17.04.1970
Efri deild: 73. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég get nú ekki verið að karpa mikið um þetta mál til viðbótar því, sem áður hefur verið um það sagt, og ég sé ekki, að það þurfi að vera nein vansæmd fyrir hv. þd., þó að hún hafi litið á þetta mál þeim augum, sem gert hefur verið.

Ég vil láta það koma fram, vegna þeirra upplýsinga, sem hv. þm. gat um, og þeirrar upplesningar úr Lögbirtingablaði, sem ég efast ekkert um, að hann hafi rétt lesið það, sem þar er skráð, þá er frá þessu máli gengið með öðrum hætti. Það hefur verið sett það skilyrði, að hlutafé í þessu fyrirtæki verði 6 millj., og að því hefur verið gengið. Það mun ekki verða veitt þetta lán, nema slík hlutafjársöfnun eigi sér stað.

Varðandi það atriði, hvort þessi fyrirtæki, sem ég gat um í mínu máli, standa beint sem aðilar að þessu hlutafélagi, skal ég ekki segja um varðandi þá skráningu, eins og hún birtist þarna. En þetta fé mun ekki verða lánað, nema þessir aðilar standi ábyrgir fyrir því láni frá mínum bæjardyrum séð verandi ábyrgir fyrir endurlánum ríkissjóðs. Ég er ekki í neinum vafa, að það er hægt að tryggja þetta fé, því að það mun verða gert að skilyrði, að þessir þrír aðilar, sem ég gat um, standi ábyrgir fyrir lántökunni. Hvort þeir sem félög standa að þessu fyrirtæki, veit ég ekkert um, en ég veit, að þeir standa á bak við það. (Gripið fram í.) Ég veit það, vegna þess að þessir aðilar þrír hafa verið þeir aðilar, sem hafa snúið sér til ráðuneytanna og þá fyrst og fremst landbrn., sem eðli málsins samkvæmt hefur athugað þetta mál og hvort það væri í þágu landbúnaðarins, að þetta væri gert, og það er fyrst og fremst hlutverk þess rn. að meta það fremur en fjmrn., hvað sé hagkvæmt landbúnaðinum, og það er skoðun landbrn., að þessi tilhögun sé hagkvæm. Mér er kunnugt um það, því að ég hef bréf í höndunum frá þessum aðilum öllum, þessum þremur félögum, sem ég gat um, Mjólkurfélagi Reykjavíkur, Fóðurblöndunni hf. og Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem er undirritað af forstjórum þeirra, að þeir standi allir að þessu fyrirtæki og beri ábyrgð á því. Það er það, sem máli skiptir, og það hefur ekkert verið ranglega upplýst í því efni. Þetta vil ég aðeins láta koma hér fram.

Varðandi aftur hina hlið málsins sé ég ekki, að það sé með neinum endemum, þó að ég segi það, að frá mínum bæjardyrum séð skiptir það meginmáli að fallast á það að veita þetta lán. Með þessum hætti er auðið að tryggja, að hægt sé að hagnýta þetta lánsfé, sem þarna er í boði, af því að þessir aðilar vilja binda sig við það að kaupa korn frá Bandaríkjunum. Það er mat þeirra og einnig mat rn., sem hefur kannað málið, að þetta sé hagkvæmt fyrir bændur og með þessari sameiningu sé hægt að tryggja þetta korn með hagkvæmara verði, einnig frá Bandaríkjunum. Það er hið einfalda, sem ég held, að liggi í augum uppi, að þegar í stærri stíl er staðið að innkaupum, þá er hægt að gera það með hagkvæmari hætti. Þessi tilhögun, sem hugsuð er á flutningi kornsins, og aðrar breyttar starfsaðferðir, sem verða við tilkomu þessarar kornhlöðu, bæta alla viðskiptaaðstöðu og gera mögulegt að selja þessa vöru með hagkvæmari hætti.

Eins og ég sagði í gær, þá er ekki lokað fyrir neina samkeppni, vegna þess að ef einhverjir aðilar óska eftir að flytja inn korn úr öðrum áttum, þá er ekki ætlunin að veita neinum einkarétt til að flytja fóðurkorn til landsins. Hér er ekki um einokun að ræða.

Ætti að líta á þetta sem einokun, þá var slæmt, að þetta mál var ekki komið fram, áður en hér var fellt í d. frv., sem fjallaði nákvæmlega um þetta mál, um samkeppnishömlur og hringamyndun, sem ég held, að hv. þm. hafi verið á móti. En sleppum því, það skiptir ekki máli í þessu sambandi, og ég er ekkert að deila á hann fyrir það. Það getur hvor haft sína skoðun á því, hvort það er of mikil samstaða um innflutning til landsins. En kjarni málsins er sá, að með þessu er ekki ætlunin að veita neina einokun, þannig að bændur verði algerlega í höndunum á þessum aðilum. Auk þess vil ég halda, að hér sé um samtök bændanna sjálfra að ræða, þannig að það séu ekki miklar líkur til þess, þar sem veigamestu aðilarnir eru samvinnusamtök bænda, að þeir hafi sérstakan áhuga á því að okra á bændum með fóðurbæti.