17.04.1970
Efri deild: 73. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja frekar umr. í hv. d. um þetta efni. Ég vil aðeins segja, að ég hef út af fyrir sig aldrei vefengt, að Framkvæmdasjóður mundi tryggja þetta lán, sem þarna á að veita. Um það hefur aldrei verið nein deila milli mín og hæstv. ráðh. Ég hef auðvitað gert ráð fyrir því, að þessi stofnun gengi forsvaranlega frá tryggingu lánsins. Hann segir, að það standi allt eins og stafur á bók, sem um þetta hefur verið sagt, vegna þess að þessir þrír aðilar muni gerast ábyrgðarmenn að láninu fyrir einstaklingana.

En við 1. umr. málsins þá sagði hæstv. ráðh., og ég veit að hann rengir það ekki, að þarna væri um að ræða samtök þessara aðila. En samkvæmt þessari heimild, sem ég tilgreindi, Lögbirtingablaðinu, þá virðist það ekki vera, nema þá að þessi fyrirtæki séu að fela sig á bak við leppa. Það verð ég að segja, að sá háttur er ekki neitt sérstaklega til þess að hæla honum fyrir, að ýta undir stórfellda aðstoð við þetta fyrirtæki. Ráðh. sagði, að þarna væri um samtök bændanna sjálfra að ræða og þess vegna ætti þetta allt að vera tryggt. Ég spurðist fyrir um það hjá formanni Stéttarsambands bænda, hvort bændasamtökin hefðu athugað þetta mál og myndað sér einhverja skoðun eða afstöðu til þess. Hann kvað svo ekki vera. Þeir hefðu ekki enn fengið neinar þær upplýsingar, sem þeir gætu byggt á afstöðu sína í þessu máli. Hins vegar væri hugmyndin að gera það, en enn sem komið væri lægi það ekki fyrir. Ég held þess vegna, að það sé alveg auðsætt, að hv. þd. hefur ýmist fengið rangar upplýsingar um þetta mál eða þá alveg ófullnægjandi upplýsingar. Það er það, sem ég er að víta. Ég hef aldrei fullyrt, að ekki kæmi til greina, að þetta fyrirtæki ætti rétt á sér. Ég hef haldið hinu fram, að hv. þd. ætti heimtingu á því að fá upplýsingar, sem hún gæti byggt á einhverjar skoðanir á þessu máli. Það hefur ekki verið gert.