25.04.1970
Neðri deild: 83. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans við mínum spurningum áðan. En ég get nú ekki annað en látið í ljós hryggð mína yfir því, að það skyldi koma þar fram, að það var ekkert gert á s.l. sumri í sambandi við þær rannsóknir, sem fyrirhugaðar voru á Dettifosssvæðinu. Annars verð ég nú að segja það, að eftir að hafa heyrt skýrslu þá, sem mér var að vísu kunnugt um áður, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. las upp hér áðan, um þær rannsóknir, sem hefðu verið gerðar á Dettifossvirkjun fyrir nokkrum árum, þá undrar mig, að það skuli þurfa nú að gera einhvers konar frumrannsóknir aftur á þessu sama svæði. Það hefur eiginlega engin skýring komið fram, hvers vegna þess þurfi. Hins vegar virðist svo vera, að það sé búið að ýta þessum möguleika þarna fyrir norðan með Dettifossvirkjun til hliðar, a.m.k. í bili. Það sýnir, að þótt ráðh. segði það hér á Alþ. í fyrra, að það væri fyrirhuguð rannsókn í fyrrasumar, þá hefur hún ekki verið gerð. Hann sagði, að það væri rétt, að atvinnumálanefndin hefði óskað eftir að rannsaka Efri-Laxá. En ég verð nú að segja það, að ég veit ekki betur en á óskalista atvinnumálanefndar Norðurlands væri einnig að gera þessar umræddu athuganir á Dettifosssvæðinu.

Hæstv. ráðh. sagði, að Dettifossvirkjun kæmi ekki til mála nema í sambandi við stóriðju. En eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. gat um áðan, þá upplýsti hæstv. iðnmrh. hér á dögunum, að það væri á umræðustigi við fleiri aðila um stóriðjubyggingu á Norðurlandi. Ég hefði nú haldið, að það þyrfti að athuga um virkjunarmöguleika, um leið og slíkar viðræður færu fram. Þess vegna harma ég það mjög, að þessar rannsóknir hafa ekki verið gerðar.

Ég vil ítreka það aftur, að í sambandi við Skjálfandafljót verði gerðar rannsóknir. Mér finnst það vera dálítið einkennileg vinnubrögð að athuga ekki möguleikana í fallvötnum eins og Skjálfandafljóti, áður en farið er að ræða um eða gera áætlanir um að flytja fljótin í önnur fljót, því að a.m.k. Norðlendingar vita, að það eru sæmilegir virkjunarmöguleikar í Skjálfandafljóti. Ég vil ekki segja meira, því að ég hef enga þekkingu á þessu sjálfur, en það er talið og það er viðurkennt af verkfræðingum, að svo sé. En hvað hagkvæmir þeir eru, er svo annað mál. En það þarf að athuga það.

Í sambandi við þá till., sem hv. minni hl. hefur lagt fram, breytingu á 7. gr., þ.e.a.s. að hækka framlag til rafvæðingar í sveitum um 15 millj., þá vil ég lýsa stuðningi mínum við það. En ég vil benda á í því sambandi, að í þessari framkvæmdaáætlun og ég held líka í skýrslu fjmrh. er þess getið, að það sé ekki víst, að lokið verði öllum þessum framkvæmdum, sem fyrirhugaðar eru í sambandi við framkvæmdaáætlunina, á þessu ári. Jafnvel þó að það sé haldið nú, að væri ekki hægt að ljúka því af ýmsum ástæðum að leggja þessar línur upp að 1.5 km á árinu, þá finnst mér, að það skemmdi ekki, að þessi heimild lægi fyrir og væri gert það sem hægt er af þessari áætlun.

Hins vegar kemur í ljós, þegar maður fer að athuga þetta, og það kemur nú grunur fram hjá mér, að það eigi nú kannske ekki að fara mikið út í það að rafvæða a.m.k. sum þessi býli, sem eftir er að rafvæða. Ég hef hér fyrir framan mig frv. um olíuhreinsunarstöð. Þar er spá um, hvað verði margt í sveitum landsins árið 1980, og því er slegið föstu, að bændabýli séu nú um 5000, hafi verið 5400 árið 1964, hafi verið 6700–6800 árið 1954, en verði 3700 á árinu 1980. Þetta eru spár frá Efnahagsstofnuninni. Þetta er á bls. 29 í þessari bók, þessu frv. eða grg. með olíuhreinsunarstöð á Íslandi. Ef það er stefnt að því að fækka bændunum um þriðjung hér um bil á þessum áratug, þá sér maður, að það er náttúrlega óþarfi að gera áætlanir um að setja rafmagn út um þessar sveitir. Það getur verið, að sú tregða við þessari till., sem hér liggur fyrir, sé þessi ástæða, en ekki það, að það væri ekki hægt að ljúka þessum línulögnum, ef vilji væri fyrir hendi.