03.03.1970
Efri deild: 50. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

11. mál, skipun prestakalla

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. menntmn., hef ég skrifað undir nál. með fyrirvara og vil með fáeinum orðum gera grein fyrir því, í hverju sá fyrirvari er fólginn, og sömuleiðis fara nokkrum orðum um fáein önnur einstök atriði þessa frv., sem brtt. hafa komið fram við.

Það má segja, að það felist einkum tvennt í þessu allviðamikla frv., það sé um að ræða aðallega tvö meginatriði. Annars vegar er með frv. gerð allmikil endurskipulagning eða endurskipun prestakalla og prófastsdæma landsins og fyrst og fremst í þá átt að fækka prestaköllum allverulega, og að því hníga ýmis rök og þá m.a. og ekki sízt mjög svo breyttar samgöngur, fækkun fólks í mörgum prestaköllum og erfiðleikar á því að fá þangað presta. Ég tel í meginatriðum, að þá sé rétt stefnt og eðlilega hafi þarna farið fram endurskoðun á hinni gömlu prestakallaskipan og þar sé í meginatriðum verið að færa hana í nútímahorf, í það horf, sem mætti gera ráð fyrir, að auðveldaði þá allmikið að fá presta í þau prestaköll, sem ýmist hafa verið prestslaus eða miklir erfiðleikar hafa verið samfara að skipa presta í nú alllengi að undanförnu. Og að því er snertir stefnuna í þessum efnum og þennan annan meginþátt frv., þá er ég stefnunni alveg sammála og hef fyrir mitt leyti getað í megindráttum fallizt á hana.

Hinn meginþáttur þessa frv. er um stofnun kristnisjóðs, og segja má, að þar sé um að ræða nýmæli, sem kirkjunnar menn leggja eðlilega verulega áherzlu á. Út af fyrir sig er ég ekki andvígur þeirri hugmynd, sem felst í því að stofna kristnisjóð, sem kirkjunnar menn hafi veruleg ráð yfir, en ég tel hins vegar, að það sé í hæpnasta lagi að álykta sem svo, eins og gert er í þessu frv., að allt það, sem sparast við það að endurskipuleggja prestaköllin í landinu og fækka þeim, skuli nákvæmlega renna í þennan kristnisjóð. Ég tel, að hér hefði verið miklu eðlilegra að spara annars vegar það, sem skynsamlegt þótti að spara, að því er snertir fækkun prestakalla, en gera hins vegar þá ráð fyrir því, að árlega væri lögð fram á fjárl. einhver upphæð til kristnisjóðs og þeirrar starfsemi, sem hann á að standa undir, og sú upphæð væri þá miðuð við þau verkefni sjóðsins, sem fjárveitingavaldið á hverjum tíma viðurkenndi og teldi réttmætt að styðja, en þetta færi ekki eftir einhverri happa- og glappaleið, sem væri ekki eða ég get ekki séð, að þurfi að vera í neinu samræmi við eðlilega þörf þessa sjóðs fyrir fé á hverju ári. Það, sem þarna kann að sparast við fækkun prestakalla og aðrar þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir, kann að vera meira eða minna en sannanlega væri fjárþörf kristnisjóðs miðað við eðlilega starfsemi hans. Ég tel, að þarna sé farið inn á býsna hæpna braut, og hefði raunar verið og væri ástæða til að endurskoða þetta atriði nokkru nánar en gert hefur verið, og minn fyrirvari beinist fyrst og fremst að þessu atriði, að ég tel það næsta hæpið að ákveða í eitt skipti fyrir öll, að það, sem sparist í sambandi við endurskipulagningu prestakalla, skuli renna í þennan kristnisjóð og alveg án tillits til þess, hver fjárþörf sjóðsins er á hverjum tíma.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um hina fyrirhuguðu starfsemi kristnisjóðsins. Þar er tvímælalaust verið að auka allverulega vald kirkju og biskups og færa þessum aðilum í hendur nokkra fjármuni og heimila þeim jafnframt að verja þeim til sérstakra hluta í þjónustu kirkju og kristni í landinu. Hér er m.a. gert ráð fyrir því, að heimilað verði að ráða þrjá æskulýðsfulltrúa í stað eins, sem verið hefur. Hér er gert ráð fyrir því, að ákveðið eða heimilt skuli vera að ráða sérstakan prest til þess að starfa á Norðurlöndum með búsetu í Kaupmannahöfn. Og hér er enn fremur gert ráð fyrir að ráða sérstaka sjúkrahússpresta. Ég vil gera þá aths. við þetta síðast nefnda ákvæði, að ég lít þannig á, að það sé að ýmsu leyti hæpið og það geti jafnvel verið mjög óvíst, að það þurfi að vera til bóta að ráða sérstaka presta til prestsþjónustu á sjúkrahúsum. Ég er raunar á því, að þetta sé ekki rétt stefna. Ég veit ekki betur en prestar bæði hér í Reykjavík og annars staðar á landinu hafi verið mjög fúsir að heimsækja sjúklinga á sjúkrahúsum, og ég hygg, að þeir verði það áfram, og ég er þeirrar skoðunar, að það sé að flestu leyti æskilegast, að sjúklingar og vandamenn þeirra geti ráðið og ráði mestu um það, til hvaða presta er leitað í sambandi við það, þegar sjúkir menn vilja njóta prestsfundar, og það sé næsta hæpið að veita þarna heimild til þess að ráða sérstaka sjúkrahússpresta.

Þá vil ég aðeins víkja að því, að eftir að frv. hafði verið til meðferðar í menntmn., hefur mér verið á það bent, að í sambandi við 1. gr. 44. tölul., þar sem er verið að ákveða skipan prestakalla í Borgarfjarðarprófastsdæmi, þá muni vera allverulegur áhugi fyrir því hjá heimafólki, a.m.k. ýmsu, að breytt verði um prestssetur í Stafholtsprestakalli. Ýmsir kunnugir þar telja, að eðlilegast sé, eins og nú er málum komið, að gera ráð fyrir því, að prestur sitji að Varmalandi, sem er að vísu mjög skammt frá Stafholti. En ástæðurnar fyrir þessum nokkuð almenna vilja heimamanna þarna munu vera annars vegar þær, að á Varmalandi er skólasetur, vaxandi skólasetur. Þar munu þegar vera komnir þrír skólar, og talið er líklegt, að það verði jafnvel auðveldara að fá prest í þetta prestakall, ef hann sæti á Varmalandi, þar sem skólasetrið er, en í Stafholti. Í annan stað vill það vera þannig með þær prestssetursjarðir, þar sem prestarnir treysta sér í mörgum tilfellum ekki til þess að taka upp búskap, að þá er fyrirkomulagið gjarnan dálítið erfitt og í ýmsum tilfellum vandræðalegt, þegar er þá verið að leigja bónda jörðina, kannske fáein ár, og ekki er vitað, hvað við tekur. Það eru meiri líkur til þess, að bóndi fáist á jörðina, ef hún verður ekki prestssetur. Ég hef í hyggju að flytja og þá trúlega ekki fyrr en fyrir 3. umr. brtt. við þetta atriði og sömuleiðis við atriðið um sjúkrahússpresta, sem ég nefndi áðan, um það, að sú gr. falli niður, því að ég er þeirrar skoðunar, að hugsunin, sem þar liggi á bak við, sé næsta hæpin.

Að lokum vil ég geta þess, að ég er meðmæltur því, að prestur verði áfram á Þingvöllum, hef hins vegar ekki gert mér verulega ljósan þann mun, sem er á þeim tveimur brtt., sem um það hafa verið lagðar fram. Ég sé nú ekki, að hann sé verulegur, a.m.k. efnislega, en ég fellst á þau rök, sem hafa verið færð fram fyrir því, að æskilegt sé, að prestur verði áfram á Þingvöllum.

Svona kannske meira til gamans en annars, þá ætla ég aðeins að ljúka þessum fáu orðum mínum með því að minna hæstv. dómsmrh. á það, að ég man nú ekki betur en það hafi verið ágætir Árnesingar, sem stóðu að því að koma kristninni á hér um árið. En það er nú kannske ljótt að segja það, að þeir Hjalti Skeggjason og félagar hans hafi platað svolítið Ljósvetningagoða til þess að vera með sér, en það liggur við, að þeim hafi tekizt það.