03.03.1970
Efri deild: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 715 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

11. mál, skipun prestakalla

Axel Jónsson:

Herra forseti. Hv. frsm. menntmn. hefur nú vikið að þessu máli allítarlega. Ég benti hér á nokkur atriði við 1. umr. málsins og skal ekki endurtaka það. Frsm. kom inn á ýmis þau atriði. Það er aðeins eitt, sem ég er ekki alls kostar sáttur með. Það er, að ekki skyldi hafa verið hægt að taka tillit til þeirrar óskar minnar eða ábendingar að skilgreina frekar Reykjavíkurprófastsdæmi, yfir hvaða svæði það nær, og þar á ég við, að Reykjavíkurprófastsdæmi tekur nú yfir annað fjölmennasta sveitarfélag landsins, Kópavog, án þess að það komi nokkurs staðar fram. Fram til 1952 var þessu þannig háttað, að Kópavogi var skipt milli Laugarness- og Bústaðasóknar, en þá var stofnað sérstakt prestakall í Kópavogi. Ég hef við fljótlega athugun ekki getað fundið það í lögum, að Kópavogskaupstaður tilheyri Reykjavíkurprófastsdæmi. Ég áskil mér því, herra forseti, allan rétt til þess að athuga málið betur og flytja máske brtt. við 3. umr. málsins efnislega á þá leið, að sú skilgreining komi fram um Reykjavíkurprófastsdæmi, að það taki yfir Reykjavíkur- og Kópavogsprestaköll. Ég tel það óeðlilegt, að annað fjölmennasta sveitarfélag landsins er hvergi nefnt í lögum um þessi mál, og hygg, að það geti verið aðeins máske orsökin sú, að þróunin hefur verið svo ör einmitt í sambandi við mitt ágæta byggðarlag, að þetta hafi hreinlega dottið niður. En ég endurtek, ég tel eðlilegra, að það væri tekið fram í l. varðandi Reykjavíkurprófastsdæmi, að það taki yfir Kópavogsprestaköll einnig.