann upplýsti eða sagði í sinni fyrstu ræðu hér, stærstu kornvöruinnflytjendur landsins, að þeir steypi sér saman í einn hring til þess að kaupa og þá væntanlega líka að selja fóðurvöru, að þá sé hér verið að hjálpa til við hringamyndun, og hefði ég haldið, að það væri a.m.k. ekki yfirlýst stefna hæstv. ríkisstj., að beita beinlínis opinberum aðgerðum til þess að auðvelda það. Það er vitanlega auðsætt, ef það er rétt, sem ég reyndar nú er farinn að draga í efa, að hér sé um þessa aðila að ræða, sem upplýst hefur verið, að þá muni þeir auðvitað semja sín í milli um verð bæði á þeim fóðurbæti, sem þeir flytja inn frá Bandaríkjunum og eins annars staðar frá. Það gefur auga leið. Og ég vil segja það, þótt hæstv. ráðh. væri svona með glensi að fagna því, að hann sæi hér alveg nýjan talsmann frjáls framtaks og samkeppni, að ég, án þess að ég ætli að fara í neinn mannjöfnuð við hæstv. ráðh., held, ef út í það er farið, að ég sé alveg eins mikill stuðningsmaður heilbrigðrar verzlunarsamkeppni og hann, og sýnilega í þessu máli meiri.

Svo kemur enn eitt til, sem ég get ekki stillt mig um að benda hv. þd. á, þótt of seint sé, því að meiri hluti hennar sættir sig sýnilega við, að samþykkja þetta atriði frv. án þess að hafa um það nokkrar viðhlítandi upplýsingar. Það er ekki gott til afspurnar, en það er staðreynd, sem þegar hefur komið fram, og er ekkert við því í sjálfu sér að segja. En svo vill til, að ég rakst hér í morgun á Lögbirtingablaðið frá 8. apríl, og þar er tilkynning til hluthafaskrár Reykjavíkur um stofnun þessa góða fyrirtækis að dómi hæstv. ráðh. En þar er enginn upp talinn af þeim aðilum, sem hér hefur verið sagt, að stæðu að þessu. Þar er hvorki Samband íslenzkra samvinnufélaga, Fóðurblandan né Mjólkurfélag Reykjavíkur, heldur eru það, að mér sýnist fljótt á litið, á milli 10 og 20 einstaklingar. Sumir af þeim munu að vísu vera starfsmenn hjá þessum fyrirtækjum. Þar er einnig sagt, að hlutafjársöfnun sé lokið, svo það virðist ekki vera um það að ræða, að þessir aðilar, sem hafa verið bornir fyrir brjósti í sambandi við þetta mál, ætli að vera neinir þátttakendur í þessu hlutafélagi. Hér stendur í þessu blaði: „Hlutafjársöfnuninni er lokið og greitt hlutafé 1620 þús. kr.“ Mér sýnist þess vegna á þessu, að það sé ekki hið einasta, að þdm. eigi að sætta sig við það í þessu máli að fá algerlega ófullnægjandi upplýsingar, heldur séu þeim beinlínis gefnar rangar upplýsingar og ætlazt til þess, að þeir byggi sínar atkvæðagreiðslur og ákvarðanir á þeim, og það hlýt ég að víta. Eins og ég sagði áðan, er ekkert við því að segja, það er staðreynd, sem ekki verður umdeild, að meiri hl. hv. þd. telur sér enga þörf að kynna sér þetta mál eða vita einhver deili á því og ekki ráðh. heldur, og er það hvorugum aðilanum til sóma.