27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

196. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1970

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil nú lýsa fylgi mínu við þá till., sem borin hefur verið fram skriflega við þetta frv. um að hækka framlagið til rafvæðingar í sveitum um 10 millj., en við 2. umr. var till. um nokkru meiri hækkun felld í hv. d. Við þá umr. gerði ég fsp. um það að gefnu tilefni til hæstv. ráðh., hvað átt væri við, er talað væri um af hálfu stjórnvalda, að ekki væri hægt að ljúka þeirri rafvæðingu, sem hér er um að ræða, á næsta sumri af tæknilegum ástæðum. Ég spurði um það, hverjar þessar tæknilegu ástæður væru, sem hindruðu framkvæmdir á næsta sumri, og hæstv. ráðh. gaf þau svör, að þar væri um að ræða vandkvæði á því að útvega efni til línulagningar frá öðrum löndum. Ég vil draga í efa, að þetta geti verið rétt, held, að hæstv. ráðh. hljóti að hafa borizt ótraustar upplýsingar um það efni. Það virðist mér vera hreint óhugsandi, að ekki væri hægt að fá til landsins, t.d. í septembermánuði, efni til línulagninga, sem pantað væri núna í lok apríl eða byrjun maí, þannig að ég vona, að það komi í ljós, að þessir tæknilegu erfiðleikar séu ekki fyrir hendi.

Ég vil svo bæta örfáum orðum við það, sem ég sagði við 2. umr., í sambandi við þann lið áætlunarinnar, sem fjallar um orkurannsóknir. Þetta var þá nokkuð rætt. Hv. 5. þm. Norðurl. e. spurðist fyrir um það hjá ráðh., hvaða orkurannsóknir væru fyrirhugaðar á næsta sumri. Í sambandi við þessar umr. rifjaði ég upp hér í hv. d. ýmislegt, sem gerðist í sambandi við stórvirkjunarmál fyrir 8–10 árum, og m.a. þá áætlun, sem þá lá fyrir um virkjun Dettifoss, en upplýsingar um þetta er að finna bæði í skýrslu stórvirkjunarnefndar og í skýrslu verkfræðingafirmans Harza í New York. Þessar skýrslur bera það með sér, að allmiklar rannsóknir hafa farið fram á virkjunarmöguleikum við Jökulsá og nokkuð langt síðan þær rannsóknir voru hafnar, en síðast munu þær hafa átt sér stað á árunum 1961–1962.

Út af orðum, sem féllu við umr., eftir að ég talaði, vil ég vekja athygli á því, að raforkumálaskrifstofan hefur í áætlun sinni um forrannsóknir á vatnsorku Íslands á árunum 1970–1974 lagt til, að varið verði nálega 17 millj. kr. til rannsókna á Jökulsársvæðinu við Dettifoss. Þetta er nánar skýrt síðar í skýrslunni, þar sem segir, að þær áætlanir, sem gerðar voru um virkjun Dettifoss á árunum kringum 1960, hafi verið á því byggðar, að fallvatnið yrði leitt neðanjarðar frá brún Selfoss eða nokkru ofar niður fyrir Hafragilsfoss. En raforkumálaskrifstofan lætur í ljós, að það kunni að vera fullt svo heppileg leið að gera vatnsveg ofanjarðar eða skammt undir yfirborði, en þetta hefur ekki áður verið rannsakað, að því er virðist samkv. skýrslunni. Þess vegna er þarna gerð till. um nýtt rannsóknarefni, og ég vil taka undir það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði, að það er auðvitað mjög brýnt, ef hugsað er til einhvers konar stóriðju á Norðurlandi, að þessar rannsóknir séu framkvæmdar, þannig að þær liggi fyrir. Ég vil einnig taka undir það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. ræddi um nauðsyn rannsókna á virkjunarmöguleikum í Skjálfandafljóti. Skjálfandafljót er að vísu vatnsminna en Jökulsá á Fjöllum, en eigi að síður hafa verið talin þar allgóð virkjunarskilyrði, en það getur verið spurning um, hvort sú virkjun, sem þar er gerð, henti betur fyrir stóriðjumarkað eða almennan markað. En litlar rannsóknir hafa verið gerðar á þessum stað, og ég tel það alveg sjálfsagt, að unnið verði að þeim nú sem allra fyrst.

Fleira væri það, sem ástæða gæti verið til að ræða um í sambandi við þessar fyrirhuguðu orkurannsóknir og náttúrlega væri það eðlilegt, þegar till. eru lagðar fyrir Alþ. um að taka lán til orkurannsókna og til ýmissa annarra framkvæmda, sem hér eru tilgreindar í þessu frv., að þá væri áætlunin í áætlunarformi og betur sundurliðuð en hún er í þessu frv. Það hlýtur að verða til athugunar á komandi tímum.