16.12.1969
Sameinað þing: 24. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1970

Frsm. meiri hl. (Jón Arnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur milli umr. tekið til nánari athugunar og afgreiðslu nokkur erindi, sem n. hafði ekki að fullu lokið athugun sinni á fyrir 2. umr. málsins. Þá hefur nú verið lokið við að gera hér grein fyrir þeim breytingum, sem verða á tekjubálki frv., en það er bein afleiðing í sambandi við hækkun söluskattsins, eins og nú er gert ráð fyrir, en það er hækkun úr 7 1/2% í 11%. Nemur sú hækkun, sem af þessu leiðir, alls um 760 millj. kr., en þar frá dregst hluti sveitarfélaga, sem rennur í Jöfnunarsjóð, en hann er 8% af söluskattsupphæðinni, og verður þá nettóhækkun til ríkissjóðs um 700 millj. kr. Hins vegar er gert ráð fyrir, að fyrirhuguð lækkun á aðflutningsgjöldum muni fela í sér lækkun á tekjum, sem nemur 377.5 millj. kr. Þar af lækka greiðslur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 19.5 millj., þannig að nettólækkun á tekjum ríkissjóðs vegna þessa verður um 360 millj. kr. En auk þess er lagt til, að liðurinn innflutningsgjald af bifreiðum og bifhjólum falli niður, en hann var að upphæð 50 millj. kr.

Lagt er til, að liðurinn vitagjald hækki um 1 millj., en vitagjaldið hefur staðið óbreytt um nokkur undanfarin ár, svo sem fram kemur í till. meiri hl. n. við gjaldabálkinn og sem ég mun síðar koma að. Verður þessari hækkun vitagjaldsins varið til hækkunar á gjaldfærðum stofnkostnaði vitanna. Verði þessar brtt., sem meiri hl. fjvn. hefur leyft sér að bera fram við tekjubálk frv., svo sem fram kemur á þskj. 176, samþ., leiðir af því, að nettótekjur ríkissjóðs hækka um 291 millj. kr.

Um þær brtt., sem meiri hl. fjvn. flytur á þskj. 176 og 177, er það að segja, að innan n. náðist ekki samstaða um afgreiðslu þeirra: Hins vegar varð um þær brtt., sem meiri hl. flytur og eru við gjaldabálk frv., fullt samkomulag innan n., þó að þær séu fluttar af meiri hl. einum.

Ég mun þá næst gera grein fyrir þeim brtt., sem falla undir gjaldabálk frv., og kemur þar fyrst till. um hækkun á fjárveitingu til Háskóla Íslands. Launaliðurinn hækkar um 250 þús. kr. og er þá gert ráð fyrir, að fjölgað verði starfsliði við háskólann um einn bókavörð. Næst koma till., sem falla undir fræðslumálaskrifstofuna. Er þar fyrst till. um hækkun, sem nemur 500 þús. kr., og undir viðfangsefni kemur nýr liður, til námskeiðahalds fyrir kennara, sama upphæð. Liður þessi, sem af vangá hafði fallið niður, er í fjárl. yfirstandandi árs að upphæð 300 þús. kr. Þá er lagt til, að inn komi nýr liður að upphæð 10 millj. kr. og skal upphæðinni verja til að jafna aðstöðu nemenda í strjálbýli til framhaldsnáms. Hér er um algera nýjung að ræða, en málefni, sem oft hefur verið rætt um, þó að ekki hafi komið til framkvæmda fyrr. Það er álit fjvn., að þessi fjárveiting, sem hér um ræðir, geti bætt nokkuð úr þeim mismun, sem nú á sér stað milli nemenda varðandi námskostnaðinn.

Þá gerir n. till. um skiptingu á fjárveitingu milli iðnskóla, sem í byggingu eru nú. Heildarupphæðinni, sem er í fjárlagafrv. 7.2 millj. kr., er skipt þannig, að lagt er til, að Iðnskólinn í Reykjavík fái 4 millj. 399 þús. kr., Iðnskólinn á Akureyri 1 millj. 333 þús., Iðnskólinn í Vestmannaeyjum 833 þús. og Iðnskólinn í Hafnarfirði 635 þús.

Næst er till. um hækkun á fjárveitingu til þjóðgarðsins á Þingvöllum. Lagt er til, að liðurinn gjaldfallinn stofnkostnaður hækki um 1 1/2 millj. kr., og verður þá heildarupphæðin á þessum lið um 1.600 þús. kr. N. barst erindi frá Þingvallanefnd varðandi áætlun um ýmsar framkvæmdir, sem talið er nauðsynlegt, að gerðar verði til umbóta á þjóðgarðinum. Voru nm. á einu máli um, að ekki væri unnt að komast af með lægri upphæð í þessu skyni en hér er lagt til.

Þá er lagt til, að liðurinn til ísl. listkynninga erlendis hækki um 100 þús. kr., og verður þá samtals 350 þús. Er till. þessi við það miðuð, að unnt verði að veita nokkrum listamönnum í málaralist stuðning til þess að koma á íslenzkri myndlistarsýningu í Kaupmannahöfn, sem fyrirhugað er, að haldin verði vorið 1971. Lagt er til, að liðurinn listkynning í skólum hækki um 100 þús. kr., en auk þess er till. um, að liðurinn, svo sem segir á þskj. 176, listkynning í skólum og námskeið í listiðnaði verði þannig orðaður. Fær fjárveitingin með þessu orðalagi nokkuð víðtækara starfssvið en áður hefur verið. Þá er flutt á ný till. n. um hækkaða fjárveitingu við liðinn listir, framlög. Heildarupphæðin hækkar um 1 millj. svo sem áður var lagt til. Hins vegar verður sú breyting á liðnum starfslaun listamanna, að hann hækkar um 45 þús. kr. frá því, sem áður var lagt til. Er hér aðeins um leiðréttingu að ræða til samræmis við þá hækkun starfslauna, sem ríkisstarfsmenn fá. Að öðru leyti er till. óbreytt varðandi tilgreinda 10 listamenn, sem hljóta hver um sig 125 þús. kr., en aðrir liðir breytast eins og ég hef nú gert grein fyrir.

Eins og fram hefur komið, hefur verið unnið að því um nokkurt skeið, að efnt verði til listahátíðar hér í Reykjavík og er ætlunin, að hátíðin fari fram í júnímánuði n.k. Aðilar að þessari listahátíð er fyrirhugað að verði auk menntmrn. og Reykjavíkurborgar ýmis félög og stofnanir. Hafa þessir aðilar þegar fyrir nokkru kosið sérstakt fulltrúaráð. Það er augljóst mál, að verði til þessarar listahátíðar stofnað þarf til að koma verulegt fjármagn frá ríkissjóði og Reykjavíkurborg. N. leggur því til, að tekin verði upp fjárveiting í þessu skyni að upphæð 750 þús. kr.

Þá kemur næst till. um fjárveitingu til stuðnings við íslenzkt dýrasafn. Meiri hl. endurflytur till. n. um óbreytta fjárhæð, 50 þús. kr. Það er álit nm., að enda þótt hér sé um merkilegt mál að ræða, þurfi, áður en til þess kemur að veita meira fjármagni til þessa dýrasafns, að ákveða stöðu safnsins með tilliti til framtíðarinnar.

Við 1 02 400 er tillaga um nýjan lið, stofnframlag til Fríverzlunarsamtaka Evrópu, að upphæð 1.200 þús. kr. Upphæð þessi skiptist þannig, að 50 þús. kr. er stofnframlag, sem er greitt aðeins í eitt skipti, en 1.150 þús. kr. er hins vegar áætlað sem ársframlag fyrir árið 1970.

Þá koma brtt., sem falla undir 1 03, atvmrn. Eru þar fyrst brtt., sem falla undir Rannsóknastofnun landbúnaðarins eða rannsóknir. Undir liðinn 206 03 er lagt til, að fjárveiting hækki um 500 þús. kr. Er fjárveitingu þessari ætlað að standa undir kostnaði við rannsóknir á gróðurfari beitilanda. Á undanförnum þremur árum hafa rannsóknir þessar hlotið styrk frá vísindadeild NATO, sem nemur verulegum upphæðum. Á yfirstandandi ári er styrkur þessi 10 þús. dollarar. Rannsóknir þessar er nú talið, að séu vel á veg komnar og hafi þegar haft hagnýta þýðingu. Því er lagt til, svo sem ég hef áður sagt, að umrædd fjárveiting verði samþykkt, svo að hægt verði að ljúka þessum framkvæmdum.

Hinn 7. ágúst s.l. skipaði landbrh. samstarfsnefnd sérfræðinga frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Búnaðarfélagi Íslands ásamt fyrrv. landnámsstjóra, Pálma Einarssyni. Skyldu þeir vinna að verkefnum, sem verða mættu til að forða tjóni af kali og grasbresti í framtíðinni. Þessi umræddu verkefni voru skilgreind þannig:

1. Safna saman gögnum, sem fyrir liggja nú þegar um kal og kalrannsóknir í landinu.

2. Gera till. um varnir gegn kali og grasbresti af völdum kals.

3. Að athuga, á hvern hátt sé heppilegt að endurrækta skemmd tún, þar sem kal er fyrir hendi og arfavöxtur ríkjandi.

Þessi n. tók þegar til starfa á s.l. sumri, m.a. við að kanna þau gögn, sem fyrir liggja um kal og kalrannsóknir í landinu. Hér er um merkilegt nauðsynjamál að ræða og því talið rétt að leggja til, að upp verði tekin fjárveiting að upphæð 500 þús. kr. til að standa undir kostnaði við þessar rannsóknir nefndarinnar.

Næst kemur till. við liðinn 230 03, skóggræðsla. Lagt er til, að liðurinn hækki um 750 þús. kr. Samkv. upplýsingum skógræktarstjóra var talið óhjákvæmilegt að draga verulega saman starfrækslu við uppeldi plantna í skógræktarstöðvunum að Vöglum og í Norðtungu, ef ekki kæmi til viðbótarframlag við það, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Það er því talið rétt að leggja til, að framlag til Skógræktar ríkisins vegna skóggræðslu hækki svo sem hér er lagt til eða um 750 þús. kr.

Fram hefur komið í umr. á yfirstandandi þingi, þegar rætt var um Landgræðslu ríkisins og þá sérstaklega í sambandi við þátttöku sjálfboðaliða í landgræðslustarfinu, að mikill almennur vilji virðist vera fyrir því, að nægilegu fjármagni verði varið til landgræðslunnar, svo að unnt verði að hagnýta þann áhuga og framboð sjálfboðaliða, sem nú er fyrir hendi í þessum efnum. Hér er því fyrst og fremst um þá kostnaðarliði að ræða, sem vita að kaupum á tilbúnum áburði og fræi til sáningar. Með hliðsjón af þessu er lagt til, að fjárveiting til Landgræðslu ríkisins í þessu skyni verði hækkuð sem nemur 1 1/2 millj. kr.

Þá eru næst till. n. um fjárveitingar og skiptingu á fjármagni, sem veitt er til fyrirhleðslna víðs vegar um landið. Heildarupphæðin hækkar um 50 þús. kr. frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., en að öðru leyti vísast til sérstaks lista um skiptingu milli einstakra framkvæmda svo sem fram kemur á þskj. 176. f fjárlagafrv. er lagt til að verja til landþurrkunar fjárveitingu að upphæð 480 þús. kr. Um skiptingu á upphæðinni vísast til þess, sem fram kemur í sérstöku yfirliti á þskj. 176.

Þá er till. um, að fjárveiting til Efnarannsóknastofu Norðurlands hækki um 100 þús. kr., og verður hún þá samtals 250 þús. Þessi umrædda rannsóknastofa hefur frá upphafi unnið að mestu leyti að þeim verkefnum, sem lúta að efnagreiningu á jarðvegi og rannsóknum, er snerta áburðarþörf. Nú mun hins vegar í ráði, að þessi rannsóknastofa færi út kvíarnar og taki fyrir fjölbreyttara verksvið. Með hliðsjón af því hafa forstöðumenn stofnunarinnar farið fram á aukið fjármagn, það sem hér um ræðir.

Við Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, sem tók til starfa á yfirstandandi ári, er ný deild, svo kölluð áhafnadeild. En til hennar var stofnað samkv. breyt. á l. nr. 77 frá 28. apríl 1962. Hlutverk deildarinnar er að greiða fæðiskostnað sjómanna á fiskiskipum. Árlegar tekjur eru samkv. umræddum lögum 1% af fob–verði útfluttra sjávarafurða. Samkv. áætlun, sem sjóðsstjórnin hefur látið gera um tekjur og gjöld deildarinnar á árinu 1970 var augljóst, að á mundi skorta a.m.k. 15 millj. kr. til þess að áhafnadeildin gæti staðið við sínar skuldbindingar. Í fjárlagafrv. er fjárveiting til deildarinnar 10 millj. kr., og er því lagt til að hækka þessa fjárveitingu um 5 millj. kr., svo sem fram kemur á þskj. 176.

Við bændaskólann á Hvanneyri er 1 brtt. Lagt er til, að liðurinn önnur rekstrargjöld hækki um 150 þús. kr. Upphæð þessari er ætlað að standa undir kostnaði við rannsóknastörf, sem eru á vegum skólans. – Þá er lagt til, að fjárveiting til Garðyrkjuskólans á Reykjum, gjaldfærður stofnkostnaður, hækki um 500 þús., og verður þá samtals 2.3 millj. kr.

Lagt er til, að fjárveiting til Verzlunarskóla Íslands hækki um 1 millj. 676 þús. kr. Till. n. við 2. umr. var hækkun um 1.200 þús. Sú till. var tekin aftur við þá umr. og þess óskað, að n. kynnti sér betur rekstrarþörf skólans. Að athuguðu máli komust nm. að þeirri niðurstöðu að fjárveiting til skólans þyrfti að hækka um a.m.k. 476 þús. kr. umfram það, sem áður getur. Á þskj. 176 er því um misprentun að ræða og till. verður því leiðrétt á sérstöku þskj.

Næst er brtt. við liðinn 1 04 382, fávitar, framfærsla. Lagt er til, að fjárveiting hækki um 4 1/2 millj., en það er vegna hækkaðra daggjalda viðkomandi sjúkrahúsa og hæla. – Við lið 1 04 471, kirkjubyggingasjóður, er till. um hækkun á fjárveitingunni um 500 þús. kr. og verður þá samtals framlag til kirkjubyggingasjóðsins 2 millj. kr.

Næst kemur till. um aukið framlag til Atvinnujöfnunarsjóðs og nemur upphæðin 30 millj. kr. Er þessari upphæð, sem hér um ræðir, ætlað að mæta kostnaði vegna sérstakra atvinnuörðugleika. Eru þá sérstaklega hafðir í huga erfiðleikar togaraútgerðarinnar og línubátanna.

Samkv. upplýsingum, sem fjvn. bárust frá Alþýðusambandi Íslands, hafa Norðurlöndin, Noregur, Danmörk og Svíþjóð, um alllangt skeið rekið félagsmálaskóla í Genf. Ber hann heitið Norræni lýðháskólinn í Genf. Fyrsti skólastjóri þessa skóla var hinn mæti maður Halvard Lange. Alþýðusamband Íslands telur, að fyrir hendi sé áhugi hjá nágrannaþjóðunum á, að Ísland gerist einnig aðili að þessu norræna menningarstarfi. Ef úr þessu verður, mundi íslenzk verkalýðshreyfing öðlast rétt til þess að senda nemendur á námskeið skólans. N. þótti rétt að verða við ósk Alþýðusambands Íslands um þetta efni, og leggur því til, að tekin verði upp fjárveiting til Norræna lýðháskólans í Genf að upphæð 120 þús. kr., en það er sú upphæð, sem hefur verið farið fram á.

Þá koma brtt. við liðina 1 06 382, eftirlaun samkv. launalögum, 1 06 383, styrktarfé og ýmis eftirlaun, embættismenn 0 10 laun og vísast þar til sundurliðunar á sérstöku yfirliti, sem er aftast í þskj.176 og liðurinn 1 06 384, styrktarfé og ýmis eftirlaun, ekkjur og börn, vísast þar einnig til sundurliðunar, sem er í sérstöku yfirliti aftast í þessu sama þskj., en samtals nemur hækkun á þessum þremur útgjaldaliðum frá því, sem er í fjárlagafrv., 2 millj. 303 þús. 70 kr.

Þá kemur næst brtt. við liðinn 1 07 211, vegagerð 0 94 til einstaklinga, heimila og samtaka. Lagt er til, að liðurinn hækki um 85 þús. kr., en það er vegna eftirlauna fyrrv. vegaverkstjóra.

Svo sem ég áður hef greint frá, var lagt til, að tekjur af vitagjaldi verði hækkaðar um 1 millj. kr., en þá er gert ráð fyrir, að vitagjald hækki sem þessu nemur. Hér er hins vegar lagt til samkv. till. meiri hl. n., að liðurinn I 07 332 O5, vitabyggingar, hækki um 1 millj. kr., og verður þá samtals 2.6 millj. kr.

Þá er lagt til, að inn verði tekinn nýr liður við 4. gr., 1 07 406 iðnþróunarsjóður, að upphæð 11 millj. kr. Er hér um að ræða 1/4 hluta af væntanlegu framlagi Íslendinga til þessa sjóðs, því að alls er gert ráð fyrir, að Ísland leggi fram 44 millj. kr. Næst er lagt til, að inn komi nýr liður við 1 07 499, iðja og iðnaður. Framlag til að stuðla að nýjungum í iðnaði. Upphæð þeirri, sem hér greinir, er ætlað að varið verði sem framlagi til tækninýjunga og hönnunar eftir nánari reglum, sem iðnrh. setur. Gert er ráð fyrir, að styrkir eða lán af þessari fjárveitingu verði við það miðuð að styðja að eflingu útflutningsiðnaðar og nýrri iðnþróun innanlands.

Við liðinn 108 201, niðurgreiðslur á vöruverði, er lagt til, að fjárveiting hækki um 30 millj. kr. og verður þá samtals að upphæð 582 millj.

Á þskj. 177 eru nokkrar brtt., sem meiri hl. n. ber fram og eru við ýmsa liði fjárlagafrv. Kemur þar fyrst till. um að hækka bótagreiðslur trygginganna um samtals 97 millj. kr., en það er öll upphæðin, einnig það, sem kemur frá hinum tryggðu og atvinnurekendum, sveitarfélögum og ríkissjóði. En samkv. till. meiri hl. n. er hér hins vegar um hækkun á fjárveitingu úr ríkissjóði að ræða, sem nemur samtals 58.6 millj. Þessi upphæð, 58.6 millj., skiptist þannig á tryggingaliði, að 37 millj. kr. verða auknar fjölskyldubætur, en það svarar til þess, að hækkun fjölskyldubóta, sem ríkissjóður greiðir, verði 50 millj. á ársgrundvelli. Eftirstöðvarnar, 21.6 millj., verða þá til aukningar á ellilífeyri og öðrum líftryggingum og svarar þessi upphæð til þess, að heildarupphæð á auknum líftryggingum nemi 60 millj. kr. á ársgrundvelli, en ríkissjóður greiðir svo sem kunnugt er samkv. lögum 36% af heildarbótunum.

Á sama þskj. eru brtt. við framlög til landshafna í Þorlákshöfn, Keflavík, Njarðvík og Rifi, sem samtals fela í sér hækkun fjárveitinga úr ríkissjóði, sem nemur 3 millj. kr. Um sundurgreiningu á upphæðinni milli hinna ýmsu liða, vaxtagreiðslur og afborganir lána, vísast að öðru leyti til þess, sem fram kemur á þskj.

Þá er á þskj. 177 einnig brtt. við liðinn 2 07 371, flugmál og flugumferðarstjórn. Nemur hækkun fjárveitinga samtals 4 millj. 900 þús. kr. Skiptist upphæðin þannig, að 1.9 millj. kr. er vegna alþjóðaflugumferðar, en 3 millj. eru aukið framlag til fjárfestingar eða stofnkostnaðar.

Þá eru till. við 6. gr. Aftan við gr. bætast nýir liðir: Að ábyrgjast allt að 40 millj. kr. lán fyrir Byggingarsjóð verkamanna, að ábyrgjast allt að 10 millj. kr. lán fyrir Orkusjóð til jarðborana á Krýsuvíkur– og Trölladyngjusvæðinu. Þá er endurflutt til. fjvn., sem tekin var aftur við 2. umr. málsins, um að heimila makaskipti við Reykjavíkurborg á tilteknum lóðum og lóðaspildum. Við 2. umr. málsins var þess óskað, að till. væri tekin aftur til 3. umr., svo að þm. gæfist betri tími til að athuga málið. Fjvn. fékk allar þær upplýsingar um málið, sem óskað var og enn fremur skipulagsuppdrætti af öllu þessu umrædda svæði. Hér er því till. endurflutt þannig, að heimila ríkisstj. að gera makaskipti við Reykjavíkurborg á lóðum í Reykjavík þannig, að ríkisstj. afsalar Reykjavíkurborg lóð þeirri, sem er eign ríkisins á svæði, sem afmarkast af Hverfisgötu, Ingólfsstræti, Sölvhólsgötu og Kalkofnsvegi (Arnarhóli), rúmlega 10 þús. fermetrar að stærð, sneið af lóð Stjórnarráðsins við Lækjartorg, um 965 fermetrar að stærð og sneiðum af lóðum Landsbókasafnsins og Þjóðleikhússins í samræmi við staðfest skipulag Hverfisgötu, um 270 fermetrar að stærð. Á móti afsalar Reykjavíkurborg til ríkisstj. lóð, um 38 þús. fermetra að stærð, til viðauka við núverandi eignarlóð Landsspítalans og er sú viðbótarlóð innan landssvæðis, sem markast af Hringbraut, Miklatorgi, Snorrabraut, Eiríksgötu og Barónsstig. Þá kemur d–liður: Að heimila, að fengnum meðmælum fjvn., byrjunar framkvæmdir við barnaskóla á Akureyri, í Vestmannaeyjum og við gagnfræðaskóla í Neskaupstað, ef ósk kemur um það frá hlutaðeigandi sveitarfélögum. Hér er ekki um viðbótarfjárveitingu að ræða. Hins vegar getur það orðið hagstætt fyrir viðkomandi aðila til þess að hagnýta fjármagn, sem fyrir hendi er og líka fyrir umræddar framkvæmdir, að slík heimild, sem hér um ræðir, sé fyrir hendi. Ég tel einnig rétt, að það komi fram við þessa umr., varðandi stækkun barnaskólans á Fáskrúðsfirði og stækkun sundlaugar á Reyðarfirði, að það er álit n., þó að hún sé ekki vön að gefa slíkar yfirlýsingar, að þessar tvær framkvæmdir séu meðal þess, sem hafi forgang um byrjunar framkvæmdir á árinu 1971. Loks er lagt til að heimila að selja húseignir Heyrnleysingjaskólans að Stakkholti 3 í Reykjavík, en þskj. með þeirri brtt. á hefur ekki enn þá borizt eða verið útbýtt.

Eins og ég hef áður gert grein fyrir, er gert ráð fyrir því, að tekjur ríkissjóðs hækki um 290 millj. kr. frá því, sem gert var ráð fyrir, þegar fjárlagafrv. var lagt fram. Á móti þessu hafa komið stórir nýir útgjaldaliðir, sem sumir miða sérstaklega að því að létta undir með þeim, sem erfiðast eiga og það er gert með því m.a. að auka bótagreiðslur frá Tryggingastofnuninni og með niðurgreiðslum á vöruverði. Ef stiklað er aðeins á því stærsta, sem lagt hefur verið til, hækkun útgjalda samkv. till. fjvn. og meiri hl. fjvn., sem eins og ég hef áður skýrt frá varð samstaða um innan n., þá vil ég að lokum benda sérstaklega á eftirtalda liði:

Það er lagt til, að niðurgreiðslur á vöruverði hækki um 30 millj. kr. Það er lagt til, að auknar fjölskyldubætur nemi um 37 millj. kr., auknar lífeyristryggingar nemi um 21.6 millj., til Atvinnujöfnunarsjóðs, til atvinnutryggingar í landinu fari 30 millj. kr., til að jafna aðstöðu nemenda úr strjálbýli 10 millj. kr., til að efla útflutningsiðnað og iðnþróun í landinu tæplega 15 millj. kr., til áhafnadeildar Aflatryggingasjóðs um 5 millj. kr.

Þessir fáu liðir, sem ég hef nú nefnt, eru þannig með till. til hækkunar, sem nema samtals um 148.6 millj. kr. Áður hafði n. flutt till., sem fólu í sér hækkanir, sem námu samtals um 158 millj. kr. En þar voru stærstu liðir varðandi hækkanir til verklegra framkvæmda, svo sem til nýbygginga skóla, nýbygginga hafna og sjúkrahúsa, en till. fjvn., sem snertu aðeins þessa þrjá framkvæmdaliði námu í upphafi samtals til hækkunar yfir 100 millj. kr.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir þeim brtt., sem meiri hl. fjvn. hefur leyft sér að bera fram við 3. umr. frv. til fjárl. fyrir árið 1970. Verði þessar brtt. samþykktar, skapast grundvöllur fyrir því, að fjárlög fyrir árið 1970 verði afgreidd greiðsluhallalaus.