03.03.1970
Efri deild: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

11. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil aðeins nota tækifærið til þess að þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. Og jafnframt vil ég leyfa mér að þakka frsm. n. fyrir góða grg., hvernig að málinu hefur verið unnið í n. Einnig var það viðkunnanlegt að gera grein fyrir ýmsum þeim erindum, sem n. hafa borizt, þó að þau komi ekki fram í tillöguflutningi eða fskj.

Ég hef lagt áherzlu á það í sambandi við flutning þessa máls nú, sem flutt var 1966 fyrst, held ég, og var á þinginu 1966-1967, að málið hlyti afgreiðslu í þinginu fyrst og fremst. Málið hefur verið til meðferðar, fyrst undirbúið af sérstakri n., sem ráðh. skipaði, og svo að sjálfsögðu í samráði við biskup fjallað um það af kirkjuþingi og prestastefnu og mikið rætt um málið, og ég hef vel getað skilið, að kirkjunnar mönnum sárnar það, þegar slík mál eru á ferðinni, að Alþ. leiði hjá sér afgreiðslu þeirra, eins og gert hefur verið, og því hef ég lagt áherzlu á það, að nú, þegar frv. er lagt fyrir hv. Alþ., hlyti málið endanlega afgreiðslu. Ég skil mætavel, að sumt af því, sem er í þessu frv. og er í till., sem fram eru fluttar, er viðkvæmt mál einstökum aðilum, og því er það ekki nema eðlilegt, að það séu nokkuð skiptar skoðanir um það, hvernig skuli standa að atkvgr. í sambandi við einstök atriði frv. og einstakar till., sem fram hafa komið. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þau mál og ekki gera neina tilraun til þess að mæla hér með eða móti neinni einstakri till., sem fram hefur komið. Ég hef alltaf talið, að það væri í sjálfu sér mjög eðlilegt, að ýmsar brtt. kæmu fram við frv. Aðalatriðið er í mínum augum, að það hljóti afgreiðslu, og þá á ég auðvitað við frá mínu sjónarmiði, að það nái í meginatriðum fram að ganga, en það verð ég auðvitað að sætta mig við eins og aðrir, að það arki að auðnu með það, þegar endanlegar atkvgr. fara fram.

Það er aðeins um Þingvallaprestinn og prestakallið, sem mig langar til að segja örfá orð. Þar eru nú tvær till. mjög keimlíkar, en nokkur stigsmunur er á þeim, og skal ég í sjálfu sér ekki gera upp á milli og vil gjarnan hafa betra tóm til að átta mig á, með hvorri ég mundi heldur standa, þegar þar að kemur, en greiði nú ekki atkv. um þær hér í Ed. að sjálfsögðu. Mig langar til að láta þess getið í þessu sambandi, að ég var kominn rétt til fullorðinsára, þegar ég áttaði mig á því, að Þingvellir væru í Árnessýslu. Ég hef alltaf litið á Þingvelli sem allsherjarstað landsmanna, sem aðrir landsmenn ættu jafnmikið tilkall til og Árnesingar. Þar var Alþingi stofnsett á sínum tíma, og þetta var allsherjarþingstaður landsmanna, sem menn riðu til frá gervöllu landinu. Og þó að ég skilji mjög vel tilfinningamál Árnesinga, man ég nú eftir ýmsum, sem stóðu að kristnitökunni, eftir því sem sögur herma, sem voru úr öðrum sýslum en Arnessýslu, þó að þeir hafi að sjálfsögðu átt sinn mikla hlut að því, og ekki held ég, að síztur hafi verið hlutur eins Þingeyings við þann mikla merkisatburð. Og þannig er það, að saga Þingvalla er nokkuð samofin sögu þjóðarinnar og allrar þjóðarheildarinnar.

Ég hef haft samráð við og viðræður við flm. beggja till. um Þingvelli og er algerlega meðmæltur því með einu eða öðru móti, eins og hér er lagt til, hvor till. sem yrði nú ofan á eða hvor aðferð sem yrði við það höfð, að stuðlað verði að því, að prestur sé á Þingvöllum og reynt að viðhalda því fyrirkomulagi, sem verið hefur, svo lengi sem þess er kostur, í bili a.m.k., að þjóðgarðsvarðarstarfið og prestsstarfið verði sameinað, og það hlýt ég þeim mun fremur að gera, þar sem allblessunarlega hefur til tekizt í þeim efnum að undanförnu. En það er alveg rétt, sem fram kom hjá hv. frsm. n., að auðvitað geta þau viðhorf skapazt, að hér kunni að vera erfiðleikar á í framkvæmd.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um málið, en vil þakka n. fyrir. En mér er ljóst, að Ed. lætur ekki á sér standa um að taka afstöðu til málsins, og ég vona, að frv. nái fram að ganga hér í öllum meginatriðum, þannig a.m.k., að engin spjöll verði á því, síður en svo. Að sumu leyti tel ég, að þær till., sem hér eru fram bornar, verði til töluverðra bóta á frv., og tengi hér nokkrar vonir um það, að á þessu þingi muni þetta mál nú ná endanlega fram að ganga.